149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

skipting ríkisfjármuna.

[13:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt að ráðherra einblíni á uppbyggingu. Ég var nefnilega að tala um rekstur og tók það fram í ræðu minni. Það er ágætt að hæstv. ráðherra tali um það og gangist við því að hann beri þá ábyrgð á því sem elsta barnið í fjölskyldunni. Hvernig ætlar hann að réttlæta það að vera að skera niður til húsnæðismála um 90 milljónir á sama tíma og nánast ekkert er gert og kjarasamningar byggjast að miklu leyti á því að það verði gert? Hvað ætlar hann að gera í samgöngumálum? 550 millj. kr. niðurskurður? Ætlar hann þá að taka restina af Austfjörðum þannig að það þurfi ekkert að hugsa um þá eða hvað ætlar hann að gera? Fresta vegalagningu í gegnum Kópavog? Þessu lofaði ráðherra heldur betur fyrir kosningar.

Hvernig er með menntamálin? Hvernig er með framtíðina? Hvernig er með börnin okkar? Hvernig ætlum við að mæta framtíðinni með því að halda fram að hér sé verið að fara í stórsókn en síðan er skorið niður til framhaldsskólanna og ljóst að háskólarnir ná ekki markmiði OECD eins og alltaf er verið að halda fram?

Að lokum, hæstv. ráðherra: Það er víst verið að draga saman milli umræðna (Forseti hringir.) og þetta er blaut tuska í andlitið á öryrkjum.