149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Þetta endar á svipuðum nótum og ég myndi vilja byrja á, að þetta sé ógagnsætt frumvarp. Við erum í fjárlagaumræðu sem klassískt séð hefur ekki verið umfangsmikil í störfum Alþingis. Það varð víst aðeins breyting á því á hrunsárunum þar sem fjárlagaumræðan varð allt í einu miklu viðameiri, áður hafði það kannski verið klárað á einum degi eða eitthvað því um líkt.

Við erum í ákveðinni skuld og ég lagði upp með að mikilvægt væri að fá góða umræðu um fjárlög í 2. umr. Á undanförnum tveimur árum höfum við misst algerlega af fjárlagaumræðunni á mjög krítískum tíma í innleiðingarferli laga um opinber fjármál þar sem við biðjum um gagnsæ fjárlög, þar sem ráðherrar segja fyrir fram hvað þeir ætla að gera með fjárheimildirnar sem þeir fá, hvernig þeir ætla að nota fjárveitingar til stofnana eða annað, sem þeir hafa ekki gert undanfarin tvö ár og gera ekki núna þriðja árið í röð. Enn sem komið er þetta að langmestu leyti afrit af gömlu aðferðinni af fjárlögum nema ekki eins nákvæm hún var. Áður voru fjárheimildir beint á stofnanir og beint á verkefni, voðalega nákvæmt upp á það að gera, og það var ekki markvisst af því að forsendurnar fyrir því að ákveða þær upphæðir voru einfaldlega sérstaklega mikið til staðar inn á Alþingi. Verið var að stilla þær fram og til baka án þess í rauninni hafa hugmynd um hvaða áhrif það hefði á verkefni eða áætlanir stofnana eða ráðuneyta eða hvað það var.

Ég skil því það skref að fara í almennari fjárheimildir til málaflokka og málefnasviða en á sama tíma verður að koma á móti í stefnumörkuninni og markmiðasetningunni kostnaðarmetin ætlan ráðherra til framtíðar. Sú kostnaðaráætlun getur breyst á einhvern hátt til og frá en það hjálpar til við framtíðarskipulag að gera kostnaðaráætlanir betri. Ef við erum sífellt að fá rangar kostnaðaráætlanir sem eru undir eða jafnvel yfir þeim heimildum sem við síðan veitum þá erum við með gögn í höndunum sem segja: Vinsamlegast gerir betri kostnaðaráætlanir.

Núna höfum við ekki hugmynd um það. Við höfðum ekki hugmynd áður og höfum ekki enn þá hugmynd um það hvort kostnaðaráætlanirnar eru almennt séð yfir eða undir. Við fáum greiningu frá Ríkisendurskoðun sem segir okkur að mjög margir liðir og mjög margir málaflokkar séu yfir heimildum en við höfum ekki hugmynd hvort það sé í rauninni gott hvað varðar verkefnin sem eru undir þeim heimildum eða ekki. Það getur vel verið að við látum einfaldlega of lítinn pening í góð verkefni sem fara síðan yfir fjárheimild af því að það er gott fyrir verkefnið að gera það eða það skilar góðum ábata til framtíðar af eyða aðeins meira í verkefnið núna, en Alþingi hefur ekki hugmynd um hvort það er satt eða ekki.

Mér sýnist ég sjá á svip þingmanna að ég þurfi að útskýra þetta aðeins betur. Ef við höfum ekki kostnaðaráætlanir fyrir framan okkur þá vitum við ekki hvort það sé góð hugmynd að gefa aðeins meira í, veita aðeins meiri fjárheimildir eða ekki. Það er staðan sem við erum í núna, við erum ekki með upplýsingar um það hvort kostnaðaráætlanir séu yfirleitt til, að puttanum hafi ekki bara verið stungið upp í loftið og giskað hversu mikinn pening hitt og þetta kemur til með að kosta. Í raun og veru er snúið í hina áttina þar sem fyrst eru fengnir peningar og síðan ákveðið í hvaða verkefni á að fara, sem er algerlega öfug leið miðað við lög um opinber fjármál eins og þau eiga að vera uppi á stefnu og markmiðadrifna fjármálagerð.

Ég varð að koma aðeins inn á þessi ógagnsæju fjárlög og af hverju þau knýja okkur og hafa undanfarin tvö ár knúið okkur til þess að taka umræðu um fjárlög dálítið alvarlega. Við getum ekki bara slaufað umræðunni og látið eins og þetta sé í desember í fyrra og hittiðfyrra og það séu ekki ný lög um opinber fjármál sem við störfum eftir. Við erum á mjög mikilvægum tímamótum í innleiðingarferlinu því að núna þegar við höfum nægan tíma til að fara yfir fjárlögin og næstu fjármálaáætlun, sem við afgreiddum með allt of skömmum fyrirvara í vor, getum við haft áhrif á það hvernig við viljum sjá þetta til framtíðar.

Þá að breytingartillögum Pírata. Ég ætli að fara aðeins nákvæmar yfir þær til þess að það sé mjög vel skjalfest hvað nákvæmlega þær tölur sem koma fram á breytingartillöguskjalinu þýða. Við leggjum til á málefnasviðinu Alþingi og eftirlitsstofnanir tvíþætt framlag upp á 47,2 milljónir, þar sem annars vegar eru 4 milljónir yfir til umboðsmanns Alþingis vegna OPCAT-verkefna og hins vegar 43,2 milljónir til Ríkisendurskoðunar vegna vanáætlunar í sértekjum sem þeir eru að verða af.

Á málefnasviði 5 er þríþætt framlag. Annars vegar er það til eftirlits með vinnumansali, sem er upp á eitt starfsgildi eða 11 milljónir til ríkisskattstjóra, hins vegar tvö ígildi starfsmanns til bæði ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra upp á 22 milljónir hvort, til eftirlits vegna skattsvika, samtals 55 milljónir á því málefnasviði.

Á málefnasviði hagsýslugerðar, grunnskóla og upplýsingamála eru 2,5 milljónir fyrir Þjóðskrá til að klára ákveðna eiginleika í nýja þjóðskrárkerfinu sem lýtur að því að þjóðskrá geti skráð fleiri en tvö kyn.

Á málefnasviði 9, Almanna- og réttaröryggi, fær lögreglan ígildi eins starfsmanns til að framfylgja eftirliti með vinnumansali. Þar undir er landhelgi og Landhelgisgæslan, styrking upp á 100 milljónir í almennan rekstur.

Það er best að ég fari aðeins yfir þetta aftur.

Gert er ráð fyrir varanlegri aukningu í OPCAT. Til ríkisskattstjóra er tímabundin fjárheimild vegna vinnumansals og varanleg til eftirlits með skattsvikum. Í tilfelli Þjóðskrár er heimildin tímabundin en varanleg viðbót í almennan rekstur vegna Landhelgisgæslunnar. Á málefnasviði 10 er varanleg aukning til Persónuverndar vegna nýju persónuverndarlöggjafarinnar, þar er eitt starfsgildi upp á 11 milljónir. Þar undir eru útlendingamál og Útlendingastofnun en þar leggjum við til tímabundna fjárheimild sem miðar að því Útlendingastofnun sé gert að lúta aðhaldskröfu. Undir eins rosalega miklu vinnuálagi og mikilli pressu og sú stofnun er teljum við ótækt að henni sé gert að lúta aðhaldskröfu á næsta ári.

Á málefnasviði 16 er ígildi tveggja starfsmanna til Samkeppniseftirlitsins, sem er varanleg viðbót upp á 22 milljónir, eftirlit með samkeppnislögum, efling á því málefnasviði.

Á málefnasviði 23, vegna sjúkrahúsþjónustu, eru annars vegar 1.600 milljónir til Landspítala – háskólasjúkrahúss, sem er útreikningur vegna mönnunarvanda sem spítalinn á við. Þau auglýsa t.d. eftir hjúkrunarfræðingi og fá 0,6 umsóknir á auglýsingu, staðan er það erfið. Þetta þýðir að þau eru með miklu dýrari mönnun en væri um að ræða í eðlilegu umhverfi, það kostar sem sagt aukapening. Einnig hafa þau reiknað út að þau hafi fengið rangt reiknaða launauppbót vegna kjarasamninga. Samtals eru þetta 1,6 milljarðar.

Það eru síðan 800 milljónir í rekstur heilbrigðisstofnana, sem er varanleg aukning. Tímabundin aukning er til Landspítala – háskólasjúkrahúss því að væntanlega og vonandi tekst að leysa þennan mönnunarvanda. Væntanlega og vonandi tekst að reikna launabæturnar rétt og þá verður ekki þörf fyrir þessa aukningu, þegar búið er að reikna launabæturnar rétt er komin rétt upphæð fyrir það sem verður varanleg viðbót.

Á málefnasviði 29 er villa sem mig langar að tala aðeins um. Þar stendur 13 milljarðar og 130 milljónir. Þetta er ekki rétt tala þannig að við leggjum til í þessari breytingartillögu að sá liður falli burt. Í annarri breytingartillögu á þskj. 476 kemur rétt tala fram. Ástæðan fyrir því að ranga talan kom fram var tímaskortur við að skila nefndaráliti og breytingartillögum til skjalavörslu og meðhöndlunar í þinginu sem gerði það að verkum að nokkrir liðir, sem vantar í fyrri breytingartillöguna, voru lagðir saman inn á þennan lið í staðinn fyrir að þetta væru þrír breytingartillöguliðir. Ekki náðist að skoða þessa breytingartillögu áður en ég fór í ræðu sem framsögumaður álits 2. minni hluta þar sem verið var að tefja það að hefja þingfund af því að verið var að bíða eftir að breytingartillagan kæmi úr prentun. Þegar hún kom úr prentun fór ég beint í pontu og gat ekkert skoðað hvernig hún leit út fyrr en mér var bent á í andsvörum við ræðu mína að þarna væru rúmir 13 milljarðar í lengingu á fæðingarorlofi. Fólk fór að velta þessu fyrir sér og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson spurði mig hvað þetta þýddi langt fæðingarorlof. Sá liður fellur sem sagt burt úr þessari breytingartillögu.

Á málefnasviði 30 eru vinnumál og atvinnuleysi og það er tvískipt, 84 milljónir. Það eru annars vegar þær 73 milljónir í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð sem vantar upp á til að samningar standist. Gert er ráð fyrir því í lögum um starfsendurhæfingarsjóðinn að ríkið leggi 0,13% af tryggingagjaldinu til hans. Það hefur ekki verið gert en gerður var samningur um að 0,05% af tryggingagjaldinu rynni til sjóðsins í staðinn fyrir 0,13%. Það vantar a.m.k. 73 milljónir til að standa við samninginn upp á 0,05%. Við leggjum þess vegna til að það verði bætt, þótt að sjálfsögðu ætti að standa við það sem stendur í lögum um það hvernig þetta á að fara fram. Að auki eru 11 milljónir til Vinnumálastofnunar vegna vinnumansalsins, varanleg viðbót. Viðbótin sem VIRK fær er tímabundin og eins og ég var búinn að segja um rekstur heilbrigðisstofnana eru 800 milljónir til rekstrargrundvallar þeirra varanleg viðbót.

Að lokum er í breytingartillögunni á þskj. 460 7 milljarðar og 650 milljónir lagðar í það verkefni að afnema krónu á móti krónu skerðingu frá 1. apríl á næsta ári.

Þá tekur við breytingartillaga á þskj. 476 sem er leiðréttingarbreytingartillaga, leiðrétting á þeirri villu sem kom fram í fyrri breytingartillögunni. Þar er annars vegar lenging fæðingarorlofs upp í 12 mánuði sem mun samkvæmt útreikningum kostar 5 milljarða og 130 milljónir. Það er sem sagt leiðrétting á þeim 13 milljörðum sem stóðu hérna áður. Gert er ráð fyrir 12 mánaða fæðingarorlofi þar. Síðan eru hinir 8 milljarðarnir sem koma þarna fram annars vegar tekjur upp á 2 milljarða, sem er lækkun eða í raun hækkun á veiðigjaldinu umfram þá 3 milljarða sem á að draga frá því. Þá er gert ráð fyrir því að sá milljarður sem lækki í rauninni miðað við óbreytt kerfi fari í ákveðin byggðasjónarmið varðandi minni og meðalstórar útgerðir. Það er að sjálfsögðu útfærsluatriði í lögum um veiðigjöldin en við væntum þess að þau séu í alvörunni í þetta skipti til minni og meðalstórra útgerða en ekki í plati eins og sagt var í veiðigjaldafrumvarpinu á síðasta ári, sem var ekki svo heppilegt. Það var í raun og veru miklu meira til stærri útgerða, alla vega beindist meiri hlutinn af þeirri tillögu að stóru útgerðunum.

Síðast en ekki síst eru 10 milljarðar í hækkun á persónuafslætti sem fer upp í um 36.000 kr. á ári fyrir alla. Þetta er grófur útreikningur því að við erum því miður ekki með nógu góðan grunn til að vinna að því að reikna upp skattbreytingar, þegar maður stillir upp skattbreytingum hér og þar, hvernig það hefur áhrif á skattkerfið í heild sinni. Við þurfum þess vegna að vinna með grófa útreikninga. Þetta er því u.þ.b. upphæðin, kannski aðeins meira.

Þriðja breytingartillöguskjalið, á þskj. 471, myndi ég segja að væri áhugavert. Ég er ekki viss um að nokkur í minni hluta hafi lagt til að fjárheimildir verði skertar eða minnkaðar. Ég gæti vel haft rangt fyrir mér, ég hef ekki athugað það, en ég man ekki eftir því að hafa séð slíkt áður. Í tillögunni eru rakin ýmis málefnasvið. Þá á ég við málefnasvið en ekki málaflokka því að það er einfaldlega ekki hægt að rekja þessar fjárheimildir niður á málaflokk, af því að þetta snýst um upphæðir varðandi bundin útgjöld, varðandi útgjaldasvigrúm, þær upphæðir sem ríkisstjórnin segist vilja fá frá Alþingi en vill ekki segja í hvað hún ætlar að eyða peningunum.

Það er nefnilega rosalega stóran hluta af útgjaldaáætlun fjárlagafrumvarpsins og ríkisstjórnarinnar, upp á rúma 8 milljarða hérna, sem er einfaldlega ekki hægt að finna í fjárlagafrumvarpinu. Það er ekki hægt að finna það í útskýringum ráðuneytanna þegar þau koma í heimsókn til fjárlaganefndar með glærusýningarnar sínar. Fólk getur ef það vill farið í fylgiskjöl nefndarálits 2. minni hluta og séð þar kynningar ráðuneytanna. Fólk getur farið í frumvarp til fjárlaga og svo getur það einfaldlega talið þetta saman sama sjálft, hvernig það summast upp.

Á sumum málefnasviðum er meira að segja beðið um minni pening en fæst sundurliðaður, þ.e. beðið er um 100 milljónir en það eru sundurliðuð verkefni upp á 125 milljónir, sem dæmi. Þá er það vanfjármagnað að einhverju leyti, það þarf að gera meira en hægt er að fá pening fyrir. Við skiptum okkur ekkert af því, ríkisstjórnin má alveg eiga það vandamál út af fyrir sig. En við gerum ráð fyrir því að ríkisstjórnin fái einfaldlega ekki þær tölur sem eru ekki útskýrðar. Við notum þá þessa rúma 8 milljarða til að fjármagna þær aðgerðir sem við leggjum til og útskýrum í hvað þeir peningar eiga að fara.

Ég veit samt að þessar útskýringar eru til. Okkur hefur verið sagt að þær séu til en við fáum þær samt ekki, sem er enn þá merkilegra ef eitthvað er. Ég er búinn að ítreka aftur upplýsingabeiðni mína til ráðuneytanna en við eigum að sjálfsögðu að fá samkvæmt lögum um þingsköp allt sem málið varðar og getur varpað ljósi á málið. Við eigum að fá það í hendur en einhverra hluta vegna fáum við það ekki. Sum ráðuneytin voru með sundurliðunina í kynningu sinni, ég held að það hafi verið þrjú þeirra, og eitt ráðuneytið svaraði upplýsingabeiðninni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, húrra fyrir þeim. Afgangurinn var ekki með neitt, en við sjáum hvort það næst inn fyrir 3. umr., það verður áhugavert að sjá hvort. Þá getum við tekið upplýsta ákvörðun um það hvort eitthvað af þeim fjárheimildum sem þeir biðja um þarna breytast eða ekki. Það verður gaman að sjá.

Ég sagði það í framsöguræðu minni að ég ætlaði að geyma málefnasviðin þangað til seinna. Ég ætla alla vega að fara yfir eitt núna, ræða almennt um velferðarmálin. Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir 2,9% hækkun vísitölu neysluverðs, 2,9% verðbólgu. Gert var ráð fyrir 0,5% hækkun á lífeyrisbætur eða örorkuþega o.fl. sem fellur undir 69. gr. laga um almannatryggingar, sem leiddi til 3,4% hækkunar á þeim bótum sem eru miðaðir við þá grein og afleiðu af þeirri grein.

Þegar ný þjóðhagsspá kemur út hækkar verðbólguviðmiðið, áætlun um verðbólguna, úr 2,9% í 3,6%, allt í lagi, það er 0,7% hækkun þarna. Það þýðir að að öllu óbreyttu myndi hækkunin upp á 3,4% vera undir verðbólguviðmiði, sem samræmist ekki 69. gr. laga um almannatryggingar. Viðbrögðin í áliti meiri hluta er að breyta þeirri hækkun þá úr 3,4% í 3,6%, þannig að þið skilji þetta, og tölurnar virðast stemma við það. Þá er farin sú 0,5% hækkun umfram verðbólgu sem er kynnt sem kaupmáttarhækkun í frumvarpi til fjárlaga, þ.e. búið er að hafa kaupmáttarhækkunina af þeim sem falla undir 69. gr. laga um almannatryggingar. Loforðið sem var gefið í fjárlögunum hverfur núna á milli 1. og 2. umr.

Lögin kveða á um ákveðinn tvöfaldan lás, eins og hann hefur verið kallaður, að bætur vegna almannatrygginga sem falla undir þá grein eigi að hækka um það sem er hærra, hvort sem er vísitala neysluverðs eða launaþróun. Launaþróun í frumvarpinu er 3,6%. Við erum að miða við 3,6% vísitölu neysluverðs. Ýmislegt annað í frumvarpinu segir einmitt að þær forsendur séu varlega áætlaðar. Það er t.d. sagt í frumvarpinu að búist sé við nafnlaunahækkun upp á 6%. Mjög margt á komandi kjaravetri segir okkur að 3,6% launahækkun á næsta ári verði mjög erfið, a.m.k. hvað kjarasamninga varðar, en þar birtist vandamál 69. gr. í hnotskurn.

Hérna setjum við fram hvernig launaþróun og verðbólguþróunin verður mögulega á næsta ári. Miðað við allar forsendur er ekki svo ólíklegt að launaforsendur verði hærri og jafnvel verðbólga líka. Þá fá þeir sem eru með bætur samkvæmt 69. gr. ekki leiðréttingu á því eftir á, heldur er það þá bara tekið árið 2020 í kjölfarið, þ.e. gert er ráð fyrir áætlun um launaþróun og áætlun um verðbólgu en ekki raunveruleg launaþróun fyrir árið eða raunveruleg verðbólga fyrir árið.

Kannski gerum við stundum ráð fyrir meiri launaþróun eða meiri verðbólgu og þá fá þeir sem falla undir 69. gr. meiri kaupmáttaraukningu en ella. Miðað við að forsendurnar eru yfirleitt frekar varlegar er líklegt að það sé hið gagnstæða, að þær forsendur sem eru gefnar í frumvarp til fjárlaga séu almennt til þess að þær dragist aftur úr þakinu sem var þarna. Mér finnst það pínu alvarlegt. Ég er ekki viss um að markmiðið með lagasetningunni, þegar þessu var bætt við árið 1997, hafi verið einmitt þetta. Það virðist sem eiginleg launaþróun eða eiginleg verðbólguþróun eigi að hafa áhrif á þetta. Það myndi aftur á móti geta leitt til þess vandamáls að ef verðbólgan yrði síðan minni en var spáð eða launaþróun minni en var spáð þá stæðu einhverjir í þeim sporum að þurfa jafnvel að skulda, ef sú ákvörðun yrði tekin að þetta væri þá bara aukakaupmáttaraukning. Þetta gengur í báðar áttir þarna.

Að jafnaði sýnist mér þetta frekar ganga til þessa hóps sem mínus. Ég hef alla vega lagt inn gagnaöflunarbeiðni um það, til þess að sjá hver hækkunin var vegna þessa liðar í lögum um almannatrygginga á undanförnum rúmum áratug og helst alveg aftur til þess að því lagaákvæði var bætt við hver, hver eiginleg launaþróun var á árinu og hver eiginleg verðbólga var á árinu. Þá ætti maður að geta borið saman hvernig þetta hefur þróast yfir árin. Það eru einhver gögn sem maður ætti að nota til að upplýsa sig, hvernig ætti að gera þetta til framtíðar miðað við fortíðina, hversu miklu munar og því um líkt.

Það eru fleiri málaflokkar. Ég tek þá kannski í næstu ræðu. Ég held að gott sé að ljúka máli mínu á þessu lagalega vandamáli og túlkunarvandamáli á því hvernig 69. gr. er notuð í reynd og á þeim ákveðna forsendubresti sem virðist vera þar. Það er viljandi sagt að varlega sé farið í það að spá um hversu mikil launaþróun verður á næstu árum, sem þýðir að bein áhrif eru höfð á það hversu mikið bætur almannatrygginga hækka, með því að taka varlega afstöðu gagnvart því hver launaþróunin verður. Ef farið væri í hærri í launaþróun og sagt að það væri ekki 3,6% heldur 4% yrði ráðuneytið að hækka bætur til almannatrygginga um a.m.k. 4%, ef verðbólgan yrði ekki þeim mun hærri. Þannig að núna hefur ráðuneytið stjórn á því með því að fara varlega í að áætla hver launaþróun verður, það hefur þó minni stjórn á verðbólgunni að sjálfsögðu, það kemur bara í gegnum þjóðhagsspána og fleiri staði. En með þeim aðferðum getur ráðuneytið stýrt því að verðbólgan verði hámarkið sem bætur almannatrygginga vegna 69. gr. hækka um. Önnur aðferð, vísitalan, er kerfislæg, hún er bundin þjóðhagsspánni, en hinn lásinn í þeirri jöfnu er bundinn ákvörðun ráðuneytisins án þess að hún sé í raun rökstudd á nokkurn hátt, eins og á við um svo margt annað í þessu frumvarpi.

Ég geri alvarlega athugasemd við það að sagt sé að búist sé við nafnlaunahækkun á næsta ári um 6% á sama tíma og gert er ráð fyrir varlegri spá um launaþróun upp á 3,6%. Þetta passar ekki saman. Sú ákvörðun hefur tvímælalaust áhrif á 69. gr. laga um almannatryggingar og hvaða niðurstöðu það hefur í fjárlagafrumvarpinu og fyrir það fólk sem er á þeim bótum.

Varðandi framhaldið, svona rétt í lokin. Fyrir utan öll þau atriði sem þarf að greina og útskýra vel, eins og með launaþróun, eins og með 69. gr. og ýmislegt annað, þá þurfum við í alvörunni að eiga dálitla umræðu um framtíð fjárlagagerðarinnar og fjárlagavinnunnar. Við höfum ekki haft tækifæri til þess undanfarin tvö ár, sem voru algerlega krítísk í innleiðingu laga um opinber fjármál, þannig að við erum eftir á hvað það varðar. Ég hvet alla til að koma og segja skoðun sína á lögum um opinber fjármál og hvernig þeir myndu vilja sjá þá vinnu til framtíðar.