149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

staða Íslandspósts.

[13:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Einkarétturinn á að standa undir kostnaðinum af alþjónustunni. Lánið sem liggur fyrir framan okkur segir að hann geri það ekki nema þá að lánið sem við eigum að afgreiða sé ekki á þeim forsendum, það sé á einhverjum öðrum forsendum. Það er annað hvort. Lagt er til í þessari þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins, sem var innleidd hérna, að einkaréttur ríkisins á póstþjónustu yrði afnuminn og markaðurinn opnaður, eins og sagt er í greinargerðinni eða útskýringunum með frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að veiting póstþjónustu í atvinnuskyni verði ekki leyfisskyld heldur háð skráningu.

Ef alþjónusta verður ekki veitt á markaðslegum forsendum er lagt til að ríkisvaldið tryggi hana með því að fá einn eða fleiri aðila til að sinna alþjónustunni gegn því að kostnaður vegna byrðar sem í því felst verði bættur úr ríkissjóði. Verið er þá að setja þá byrði á skattgreiðendur, sem er ekki eins og er núna þar sem einkarétturinn á að standa undir þeim framlögum sem alþjónustan kostar. Það er þannig með fyrirtækið núna, með þessi dótturfyrirtæki sem sinna ýmissi þjónustu sem er smáhagnaður af hér og þar, ekki af þessari þjónustu, alþjónustunni, þar er kostnaðurinn. Þar eiga skattgreiðendur að borga enn. Það sem er annars staðar má vera á markaði.