149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Á þeim örskamma tíma sem ég hef hér til ráðstöfunar ætla ég að reyna að fara aðeins yfir helstu ágalla á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Ég kemst náttúrlega ekki yfir þá alla á þessum stutta tíma en ég mun líka reifa nokkrar hugmyndir sem við Miðflokksmenn höfum til að að gera á bragarbót. Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er annað fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Hið fyrra, sem lagt var fram fyrir ári, var embættismannafrumvarp vegna þess að menn höfðu þá ekki tíma til að koma að almennilegri fjárlagavinnu. Menn fengu því bara afhent fjárlagafrumvarp úr embættismannakerfinu sem var svo reynt að bæta í, en gekk ekki vel. Að þessu sinni var aðferðin nokkuð öðruvísi en niðurstaðan sú sama. Eftir alla vinnu sem hv. fjárlaganefnd hafði lagt í fjárlagafrumvarpið milli 1. og 2. umr. var því bara kippt til baka upp í fjármálaráðuneyti og við fáum annað embættismannafjárlagafrumvarp í staðinn. Af hverju segi ég það? Ég segi það vegna þess að innst í hjarta mínu vil ég ekki trúa því að þær breytingar helstar sem gerðar eru á milli 1. og 2. umr. séu virkilega gerðar af meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Ég bara vil ekki trúa því.

Nú er náttúrlega á það að líta að í fjárlagafrumvarpinu birtast líka þau vandræði ríkisstjórnarinnar sem felast í samsetningu hennar. Það blasir við að þar eru þeir pólar í íslenskum stjórnmálum sem eru lengst hvor frá öðrum, VG og Sjálfstæðisflokkurinn. Það koma fyrir mörg atriði í þessu fjárlagafrumvarpi þar sem blasir við hve erfitt er fyrir þessa flokka að ná saman og nokkrar hallærislegar uppákomur sem undirstrika og endurspegla þann ágreining sem þarna er á milli. Og þriðji flokkurinn, hann situr náttúrlega bara hljóður hjá og lætur yfir sig ganga allt sem á dynur.

Það eru kannski stærstu tíðindin í þeim breytingum sem boðaðar eru af hálfu ríkisstjórnarinnar milli 1. og 2. umr. að fátækasta fólk á Íslandi fær að bíða enn um hríð eftir réttlæti í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og hefðu það einhvern tíma þótt tíðindi, hæstv. forseti. En við hverju á að búast þegar hugmyndasnauð og hugsjónalítil ríkisstjórn á í hlut? Og einmitt þennan hóp, hóp fátækasta fólks á Íslandi, sem á að bíða enn um hríð eftir réttlæti, hefur ríkisstjórnin nálgast með gulrót og kylfu að vopni. Gulrótin er að króna á móti krónu skerðing muni á endanum falla út, en kylfan er sú að menn þurfi að bíða eftir því að starfsgetumat líti dagsins ljós og öryrkjum er gert að sætta sig við starfsgetumat án þess að hafa séð í hverju það felst eða hverjar afleiðingar verða af upptöku þess.

Nú vill svo til að sá sem hér stendur starfaði líklega í þrjú ár í nefnd um endurskoðun almannatryggingakerfisins en starfsgetumat var einn af þeim hlutum sem starf nefndarinnar brotnaði á, þ.e. starfsgetumatið var ein af ástæðum þess að ekki náðist fullnaðarsamstaða í þeirri nefnd um breytingar sem gera ætti á almannatryggingalögunum. Frá þeim tíma kannast ég mjög vel við áhyggjur öryrkja og forustumanna þeirra, sem fram hafa komið, af því hvaða afleiðingar upptaka starfsgetumats hefur í för með sér. Ég skil þær áhyggjur mjög vel.

Á hitt er að líta að núverandi matskerfi örorku á Íslandi hefur sjálfsagt verið óbreytt í nokkra áratugi. Ég man eftir því sem ungur maður að þá virtist þetta kerfi vera í sömu sporum og í dag. Í sjálfu sér má segja að sá sem metinn er til örorku á Íslandi í dag sé eiginlega dæmdur til lífstíðarvistar í því kerfi eins og ástandið er nú. Það eitt út af fyrir sig segir okkur að við verðum að gera breytingar.

Hins vegar er það þannig, og nú tala ég aftur með hliðsjón af því starfi sem unnið var í nefndinni sem ég nefndi áðan, að nauðsynlegt er að byrja á hinum endanum. Það er nauðsynlegt að ríkið tryggi með einhverjum hætti framboð af hlutastörfum fyrir fólk með skerta starfsgetu sem bíði eftir þessum hópi eftir að hann hefur farið í starfsgetumat. Það þýðir ekki að taka matið upp án þess að búið sé að tryggja með öruggum hætti nægilega fjölbreytt framboð af hlutastörfum sem hentað gætu fólki með skerta starfsgetu.

Herra forseti. Segjum að einstaklingur sem metinn hefur verið með skerta starfsorku, metinn með 40% starfsgetu, hafi fengið endurhæfingu, eða fengið þá bót sinna meina að hann getur nú gengið út í lífið með 40% getu til starfs, en þá er ekkert starf til. Það er náttúrlega tvöfalt áfall. Við getum ekki boðið þessu ágæta fólki upp á þetta. Þess vegna er nauðsynlegt, að ég tel, að gera eitthvað. Við getum ekki látið þennan fátækasta hluta þjóðarinnar bíða eftir réttlæti meðan nefnd sem er að störfum kemur sér niður á það hvernig starfsgetumat eigi að líta út í framtíðinni. Þess vegna verðum við að byrja á því nú þegar 1. janúar að sjá til þess að þetta skref verði stigið, að króna á móti krónu skerðing, sem er fyrsti kafli, verði tekin upp og þessum 1.100 milljónum, sem skornar eru niður hér milli umræðna, verði skilað aftur. Og þetta eru ekki bara útlát, hæstv. forseti. Bætur eins og hér eru boðaðar munu hjálpa þessum hópi til að öðlast fyllra og hamingjuríkara líf og öruggara og þessir fjármunir fara ekki undir koddann hjá þessu fólki. Þeir fara í það að þetta ágæta fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Til þess að svo verði nýta þau þá fjármuni sem þau fá þarna aukalega til þess að gera það og þá eykst velta og það greiðast af þessu skattar og ég veit ekki hvað.

En þetta er ekki það eina sem er gagnrýnisvert í því hvernig fjárlögin eru sett upp nú. Í einni af tillögum Miðflokksins, sem hér er lögð fram af 3. minni hluta, er til þess tekið að við erum að leggja fram aftur tillögur sem við lögðum fram við síðustu fjárlagaumræðu um að atvinnutekjur aldraðra rýri ekki lífeyristekjur þeirra. Þetta kostar í kringum 1.100 milljónir brúttó, sem þýðir að þetta kostar í raun 700 milljónir. En þá hefur ekki verið tekið tillit til þess að þessar 700 milljónir skila sér inn í hagkerfið aftur, klárlega mjög fljótt.

Það er líka annað sem veldur miklum áhyggjum. Þessi ríkisstjórn er orðin eins konar biðlistaríkisstjórn. Eitt af því sem beðið er eftir er pláss á hjúkrunarheimilum. Það er nú þannig, hæstv. forseti, að eitt af því síðasta sem er enn heilagt í þessum sal er það að okkur er ekki heimilt að spila hljóðupptökur úr þessum ræðustóli.

En mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í auglýsingu sem birtist nokkuð oft í aðdraganda síðustu þingkosninga og hljómar svo, með leyfi forseta:

„Við vitum jú öll að gamla fólkið okkar hefur setið á hakanum. Þess vegna viljum við reisa 300 íbúðir á næsta ári, gera það í samstarfi við lífeyrissjóðina sem mundu fjármagna framkvæmdina og hugsanlega að byggja til að leysa úr þeim vanda að fólk komist hraðar inn á hjúkrunarrými eða í þjónustuíbúðir. Við þurfum að gera þetta fyrir afa og ömmu. Getum við ekki öll verið sammála um það?“

Jú, í þetta sinn er ég sammála. En það vill þannig til að biðlistar eftir hjúkrunarrými hafa aukist um 20%. Það hefur fjölgað á þessum biðlistum með 20% þannig að ekki er verið að gera mikið fyrir afa og ömmu. Getum við ekki öll verið sammála um það? Skemmst er frá því að segja að þetta loforð er á sama stað og öll hin loforðin úr þessari átt, þ.e. í ruslafötunni með svissnesku, færeysku, norsku og finnsku leiðinni og óskiljanlegu skattatillögunum. Það var líka minnst á hátekjuskatt hér um daginn, en það fjaraði líka út. Þannig að það er ekki mikið um efndir þar, ekki mikið.

Mig langar líka að fara hér sérstaklega yfir flestar af þeim tillögum sem Miðflokkurinn leggur til við 2. umr. fjárlaga. Ég sakna þess mjög að hæstv. forsætisráðherra er ekki hér nú. Ég veit af hverju, og ég þykist vita að ekki muni nást í hana til að vera hér viðstödd. En ég mun gera gangskör að því að hún fái ræðu mína í hendur með einhverju móti, á pappír eða einhvern veginn. Vegna þess að hæstv. forsætisráðherra var í sjónvarpinu nú um helgina og hún sagðist ekki skilja tillögu Miðflokksins við 2. umr. fjárlaga. Hún sagðist ekki skilja að lagðir væru til lægri skattar en hærri útgjöld. Nú skil ég það svo sem vel að forsætisráðherra Vinstri grænna skilji ekki að þetta sé hægt vegna þess að einu ráð Vinstri grænna hér um árabil hafa verið að hækka skatta ef peninga vantar og þá er alveg sama hver verður fyrir hækkununum. En nú ætla ég að útskýra þetta fyrir hæstv. forsætisráðherra sem best ég get í ræðu minni. Í staðinn ætla ég að eiga það við hæstv. ráðherra, þegar hún mætir hér til leiks, að hún skýri fyrir mér á íslensku orð sem eftir henni voru höfð ekki alls fyrir löngu um stöðu eins ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hún sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Svo mörg voru þau orð. En ef hæstv. forsætisráðherra þýðir þetta fyrir mig á íslensku, þegar hún kemur heim, ætla ég nú að útskýra fyrir henni tillögur Miðflokksins milli umræðna um fjárlög.

Miðflokkurinn leggur til frekari lækkun tryggingagjalds, að tryggingagjaldið lækki um 0,5%. Lækkunin þjónar þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu. Þetta mun hugsanlega kosta um 4 milljarða við fyrstu sýn, en í raun gerir það það ekki vegna þess að þessi lækkun tryggingagjalds er helsta forsenda þess að einkum smáfyrirtæki og meðalstór geti ráðið til sín fólk í meira mæli en þau hafa verið fær um undanfarið. Með fjölgun starfa hjá þessum fyrirtækjum fær ríkissjóður að sjálfsögðu meiri skatttekjur til baka. En ég tala um þetta með því fororði að þær tillögur um útgjaldaaukningu sem Miðflokkurinn leggur til hér eru, þrátt fyrir hugmyndir um skattalækkanir, fullfjármagnaðar.

Miðflokkurinn leggur líka til að kolefnisgjald verði ekki hækkað, að það verði ekki hækkað um 10% og núverandi hækkun felld úr gildi. Þessi skattur kemur ranglátlega niður í landinu. Það hefur komið fram að ríkisstjórnin, og talsmenn hennar, er ekki viss um hvaða áhrif til góðs eða ills kolefnisgjaldið hefur. Það vekur líka spurningar, og er kannski hægt að skýra út fyrir mér einhvern tímann, hvers vegna þessi ríkisstjórn leggur ofuráherslu á úrræði í umhverfismálum sem snerta rosalega lítinn part, ef ég get orðað það þannig. Kolefnisgjaldið sem var lagt á núna er náttúrlega fádæma óréttlátur skattur — sem Sjálfstæðisflokkurinn, nota bene, lét hafa sig út í að leggja á þrátt fyrir að vita ekki hvaða afleiðingar hann hefði, hvort það kæmi að gagni eða ekki — sem beinist að mengun sem er í kringum 3% af heildarlosun á Íslandi á hverju ári.

Við fengum svo annað dæmi nú um daginn, þó að það komi þessu fjárlagafrumvarpi ekki beint við. Menn ætluðu að fara að banna plastpoka. Sá maður sem hefur mesta þekkingu á sorpi á Íslandi, forstjóri Sorpu, sagði að plastpokanotkun á Íslandi stæði undir 0,6% af úrgangi á Íslandi. Og sá sem fer út í búð með margnota innkaupapoka, t.d. úr bómull, þarf að fara 1.700 ferðir út í búð til að ná einum plastpoka. Síðan höfum við líka dæmi af fólki sem fer út í búð með margnota innkaupapoka til þess að ná sér í plastpoka til að nota undir sorpið heima hjá sér. Svona er þetta nú öfugsnúið. En það vekur sérstaka athygli að þarna eru menn að skjóta svolítið af tunglinu og fara í hluti sem skipta minna máli en mjög margt annað.

Ég minntist á það áðan að sú ríkisstjórn sem nú situr er biðlistaríkisstjórnin. Það kom fram hér um daginn í fyrirspurnum að á biðlistum á Íslandi eru um 4.000 manns sem bíða eftir algengustu aðgerðum og meðferðum. Það hefur hins vegar komið í ljós að þessi 4.000 eru einungis toppurinn á ísjakanum. Um er að ræða upplýsingar frá landlækni og ég vefengi þær alls ekki en hins vegar virðist sem ekki sé byrjað að telja inn á biðlista fyrr en fólk er farið að bíða eftir aðgerð. Nú hef ég komist að því nýlega að fólk sem þarf t.d. á liðskiptaaðgerð að halda þarf að bíða í 6 til 8 mánuði eftir viðtali við lækni. Að því viðtali loknu tekur við bið upp á 12 til 18 mánuði eftir aðgerðinni sjálfri.

Þetta vekur upp minningar. Ég kom til Austur-Þýskalands hins forna skömmu fyrir fyrstu þingkosningarnar sem þar voru haldnar vorið 1990 og gisti þar hjá yndislegu fólki sem var búið að bíða í 12 ár eftir síma. Við erum væntanlega á leiðinni þangað, því að á Íslandi er bannað að gera læknisfræðilegar aðgerðir eða sinna læknisfræðilegum störfum ef minnsti möguleiki er á því að maður hagnist á því. Ef maður selur lyf, plástur, saum eða nálar eða eitthvað slíkt getur maður grætt eins og manni dettur í hug en sé maður læknir og skeri upp, gefi fólki pillur og skrifi út lyfseðla fylgir því algjör bannfæring að hagnast á því.

Nú er það svo, herra forseti, að það er ekki einungis að fólk kveljist hér á biðlistum mánuðum og misserum saman, heldur er það þannig að ríkissjóður lekur út af þessum biðlistum. Af hverju gerir hann það? Vegna þess að við hleypum fólki ekki í lækningu á Íslandi þar sem hún er hugsanlega ódýrust — ekki bara hugsanlega, ég kem inn á það á eftir — vegna þess að þar er einkarekið fyrirtæki að skera fólk upp og lina þjáningar þess og það hagnast á því. Hugsið ykkur ósvífnina. En samkvæmt upplýsingum sem ég hef nýlega fengið frá Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi þá kostar fyrsta aðgerð sem heitir meiri háttar liðskiptaaðgerð á mjöðm um 1.800 þúsund. Hún er verðlögð á 1.800 þúsund. Að vísu var mér tjáð í seinna andsvari að þetta bæri að taka með varúð vegna þess að með fleiri aðgerðum gæti þetta lækkað. Meiri háttar liðskiptaaðgerð á hné, fyrsta aðgerð, kostar rétt tæpa milljón.

Á biðlistunum sem þarna um ræðir, eftir þessum tveimur aðgerðum sem ég var að tala um áðan, eru í kringum 1.000 manns, þar af 700 sem hafa beðið lengur en í þrjá mánuði. Það er sagt að sérstakt átak sé í gangi til þess að eyða þessum biðlistum og mér er sagt að 150 hafi dottið út af biðlistanum í fyrra. En svo vill til að á þessari einkareknu skurðstofu, sem ekki má skipta við og ekki má taka þátt í kostnaði við, voru einmitt gerðar 150 aðgerðir á síðasta ári sem fólk borgaði sjálft. Þær kostuðu 1.200 þúsund stykkið. Landspítalinn verðleggur aðgerðina sem hér um ræðir á 1.800 þúsund, en hægt er að gera hana inni í Ármúla fyrir 1.200 þúsund. En við viljum það ekki, herra forseti. Við sendum fólk úr landi og látum gera þessa aðferð á einkaklíník úti í Gautaborg, af því að okkur er alveg sama þó að Svíar græði, fyrir 2 til 3 milljónir. Ríkissjóður lekur, eins og ég segi, hvað þetta varðar. Það er ekkert í þessu fjárlagafrumvarpi, ekkert, sem bendir til þess að menn vilji setja undir þennan leka, ekki nokkur skapaður hlutur.

Svo að ég taki nú eitt smáræðismál með, af því að ég segi að ríkissjóður leki og eftirlitið sé ónógt: Á þessu ári, á næsta ári og á síðasta ári voru nokkrir tugir milljóna króna sendir, endurgreiddir, til trúfélags eða lífsskoðunarfélags sem hefur ekki einu sinni heimilisfang; kringum 30 til 40 milljónir á ári í þrjú ár. Ríkissjóður lekur. En það er enginn sem hefur áhuga, virðist vera.

Sem dæmi um það hversu hugmyndasnauð þessi ríkisstjórn er þá hef ég hvergi séð í frumvarpinu að hvatt sé til aukinnar skattinnheimtu, þ.e. að beitt sé ýtrustu möguleikum til þess að innheimta þegar álögð gjöld. Ég man eftir því, hæstv. forseti, árið 2013, þegar ríkisstjórnarmeirihlutinn sem þá var stóð frammi fyrir því að gera breytingu á veiðigjöldum og vinstri helmingurinn af þinginu var ekki ánægður, eða tæpur helmingur. Nú stendur sá helmingur frammi fyrir því að þurfa að gera um það bil sömu ráðstafanir og gerðar voru árið 2013. Þessar ráðstafanir voru þá kallaðar því nafni, sérstaklega af hv. þingmönnum Vinstri grænna sem þá sátu á þingi, að ríkissjóður væri að afsala sér tekjum. En auðvitað voru þetta ekki tekjur því að ekki var búið að leggja gjöldin á. Ríkissjóður er hins vegar að afsala sér tekjum með því að beita ekki auknu afli í skattinnheimtu.

En svo vill til að Miðflokkurinn hefur ráð undir rifi hverju og þar á meðal hefur hann góð ráð fyrir ríkisstjórnina akkúrat í þessu máli. Hann leggur til að embætti skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra verði styrkt verulega við þessa afgreiðslu fjárlaga til aðgerða sem beinast gegn kennitöluflakki. Það hefur verið reiknað út, og komið fram í rannsóknum sem gerðar hafa verið, m.a. í góðri mastersritgerð sem ég las um daginn, að það megi álykta að kennitöluflakk á Íslandi kosti ríkissjóð í beinhörðum sköttum á bilinu 6 til 20 milljarða á hverju einasta ári. Í tillögum þeim sem Miðflokkurinn leggur fram nú er einmitt gert ráð fyrir að þetta aukna afl í skattheimtu skili um 6–10 milljörðum í ríkissjóð. Það vill nefnilega þannig til, eins og ég sagði áðan, að útgjaldatillögur flokksins eru fullfjármagnaðar.

Herra forseti. Í ljós hefur komið í umræðum við fólk í viðskiptum á Íslandi að kennitöluflakk er vandamál. Spurningar voru lagðar fyrir stjórnendur fyrirtækja á vegum nemenda við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík — þetta var reyndar árið 2005, en ekkert bendir til þess að ástandið hafi batnað á nokkurn hátt. Þar kom fram að stjórnendur rúmlega 73% fyrirtækja sem rannsóknin náði til töldu sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks og þar af taldi ríflega þriðjungur stjórnendanna fyrirtæki sín hafa orðið fyrir tjóni vegna kennitöluflakks oftar en sex sinnum. Könnunin náði til 600 fyrirtækja. Það sem ég nefndi hér áðan, 6 til 20 milljarðar, er hlutfall af landsframleiðslu sem hefur komið fram í ástralskri könnun. Á hverjum einasta degi fáum við upplýsingar um gjaldþrot, misstór, og stærðargráðan bendir til þess að fyrirtækin hafi ekki verið lengi starfandi.

Hæstv. forseti. Í þessu sambandi minni ég á að ekki er langt síðan hér var mælt fyrir frumvarpi á vegum Miðflokksins um lagabreytingu til að koma í veg fyrir eða reyna að hamla kennitöluflakki. Þar var lagt til, og þótti ýmsum nóg um, að sá sem hefur á síðustu 18 mánuðum leitt fyrirtæki sem verður gjaldþrota, þrjú fyrirtæki á 18 mánuðum — það þýðir, hæstv. forseti, fyrrum fjármálaráðherra, að þau fyrirtæki hafa mátt lifa í sex mánuði eða yfir þrjú vasktímabil. Það þykir nú ekki mjög merkileg. En þeim sem hafa orðið fyrir því — og nú eru náttúrlega ýmsar ástæður fyrir því að fyrirtæki verða gjaldþrota — að fyrirtæki í þeirra rekstri hafa orðið gjaldþrota þrisvar á 18 mánuðum var gerð sú refsing að mega ekki koma nálægt stjórnun fyrirtækja í dágóðan tíma á eftir. Viðlíka ákvæði hafa t.d. verið í gildi í Svíþjóð og reynst vel. Flest af því sem kemur fram í tillögum Miðflokksins er stutt alvörutillögum og alvöruráðstöfunum sem við viljum gera til að þetta nái fram að ganga.

Það er líka lagt til í tillögum okkar að úrræði vegna séreignarsparnaðar við kaup á fasteign, og til að borga niður húsnæðislán, verði áfram í gildi, en falli ekki niður um mitt ár 2019, eins og ríkisstjórnin gerir ráð fyrir. Þetta ákvæði er eitt af því sem tilheyrði skuldaleiðréttingunni á sínum tíma. Þeir sem hafa getað nýtt þetta ákvæði eru sammála um, það er samdóma álit, að þetta ákvæði hafi skipt verulegu máli fyrir þá sem hafa getað nýtt það til að greiða niður skuldir og/eða til að safna sér upp í útborgun í fyrstu íbúð, eða fyrstu íbúð eftir að hafa tapað annarri íbúð. Það vill nú svo til, hæstv. forseti, að ég er enn að bíða eftir svari við fyrirspurn sem skiptir um 16.000 manns máli sem misstu íbúðir sínar á sínum tíma, af því að Íbúðalánasjóður seldi þær. Það eru margir sem eiga um sárt að binda sem gætu hugsanlega, þegar tímar líða fram, nýtt sér þetta ákvæði sem virkar mjög vel.

Miðflokkurinn leggur aftur til að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Það atriði lögðum við líka fram fyrir ári og það var fellt með eftirminnilegum hætti við nafnakall hér í þinginu. Talið er að þessi ráðstöfun muni kosta um 1.100 milljónir brúttó. Það þýðir að ef engin viðbót verður á fjölda þeirra ellilífeyrisþega sem kjósa að vinna lengur mun þetta muna ríkissjóð 700 milljónum nettó, vegna þess að u.þ.b. 400 milljónir af þessari upphæð koma til baka aftur í sköttum. Fyrir utan það að þetta er fyrirbyggjandi aðgerð í heilsueflingu þeirra sem eru hressir, treysta sér til og geta og vilja unnið en eiga ekki möguleika á því þegar tekjur byrja að skerðast strax við 100.000 kr. Það segir sig sjálft.

Ég ætla enn að minnast á tvo hópa sem ég tel að þetta gæti komið að gagni bara út af því að það blasir við. Það eru í fyrsta lagi sérfræðingar hjá ríkinu og frumvarp liggur fyrir frá Miðflokknum um að ríkisstarfsmenn megi vinna til 73 ára aldurs ef þeir kjósa, vilja og geta — þetta gæti nýst þeim. Í annan stað þá er það þannig að nokkur fyrirtæki hér á höfuðborgarsvæðinu, í byggingarvörubransanum, hafa ráðið til sín eldri iðnaðarmenn. Ég hef áður lýst því að það er náttúrlega mjög gott fyrir viðskiptavini að eiga viðskipti við iðnaðarmann með 40 ára reynslu að baki við efniskaup o.s.frv. Ég trúi því varla að þessi hópur hafi fyrir því að fara út á vinnumarkaðinn til að geta unnið sér inn 100.000 kr. áður en að tekjurnar byrja að skerðast.

Herra forseti. Þetta er sóun á alla lund.

Lagt er til í tillögum Miðflokksins að tollstjóri fái 100 milljónir vegna aukins fíkniefnavanda. Það vill svo til að ekki fyrir löngu stóð Miðflokkurinn fyrir sérstakri umræðu hér í þinginu um afleiðingar aukinnar ópíóíðaneyslu. Allir í salnum virtust vera sammála um að bregðast þyrfti við þessu — við höfum jarðað eitt ungmenni nánast í hverri einustu viku ársins til þessa og það er algjörlega óþolandi hörmungarástand. Við leggjum til 100 milljónir í þennan þátt til þess að reyna að stemma ána að ósi, þ.e. þar sem innflutningurinn er tekinn til rannsóknar, hvort sem er á flugvelli, á flugfarþegum eða í fraktsendingum og póstsendingum. Á öllum þessum sviðum hefur veruleg aukning orðið á þeim fjölda og því magni sem til rannsóknar er. Það skiptir því verulegu máli að hægt sé að bregðast við. Þessi upphæð, 100 milljónir, dugar til kaupa og þjálfunar á tveimur fíkniefnahundum, ráðningu manna til að sinna þeim, kaupa á farartækjum undir þá og síðan allgóðri upphæð í tækjabúnað að auki.

Varðandi hjúkrunarheimili vitnaði ég til nýlegra loforða sem ekki hafa staðist, en komið hefur í ljós að á næsta ári verða 140 ný hjúkrunarrými tekin í notkun og árið 2020 verða þau 93, samkvæmt upplýsingum sem við höfum aflað okkur. Þetta er mjög gott. En það er tvennt sem er að. Í fyrsta lagi er þetta ekki nægileg fjölgun, þetta er ekki nógu mikill vöxtur. Í öðru lagi er rekstur þessara heimila í molum vegna þess að velflest fyrirtæki sem reka þessi rými vinna eftir mjög gömlum samningum og mjög gömlum gjaldalistum, þannig að verið er að draga úr þjónustu á þessum heimilum. Það er það eina sem fært er að gera. Þess vegna leggjum við til 270 milljónir í að efla heimaþjónustu og til heilsueflingar aldraðra. Þetta eru peningar sem eru í sjálfu sér sparandi alls staðar. Þá má líka minnast á það, og einnig í sambandi við þá ágætu umræðu sem fór fram hér um ópíóíðavandann um daginn, að Miðflokkurinn leggur til að SÁÁ fái, í viðbót við þá aukningu sem meiri hlutinn leggur til, 150 milljónir og Krabbameinsfélagið fái 50 milljónir.

Nú endurtek ég: Hér í salnum um daginn var algjör einhugur um að grípa þyrfti til ráðstafana til að bæta úr því hörmungarástandi sem ríkir í þessum málum. Ég trúi því þess vegna, herra forseti, að tillögur Miðflokksins fái greiða leið í gegnum þingið þegar gengið verður til atkvæða um þær. Ég ítreka að allar þessar tillögur til útgjaldaaukningar eru fjármagnaðar. 1.100 milljónirnar til handa öryrkjum koma til vegna þess að hægt er að fresta framkvæmdum við Hús íslenskra fræða og hægt að taka arð úr bönkum til að byggja undir þessa greiðslu. Ég segi aftur: Þetta er réttlætismál. Ég trúi því heldur ekki fyrr en ég tek á því að það sé einlægur vilji ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að láta fátækasta fólk á Íslandi bíða enn um hríð eftir réttlæti.