149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er góð spurning. Við notuðum nákvæmlega þær upplýsingar sem við fengum fyrir ári síðan og Gallup aflaði til grundvallar forgangsröðun okkar Pírata í skuggafjárlögum sem komu fram fyrir síðustu kosningar. Við notuðum vilja landsmanna og endurspegluðum hann í forgangsröðun í ríkisfjármálum. Það er nokkuð sem við ættum að gera hér.

Það er beinlínis gert sums staðar. Það hefur verið reynt í New York ríki. Það hefur verið reynt í Brasilíu, á mismunandi stöðum, að leyfa borgarbúum eða þeim sem búa á svæðinu sjálfum að forgangsraða allt upp í 100% af þeim tekjum sem sveitarfélagið eða svæðið fær inn. Fólk forgangsraði sjálft í gegnum ákveðið ferli.

Það hefur reynst mjög vel. Það hefur minnkað ójöfnuð. Það hefur aukið hamingju fólks á svæðinu. Fólk hefur verið mjög ánægt með að fá að koma svona að málum. Píratar hafa ekki komist í aðstöðu til að gera tilraunir með slíkt, en ég veit að við höfum áhuga á því. En það sem við höfum getað gert er að biðja Gallup um að gera fyrir okkur skoðanakönnun um það hvernig landsmenn vilja forgangsraða í ríkisfjármálum, og endurspegla það í tillögum okkar.