149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Það eru búin að vera svo mörg þing upp á síðkastið. Ég var nefnilega farinn af þingi, held ég, þegar þetta var á endanum samþykkt. En ég tók þátt í umræðunni um það og fylgdist með því. Það sem mér fannst varhugavert við þessa nýju nálgun (Gripið fram í.) er að verið var að færa mikið vald til framkvæmdarvaldsins. Við úthlutum peningum í pottum til framkvæmdarvaldsins og það úthlutar þeim síðan áfram.

Við færðum mikið af fjárveitingavaldinu, eða þeir sem samþykktu þetta, frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Það nefndi ég hérna af því að þetta mál var oft rætt áður en ég hætti á þingi. Ég nefndi að það væri mjög varhugavert. Ég nefndi líka að það sem gæti verið jákvætt við það væri að við fengjum betri ramma um það, að þetta þyrfti að vera skilvirkt, alls konar góð gildi til að ramma það inn og að við fengjum meiri gegnsæi í málið.

Nú hefur ramminn brostið hjá framkvæmdarvaldinu af því að þeir virða ekki rammann, og jafnvel það ráð sem á að fylgjast með því að ríkisstjórnir fylgi þessum ramma segir bara: Heyrðu, þið þverbrjótið þennan ramma, þannig að ramminn hefur brostið og gegnsæið hefur versnað. Því sem þingið átti að fá út úr þessu með því að afsala sér töluverðu fjárstjórnarvaldi til framkvæmdarvaldsins hefur framkvæmdarvaldið ekki skilað til þingsins sem það átti að skila á móti. Við erum því í verri stöðu í dag sem fjárstjórnarvald en áður en þessi lög voru sett. En það er gott. Björn Leví er einmitt að kalla eftir þessum hlutum í fjárlaganefnd.

Ég nefndi það við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra (Forseti hringir.) inni í matsal og hann sagði að ég mætti segja það (Forseti hringir.) í pontu, að við eigum að geta kallað eftir meiri upplýsingum um þetta samkvæmt lögum um þingsköp. Píratar munu ekkert hætta fyrr en við fáum allar upplýsingar upp á borðið.