149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

afgreiðsla frumvarps um veiðigjald úr nefnd.

[14:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp einfaldlega til að hrósa hæstv. forseta eftir fund atvinnuveganefndar í morgun þar sem hið stóra, mikla og mikilvæga veiðigjaldamál var til umræðu. Það var tekið út með ofbeldi, að mínu mati, og því var harðneitað að taka við gestum sem við lögðum til eftir að breytingartillögur lágu fyrir og þær yrðu þá teknir inn til nefndarinnar milli 2. og 3. umr.

Allir vita náttúrlega að meginumræðan í þessu máli og í flestum málum hér er við 2. umr. Þetta mál verður að sjálfsögðu klárað með einum eða öðrum hætti fyrir áramót, en ég taldi mikilvægt að við fengjum mjög ítarlega umræðu og um leið tækifæri til að vinna þetta.

En ég vil hæla hæstv. forseta fyrir að hafa komið að einhverju leyti til móts við okkur í stjórnarandstöðunni. Auðvitað hefðum við viljað sjá þetta aðeins öðruvísi en engu að síður þakka ég forseta fyrir að hafa hlustað á raddir okkar og reynt að stuðla að betra vinnulagi í þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)