149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurfum því miður að eyða þingfundatíma í þessa umræðu og mér finnst það svolítið miður. Þingfundatími Alþingis er mjög mikilvægur og dýrmætur og af skornum skammti. Út af því að við höfum misst undanfarin ár í þessa umræðu sem við hefðum átt að eiga mun fyrr þurfum við að eyða góðum tíma í þetta núna. Það eru tvö mjög góð atriði sem helst koma hér fram. Framsetning fjárlaga er breytt sem þýðir að einnig þarf að breyta hefðum og vinnu í kringum þau. En við erum ekki að breyta því. Ný lög kalla á ný vinnubrögð en við erum dálítið föst í gamla forminu af því að við gleymdum að tala um það síðast eða þar áður, höfðum ekki tíma til þess þá.

Já, frumvarp til fjárlaga heldur sér, þrátt fyrir allt annað, innan þessa ramma. En við höfum ekki forsendur til að vita hvort það er gott. Við höfum ekki hugmynd um það af því að stefna stjórnvalda, markmiðin og aðgerðirnar, er ekki kostnaðarmetin. Þær vörður og mælistikur sem eru á leiðinni, um það hvaða árangri aðgerðir stjórnvalda eiga að ná, eru mjög misgóðar milli málefnasviða, verður maður að segja. Ef tenging væri á milli aðgerðanna, ef góðar mælistikur væru á það hvaða árangri þær aðgerðir ná og ef þær væru tengdar við fjárheimildirnar þá gæti ég sagt hvort gott sé að halda í rammann eða ekki. Það er eiginlega vandamálið í hnotskurn, sem við glímum við, ógagnsæið í þessu.