149. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[00:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður gerði mestmegnis að meginefni í ræðu sinni, þennan meinta niðurskurð á velferð í boði hæstv. ríkisstjórnar og tengdi það við þær breytingar sem hafa orðið á frumvarpinu milli 1. og 2. umr. vegna þess að nú er komin ný hagspá og bregðast þurfti við því, og setti þetta í samhengi við það að við hefðum afsalað okkur algerlega fjárveitingavaldinu frá Alþingi yfir til framkvæmdarvaldsins. Birtingarmyndin er einfaldlega sú að miklu meiri agi birtist í ríkisfjármálum en áður. Í fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar er sagt: Við skilum 1% afgangi.

Öll ósköpin sem hv. þingmaður er að koma inn á er hagræðing upp á 0,17% í fjárlagafrumvarpinu. Ýmis útgjöld sem færast til um 0,41%. Verðlagsuppfærsla er vegna þess að verðbólgan fer aðeins upp, það eru 0,43%. Vaxtagjöld, 0,11%. Samtals gerir þetta bæði í debet og kredit, eins og við segjum, 0,03%. 0,07% afkomubati eftir allar þessar aðgerðir. Nettóniðurstaðan, 1% af vergri landsframleiðslu. Þetta er nú allt afsalið. Þetta er það sem við fylgjum og förum eftir og þetta er það sem hv. fjárlaganefnd þarf að skoða og fara yfir og ganga eftir upplýsingum um. Þetta er sá agi sem við höfum margoft kallað eftir. Ég og hv. þingmaður stóðum að því að samþykkja frumvarp þar að lútandi. Nettóniðurstaðan er algjörlega sú sama. Eftir sem áður er verið að fjárfesta í velferð, í menntun, í samgöngum. (Forseti hringir.) Og auka útgjöld til loftslagsmála. Það er hárrétt.