149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

skipting ríkisfjármuna.

[13:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er makalaust og auðvitað líka sorglegt að sjá hvernig framlög til mikilvægra og viðkvæmra málaflokka eru skorin niður milli umræðna. Og það er aldeilis ekki verið að leita eftir breiðu bökunum, heldur eru fundnir þau mjóslegnustu og byrðunum skellt á þau. Það er auðvitað ekki síður mikilvægt og athyglisvert að skoða mismunandi hlutverk flokkanna þriggja í þessum niðurskurði. Ef horft er til rekstrar lenda framlög til öryrkja, samgöngumála, húsnæðisuppbyggingar, nýsköpunar og menntamála, öll undir hnífnum. Öll mál Framsóknarflokksins sem bera ábyrgð á 2.021 millj. kr. niðurskurði af 2.301 millj. kr. milli umræðna, eða 88% af niðurskurðinum, herra forseti.

Ég þekki af eigin reynslu að það getur verið erfitt að vera miðjubarnið í fjölskyldunni. Stundum finnst manni maður gleymast, athyglin beinist fullmikið að því yngsta og að því elsta, en staðreyndin er sú að ábyrgðin lendir oft á miðjubarninu. Það þarf að passa það yngsta og taka til eftir það elsta. Mér finnst að það hljóti nú samkvæmt þessu a.m.k. að vera jafn erfitt að vera miðjubarnið í ríkisstjórninni.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um það hvernig honum líði núna þegar flokkurinn hans þarf nánast einn að draga að landi fjárlög sem hafa verið byggð á sandi. Varla hafa þessir málaflokkar sem ég taldi upp allir verið meðal þess sem flokkarnir töldu brýnast að skera niður, eða hvað, hæstv. ráðherra? Auðvitað er nærtækast að álykta sem svo að Framsóknarflokkurinn taki skellinn í fjárlagafrumvarpinu, en staðreyndin er hins vegar því miður sú að það eru öryrkjar sem taka skellinn í því.