149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

skipting ríkisfjármuna.

[13:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Svona geta menn einfaldlega ekki talað nema þeir vilji endilega búa til óróa og óþarfa ótta hjá fólki sem er sannarlega að fá umtalsverða aukningu á milli þessara tveggja ára á fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Það gengur ekki að vera að æpa hér úr ræðustól. Það gengur ekki. Menn verða að tala um hlutina eins og þeir eru.

Í stað þess að aukning verði upp á 5,4% á milli ára er aukningin 4,6%. Í staðinn fyrir að útgjöldin séu 900 milljarðar voru þeir 890. Þetta eru nú öll ósköpin. Auðvitað þarf að koma því einhvers staðar fyrir. Í samgöngumálum, 550 milljónir af 23,5 milljörðum, það þarf ekki nema að einu verki seinki um tvo, þrjá mánuði, þá verður enginn var við þetta. Það þarf ekki nema að eitt stórt útboð verði 95% af kostnaðaráætluninni og þá verður enginn var við þetta. (Gripið fram í.) Við erum að tala um rekstraráætlun (Forseti hringir.) fyrir 900 milljarða á næsta ári. Og hvernig í ósköpunum geta menn ætlast til að þeir hitti nákvæmlega á þá krónu á milli (Forseti hringir.) umræðna? Við erum í fortakslausu góðæri á Íslandi.