149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

staða bænda.

[13:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ætli ég verði ekki að byrja á að hrista handlegginn til að gá hvort það komi eitthvað fram úr erminni? En það er ekkert uppi í erminni í þeim efnum, það er bara þannig. Það er samningur á milli ríkisins og sauðfjárbænda sem tók gildi 1. janúar 2017 og gildir til 2026. Það er endurskoðunarákvæði í samningnum sem er á þann veg að fara beri yfir samninginn 2019 og 2023. Ég flýtti endurskoðuninni og við erum þessa dagana að ræðast við, hvað sé í gangi á grundvelli samningsskipaðs forms, þ.e. samráðshópur um endurskoðun búvörusamninganna er í gangi og samninganefndir bænda og ríkisins standa í honum. Það stendur fundur akkúrat núna. Ég get á þessu stigi ekki sagt neitt til um hvað kemur út úr því.

Varðandi fjárlögin ein og sér er það þannig að í samningnum var samið um það sem kallað hefur verið vatnshalli. Framlög til landbúnaðarmála í heildinni dragast saman í fjárlögum, ef ég man rétt, um 172 millj. kr., sem var um samið á milli ríkisins og bænda. Hingað til hefur endurskoðun þessa samnings ekki beinst að neinu öðru en því að gera breytingar í þá veru að reyna að draga úr þeirri framleiðsluspennu sem er innan sauðfjárræktarinnar á grundvelli sömu fjárheimilda og landbúnaðarráðherrann hefur til úrvinnslu. En samninginn ber að virða.

Ég ítreka að viðræður standa yfir. Sauðfjárbændur hafa komið fram með hugmyndir, það eru ákveðnar hugmyndir í stjórnarsáttmálanum og verið er að reyna að bræða það saman.