149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

staða Íslandspósts.

[13:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil alls ekki spurningu hv. þingmanns. (Gripið fram í.)Fyrir þinginu liggur frumvarp á vegum sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytisins sem fer með regluverkið í kringum póstþjónustuna. Eins og menn þekkja er hlutabréfið og rekstrarleg ábyrgð hjá fjármálaráðuneytinu.

Það stendur ekki til að selja Íslandspóst. Frumvarpið snýr fyrst og fremst að því að afnema einkarétt og búa til möguleika til þess að það sé hægt á markaðslegum forsendum, eins og t.d. í Svíþjóð þar sem pósturinn er enn til og rekur alla þá þjónustu innan þessarar markaðslegu reglna. Þar er óþarfi að koma með fjármuni inn til póstsins til að halda uppi þjónustu í öllum byggðum landsins. Í Noregi aftur á móti hafa þeir tekið upp nákvæmlega sama fyrirkomulag, að afnema einkaréttinn, og þar hefur niðurstaðan orðið sú, kannski er hún líkari því sem er á Íslandi, stórt land, dreifbýlt, að inni í alþjónustukvöðinni hefur verið skilgreint, eins og í frumvarpinu við þessa breytingu, að menn geti sótt greiðslur þar sem póstfyrirtækin á markaði greiða fyrir þann hluta. Ef ekki er farin sú leið, og sú leið var ekki farin í Noregi, er það úr ríkissjóði, til að tryggja lágmarksþjónustu. Það er enginn að tala um að markaðsvæða nokkurn skapaðan hlut annan en rekstur fyrirtækisins, þ.e. það að geta tekið alþjónustuna á markaðslegum forsendum myndi þýða að kostnaður skattgreiðenda við að halda uppi alþjónustu á ákveðnum svæðum yrði minni.

Umhverfið í þessu frumvarpi er þannig úr garði gert að fleiri gætu hugsanlega boðist til þess að gera þetta á markaðslegum forsendum þannig að aldrei kæmi til greiðslna úr ríkissjóði til að halda uppi þjónustunni. Ég held að hv. þingmaður hafi misskilið frumvarpið. Það er akkúrat verið að breyta fyrirkomulaginu þannig að aðrir og fleiri geti hugsanlega gert betur, verið með betri þjónustu fyrir minni pening.