149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir prýðisræðu. Takk fyrir að deila með okkur upplýsingum úr könnun um forgangsröðun til málefnasviða, getum við sagt. Þar er margt mjög athyglisvert. Mér sýnist svona út frá forgangsröðun í þessari könnun að þetta sé mjög misjafnt, eins og hv. þingmaður fór mjög vel yfir, eftir aldurshópum, eftir flokkum, eftir kjördæmum. Það þarf að skoða allar þessar breytur. Vissulega getum við nýtt okkur slíkar upplýsingar þegar við hugsum um og ræðum samhengi hlutanna og þegar við ræðum fjárlagafrumvarpið eins og hér við 2. umr.

Mér fannst t.d. athyglisvert, ef við skoðum fjárlagafrumvarpið, að hæstv. ríkisstjórn eykur sannarlega útgjöld til stærstu málefnasviðanna. Verið er að fjárfesta verulega í heilbrigðiskerfinu. Verið er að fjárfesta í annars konar velferð en bara í heilbrigðishluta ráðuneytisins. Verið er að fjárfesta í samgöngumálum og verið er að fjárfesta í menntun og menntamálum.

Mér fannst jafnframt athyglisvert, af því að hv. þingmaður kom inn á hér minn flokk, Framsóknarflokkinn, og áhersluna á velferðarmálin, að eftir sem áður fari 65 kr. af hverjum 100 kr. í eitt ráðuneyti, í þennan stóra velferðarflokk.

Spurning mín til hv. þingmanns snýr að því: Hvernig mundi hv. þingmaður nýta sér þessar upplýsingar í sinni forgangsröðun í sínum fjárlögum?