149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er mjög jákvætt og gott að það liggi fyrir að 4 milljarðar fara í þetta verkefni. Það er hins vegar verið að gefa starfshópi ráðherra tíma til að skila inn tillögum og þegar við höfum séð þær tillögur getum við rætt hvernig við útfærum það. Það gerist þannig að það frestast um einhvern tíma en þær fjárheimildir eru þá færðar nær því sem gera má ráð fyrir að nýtist á næsta ári. Það er hugsunin. Auðvitað hefðum við öll viljað að það lægju fyrir tillögur þannig að við gætum rætt þær og gefið út fjárheimildir upp á 4 milljarða sem, og ég ítreka það ekki nógu oft, eru naglfastar verkefninu. Það fara 4 milljarðar í þetta verkefni. Það liggur alveg fyrir.

Svo vildi ég koma örlítið inn á samgöngur og þessar 500 milljónir. Það er ekki fyrirséð hvaða verkefni það eru en þó er sett það mikil aukning í framkvæmdir að ljóst er að ekki verður hægt að klára alls staðar. Það verður unnið í samvinnu við Vegagerðina, hvar sér ekki fyrir endann á því að klára verkefni, og það hugsanlega ekki fyrr en líða tekur á árið. Það þarf að hafa mannskap og tæki og úrræði til að klára öll verkefnin. Þess vegna er sú lækkun sett þar inn.

Hins vegar er rétt að ítreka að nettóniðurstaðan af öllum þeim ráðstöfunum er sú sama, þ.e. 1% af vergri landsframleiðslu, sem er greypt í stefnu, sem er skilað í afgang.