149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég ekki í þessum starfshópi en við eigum okkar fulltrúa þar, stjórnarandstaðan. Ef ég hugsa þetta upphátt og ímynda mér hvar andstaðan liggur þá er hún kannski einna mest við það að ekki er hægt að meta einhvern einu sinni. Það sem fólk óttast er að ef það er metið með 60% getu til að vinna sé hún kannski dottin niður í 15% næsta dag. Og hvað gerist þá? Þess vegna er ég virkilega að reyna að hugsa þetta sjálf lausnamiðað. Við erum með eitthvað nú þegar og við eigum að skoða hvernig það hefur virkað. Af hverju þurfa öryrkjar að sanna sig inn á vinnumarkað? Hvaða öryrkjar munu ekki geta staðið við það að hafa samt reynt að sanna sig inn á vinnumarkað á góðum degi? Ég veit það er ósanngjarnt af mér að setja þessar spurningar svona fram en ég er virkilega að hugsa þessa hluti.

Við höfum dæmi frá nágrannaþjóðum þar sem fólk sem ekki er við góða geðheilsu hefur verið skilið eftir — hverjir taka við? Eru það sveitarfélögin? Ég myndi halda að það væri gáfulegra að skoða hvað við höfum í dag, fara inn í það. Það má alveg halda áfram með þessa vinnu í nefndinni, það er ekkert að því. En höfum allt opið sem hægt er þannig að við getum sannarlega komið til móts við það sem þarf að gera.