149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

staða Íslandspósts.

[13:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Staða Íslandspósts er mjög alvarleg. Í núverandi fyrirkomulagi sinnir Íslandspóstur alþjónustu og í staðinn fær hann einkarétt. Hagnaður af einkaréttinum á að standa undir kostnaði alþjónustunnar. Á undanförnum árum hefur einkaréttarþjónustan, þ.e. bréfasendingar, minnkað stöðugt og þar af leiðandi hefur hagnaðurinn af einkaréttinum átt erfiðara með að greiða fyrir kostnaðinn af alþjónustunni þannig að sama gjald sé fyrir póstþjónustu um allt land. Fækkun bréfasendinga hefur verið mætt með hækkun á gjaldskrá.

Póst- og fjarskiptastofnun segir að Íslandspóstur hafi fengið tekjutap af einkarekstri að fullu bætt í gegnum gjaldskrárbreytingar og það eigi að geta fjármagnað alþjónustuna. Þrátt fyrir það liggur fyrir þinginu breytingartillaga fyrir fjárlög 2019 sem hljóðar upp á 1,5 milljarða kr. lánveitingu til að bregðast við því sem er kallað lausafjárvandi Íslandspósts. Bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd hafa hins vegar skoðað málið og það lítur út fyrir að vera nokkuð flóknara en einhver lausafjárvandi, sérstaklega vegna þess að fyrir þinginu liggur frumvarp um afnám einkaréttarins.

Miðað við þær aðstæður vil ég spyrja hæstv. ráðherra mjög einfaldrar spurningar, því að bæði lánið og frumvarpið sem þingið hefur fyrir framan sig segja bara eina sögu. Þegar það verður tap á rekstri kemur til kasta ríkisins að redda málunum. Þegar allt er einkavætt er kostnaðurinn skilinn eftir hjá skattgreiðendum. Í núverandi fyrirkomulagi er kostnaðarjöfnun á milli svæða greidd af notendum. Í því framtíðarfyrirkomulagi sem liggur fyrir þinginu er sá kostnaður greiddur af skattgreiðendum á meðan hagnaðurinn er markaðsvæddur. Er það málið, hæstv. ráðherra? Er verið að einkavæða gróðann og ríkisvæða tapið? Sjáum við fyrstu merki þess í láninu sem er búið að veita Íslandspósti og er það stefna stjórnvalda í þeim málaflokki?