149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

mótun flugstefnu.

[14:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir áhugaverða fyrirspurn frá hv. þm. Birgi Ármannssyni. Á næsta ári mun flug eiga 100 ára afmæli á Íslandi. Það eru 100 ár síðan flug hófst á Íslandi. Þess vegna er það nokkuð merkilegt að við höfum aldrei sett fram almenna flugstefnu í þessi 100 ár.

Við hófum þessa vinnu í vor, fljótlega eftir að ég kom í ráðuneytið, og það er kominn af stað hópur sem áætlar að geta skilað af sér flugstefnu eins og mörg lönd hafa sett fram á síðustu árum. Ég nefni Írland sem dæmi. Vonandi komum við fram með almenna flugstefnu á miðju næsta ári, á 100 ára afmælinu.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að fyrir tíu, tólf árum var hlutdeild flugs og flugtengdrar starfsemi um 6,6% af landsframleiðslu en er núna talin vera fjórðungur eða fimmtungur af landsframleiðslunni. Þess vegna er þessi atvinnugrein orðin mjög mikilvæg fyrir landið, fyrir efnahaginn, fyrir atvinnulífið, og er auðvitað forsenda uppbyggingar í ferðaþjónustu. Þess vegna var í stjórnarsáttmálanum lögð sérstök áhersla á það til að mynda að setja sértæka eigandastefnu fyrir Isavia, ekki bara einhverja almenna stefnu fyrir ohf.-fyrirtækin. Það er unnið að því. Samhliða er að ljúka störfum starfshópur undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar sem skoðar möguleika á því að efla innanlandsflugið.

Einn af þeim kostum — og þetta gæti verið samspil á milli þessarar sértæku eigandastefnu Isavia sem ríkið setti og uppbyggingu innanlandsflugsins — væri til að mynda að Isavia tæki að sér reksturinn á öllum fjórum millilandaflugvöllunum, þ.e. Akureyri, Egilsstöðum, Reykjavík, auk Keflavíkur sem þeir reka í dag. Síðan myndi ríkið með þjónustusamningi við Isavia (Forseti hringir.) einbeita sér betur að minni flugvöllunum og gæti þar með eflt þá samtímis.