149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:26]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka prýðisgóða spurningu. Ég sé fyrir mér að við mundum byrja á því að afnema krónu á móti krónu skerðinguna, ég held að það hljóti að vera lykillinn að þessu öllu saman. Einhver hélt því fram að lögð hefði verið fram spurning 2016 til velferðarráðuneytis, um hvað það myndi kosta að fara í þessa vinnu, og svarið hefði verið á þá leið að það væru 10–11 milljarðar. En þá er ekki tekið mið af þeim tekjum sem koma á móti. Talan mun lækka. Ég er alveg sannfærð um það. Í mínum villtustu draumum myndi ég halda því fram að það væru þessir 4 milljarðar, þó að ég ímynda mér að það yrðu kannski 5–6 milljarðar þegar upp er staðið. En samt sem áður hef ég einhverja hugmynd um það.

Ég er ekki að gera lítið úr vinnu nefndar sem fjallar um starfsgetumat. En ef ég skil rétt hefur sú vinna staðið ansi lengi. Það virðist ekki vera neinn samhljómur á milli þeirrar nefndar og þeirra sem fjallað er um, þ.e. öryrkja. Þeir lýsa yfir mjög mikilli andstöðu við þetta mál. Segjum sem svo að við séum með ákveðna þekkingu innan Vinnumálastofnunar. Segjum sem svo að við eigum einstaklinga sem hafa farið í gegnum atvinnu með stuðningi og að það hafi virkað vel. Ég er einhvern veginn að segja að við þurfum að stíga tvö skref til baka og skoða hvað við erum með hér og hvað hafi virkað.