149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur prýðisræðu. Ég ætla að takmarka mig við eina spurningu eða umræðu um stórt mál. Hv. þingmaður fór hér yfir starfsgetumat og andstöðu við það í þeim þverpólitíska starfshópi sem starfað hefur á vegum ráðherra við að koma með tillögur til að nýta 4 milljarða sem eru eyrnamerktir þessu verkefni. Eins og mjög vel hefur komið í ljós og hv. þingmaður fór yfir hefur þessi andstaða eitthvað tafið vinnuna.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að við eigum að nota þessa peninga til að vinda ofan af þessu vonda kerfi eins og lagt er upp með. Hv. þingmaður segir að við séum með þetta allt til staðar og nefnir Vinnumálastofnun. Ég held að það sé að mörgu leyti rétt, án þess að ég fullyrði nokkuð. Mér fannst hv. þingmaður fara vel yfir það. Ef við nýtum þessa fjármuni í að vinda ofan af þessu vonda króna á móti krónu kerfi, sem við viljum gera, sé ég það nokkurn veginn þannig fyrir mér — talað hefur verið um að þetta sé of mikið til að stíga í einu skrefi, með 12 til 14 milljarða fjárhæð sem verið hefur í umræðunni — að ef við nýtum 4 milljarða í það losum við um plásturinn og getum þá á endanum afnumið þetta alveg.

Það eru vondar gildrur í þessu eins og hv. þingmaður kom inn á. Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér að nýta þessa 4 milljarða í að byrja að vinda ofan af kerfinu, stilla skrúfurnar, ef svo má segja?