149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Já, hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna, sem var mikið um að bæta í útgjöld. Ef einhver gagnrýni hefur verið gegnumgangandi hjá þeim umsagnaraðilum sem hafa sent inn umsögn við þetta frumvarp er það helst að við séum að bæta í, þenja svolítið útgjöldin, og það má alveg horfa á það. Vissulega er verið að setja verulega fjármuni í velferðarkerfið, í menntakerfið, í samgöngur, í loftslagsmál.

Ég ætlaði að koma hér upp vegna þess að hv. þingmaður talaði um að óábyrgt hefði verið að fresta hluta af framlagi sem er í frumvarpinu, 4 milljörðum, sem er sérmerkt verkefni til að vinda ofan af vondu kerfi sem ég trúi að full samstaða sé um í þinginu að vinda ofan af. Það sem er óábyrgt í málflutningi Samfylkingar og hv. þingmanns er að láta að því liggja að verið sé að lækka bætur til öryrkja. Það er þvert á móti verið að hækka bætur til öryrkja, það stendur. Það stendur jafnframt að þessir 4 milljarðar fara í það verkefni. Það sem er um að ræða er að hér er í það minnsta skapaður tími til að gera þær fjárheimildir, færa þær nær þeim tíma, gefa ráðherra tíma til að koma inn með þær tillögur sem koma vonandi fljótlega. Þá getum við rætt þær tillögur og hvaða úrlausnir við höfum.