149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni ræðuna. Hv. þingmaður endaði hana á því að segjast hafa skautað létt yfir. Mér fannst alveg þokkalega vel í lagt, í reynd, og hef nóterað fullt af spurningum.

Ég ákvað þó að koma fyrst og fremst upp og bregðast við ágætisábendingu varðandi umfjöllun í nefndum, sem ég tel að sé afar gagnleg. Það fyrirkomulag var á í umræðum um ríkisfjármálaáætlun. Ég get ekki svarað því af hverju þetta fyrirkomulag er akkúrat svona núna og ég held að það sé bara verkefni fyrir formenn flokka, úr því að hv. þingmaður er þingflokksformaður Miðflokksins, og nefndarformanna að ræða það fyrirkomulag. Ég get alveg tekið undir að það er gagnlegt og dýpri umræða verður í hverri nefnd. Við hv. þingmaður áttum einn sameiginlegan fund, þ.e. hv. fjárlaganefnd með hv. utanríkismálanefnd, þar sem farið var yfir með utanríkisráðuneytinu það sem snýr að útvistun verkefna, útgáfu passa. Ég held að það sé hluti af þeim 300 milljónum sem hv. þingmaður kom inn á varðandi stjórnsýslu. En ég náði ekki öllu niður þar, enda var hv. þingmaður fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra þá og hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu á þessum málaflokki.

Aukningin sem er hér er til að efla hagsmunagæslu fyrir EES-samninginn. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að þeim fjármunum sé vel varið.

En ég ætla aðeins að koma inn á losunarheimildirnar í seinna andsvari sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni.