149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það hafa þegar verið haldnar allmargar og ágætlega upplýsandi ræður um ýmsa þætti fjárlagafrumvarpsins nú í 2. umr., eftir þá vinnu sem farið hefur fram frá 1. umr. og breytingar sem margar hverjar vekja auðvitað talsverða athygli. Ég ætla í þessari fyrstu ræðu minni um frumvarpið að reyna að einbeita mér að stóru myndinni, þ.e. fjalla um það hvernig þetta fjárlagafrumvarp blasir við í heild, og mun þá í framhaldinu, ef tími gefst til núna eða í seinni ræðu, e.t.v. fara nánar ofan í einstaka liði.

Það má segja að fjárlagafrumvarpið nú sé um margt líkt síðasta fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar. Þetta eru önnur fjárlög ríkisstjórnarinnar og bera þess mjög merki hvernig til þessarar ríkisstjórnar var stofnað. Ég held að óhætt sé að segja að það komi ekki á óvart. Margir þeir sem þekktu til þessara stjórnmálaflokka og hvernig ríkisstjórnin var mynduð og á hvaða forsendum gátu gefið sér hvernig fjárlög slíkrar ríkisstjórnar myndu líta út.

Þetta er ríkisstjórn sem tók við eftir mesta efnahagslega viðsnúning sem Ísland hefur náð, og raunar nokkurt ríki, alla vega í seinni tíð. Það blasti við að aðstæður til að fjárfesta og ráðast í uppbyggingu á ýmsum sviðum, í innviðum samfélagsins, heilbrigðisþjónustu og fleiru, hefðu sjaldan verið eins góðar og nú. En á þeim tímapunkti vildi svo óheppilega til að við fengum ríkisstjórn sem sameinaðist ekki um neina tiltekna pólitíska sýn. Það var ekki kynnt nein framtíðarsýn fyrir samfélagið þegar þessi ríkisstjórn varð til heldur var til hennar stofnað til að ná, eins og einhver auglýsingastofan fann líklega út fyrir þau, því sem kallað var breið skírskotun. Þetta átti að vera ríkisstjórn sem myndi dekka hið pólitíska landslag með því að taka einn flokk yst frá vinstri, einn frá hægri og einn flokk sem taldist miðjuflokkur og með því móti dekka sviðið. Þetta er svona svipað viðhorf og að menn líti á pólitíkina og stjórnmálaflokka sem íþróttalið sem séu að keppa og stuðningsmenn liðanna eigi bara að vera sáttir ef þeirra menn fá medalíur, eða í þessu tilviki ráðherrastóla, óháð því hvað gert er í þessum ráðherrastólum.

Menn gátu eiginlega sagt sér það sjálfir að slík ríkisstjórn, ríkisstjórn sem var bara mynduð um að skipta á milli sín ráðherrastólum og dekka pólitíska sviðið að eigin mati með því, myndi leggja fram við þessar aðstæður auðvitað sérstaklega fjárlög sem fælu í sér verulega útgjaldaaukningu án þess að þeirri útgjaldaaukningu væri endilega vel varið. Og það er einmitt stóri gallinn við þetta fjárlagafrumvarp nú, raunar það síðasta líka, að á sama tíma og menn eru að setja ný met í útgjaldaaukningu renna þau útgjöld ekki í það að breyta hlutunum eða bæta þá, þau renna í óbreytt kerfi, enda er þetta kerfisstjórn. Stjórnkerfinu er eftirlátið að stýra gangi mála. Stjórn sem ekki treystir sér til að fara í kerfisbreytingar eða innleiða einhverja pólitíska sýn getur auðvitað ekki gert annað en að auka við útgjöldin þar sem þau eru fyrir.

Þetta getur verið mjög skaðlegt. Meira að segja núverandi aðstoðarmaður hæstv. heilbrigðisráðherra benti á þetta í tíð sinni sem landlæknir, og þá með tilliti til heilbrigðiskerfisins, að þegar menn ykju útgjöld í gallað kerfi gæti það jafnvel verið til tjóns því það festi ókostina og gallana enn frekar í sessi og gerði þeim mun erfiðara að laga kerfið þegar fram liðu stundir.

Þetta horfum við upp á núna frá kerfisstjórninni. Það eru kerfisfjárlög þar sem met eru slegin í útgjaldaaukningu en tækifærið, eins grátlegt og það nú er, virðulegur forseti, ekki nýtt til að laga þessi kerfi og fá meira fyrir peninginn, fyrir skattgreiðendur og fyrir þá sem eiga að njóta góðs af auknum útgjöldum, hvort sem það er fólk sem þarf að reiða sig á lífeyrisgreiðslur eða heilbrigðisþjónustuna eða annað. Það er hvergi að sjá að með þessari miklu útgjaldaaukningu sé verið að gera hlutina betri eða betur. Hættan fyrir vikið er sú að það verði þeim mun erfiðara fyrir þau stjórnvöld sem taka við að vinda ofan af því sem kerfisstjórnin er að verja enn meira fjármagni í nú.

Það er ekki mikið um uppbyggingarhug í þessum fjárlögum. Tökum bara sem dæmi samgöngumálin. Þar var talað um stórsókn. Það fyrsta sem við sáum af þeirri stórsókn var niðurskurður á gildandi samgönguáætlun. Svo hefur nýlega birst samgönguáætlun þar sem gert er ráð fyrir enn frekari frestun framkvæmda og ekki mikið um að menn séu að reikna inn langtímaáhrif af þeim ákvörðunum sem teknar eru. En þetta er bara eitt dæmi. Það sama birtist gegnumgangandi í þeim málaflokkum sem undir ríkisstjórnina heyra og sumt er alveg sérstaklega dapurlegt að sjá. Til að mynda það að menn skuli ekki ætla að standa við þau fyrirheit sem hópar eins og eldri borgarar hafa fengið frá stjórnvöldum á undanförnum árum, öryrkjar, eða landsbyggðin í heild má eiginlega segja. Þegar lagt var upp með það plan sem lá til grundvallar þeim efnahagslega viðsnúningi sem ég nefndi hér í upphafi fylgdi sögunni að mikilvægt væri að verja ávinningnum, eða a.m.k. hluta hans, í uppbyggingu samfélagsins til framtíðar, ekki hvað síst í byggðamál og það að tryggja að landið allt ynni sem ein heild. Enda er það samfélaginu öllu til góðs ef við getum virkjað íbúa landsins alls og gert fólki, hvar sem það býr á landinu, sem best kleift að lifa sínu lífi og vinna að þeirri verðmætasköpun sem landið býður upp á.

Fyrst ég er kominn inn á einn tiltekinn málaflokk eða því sem næst þá get ég ekki látið hjá líða, þrátt fyrir áformin sem ég lýsti hér í upphafi um að líta fyrst og fremst á stóru myndina, að nefna aðeins stöðu íslensks landbúnaðar, undirstöðuatvinnugreinar í meira en 1000 ár eða frá upphafi Íslandsbyggðar, sem hefur sjaldan — aldrei, segja sumir — verið í eins mikilli nauðvörn og nú. Við síðustu fjárlagavinnu var sett sérstakt framlag í að bregðast við neyðarástandinu sem þá ríkti í landbúnaði, sérstaklega í sauðfjárrækt. En það er ekkert slíkt að sjá núna. Tíminn hefur ekki verið nýttur til að undirbúa framtíðarsýn fyrir landbúnaðinn eða bæta rekstrarumhverfi greinarinnar. Og ástandið er ekki betra nú en það var fyrir ári síðan fyrir vikið. En nú ætla stjórnvöld að því er virðist ekki að bregðast við á nokkurn hátt. Þetta setur auðvitað kjör og framtíðarhorfur fjölskyldna um allt land í mikla óvissu og jafnvel uppnám og getur með því grafið mjög undan byggðaþróun í stórum hlutum landsins. Ég hlýt að treysta á það, virðulegur forseti, að þetta sé eitt af þeim málum sem sérstaklega verði hugað að núna milli 2. og 3. umr., þ.e. að koma til móts við þessa undirstöðuatvinnugrein landsins.

En aftur að heildarmyndinni. Til að útskýra áhyggjur mínar og okkar margra af því hvernig þessi ríkisstjórn nálgast fjárlagavinnuna er ágætt að nota dæmi. Fá dæmi eru eins lýsandi og skýr í þeim efnum og áformin um byggingu Landspítala við Hringbraut. Það má öllum vera ljóst, og raunar heyrist mér það nú á fólki þegar maður ræðir við það einslega að flestöllum sé það ljóst nú þegar, að menn eru á algjörum villigötum með að halda áfram að klastra við gömlu landspítalabyggingarnar við Hringbraut í stað þess að nota tækifærið sem nú gefst í þessu einstaka efnahagsástandi til að hugsa til framtíðar og byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað, í samræmi við þarfir 21. aldarinnar. En menn einhvern veginn komast ekki upp úr hjólförunum, geta ekki metið hlutina upp á nýtt, óttast e.t.v. í tilviki þessarar ríkisstjórnar að ná ekki saman um málið innbyrðis. Þá er bara haldið áfram að hjakka í sama farinu.

Kaldhæðnin er reyndar sú, og það er enn ein ástæðan fyrir því að þetta er lýsandi dæmi, að nú sér ríkisstjórnin fram á sparnað á þessum lið. Framkvæmdir ganga svo hægt, ganga miklu hægar en menn höfðu gert ráð fyrir. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir minni útgjöldum í málaflokkinn í fjárlagafrumvarpinu nú í 2. umr. en áformað var í 1. umr. Enda fer þetta ekkert sérlega glæsilega af stað. Ég held að það sé ekki enn búið að klára sjúkrahótelið sem átti þó að vera tiltölulega einfaldasti hluti verkefnisins og að vera löngu komið í notkun. En það eru hafnar framkvæmdir, með þeim áhrifum að margt starfsfólk spítalans, skrifstofufólk, er flúið, búið að færa það á annan stað vegna rasksins og hávaðans sem af þessu leiðir. Sjúklingarnir eru áfram auðvitað geymdir á Landspítalanum, í svifrykinu, hávaðanum, raskinu og óróanum. Þannig verður þetta líklega næstu árin nema ný ríkisstjórn og ný stefna taki við í tæka tíð.

Svo er það líka lýsandi fyrir bæði þessi fjárlög og þau síðustu, og raunar nálgun þessarar ríkisstjórnar á þau viðfangsefni sem hún stendur frammi fyrir, að bregðast við með annaðhvort nýjum bönnum eða tillögum um ný bönn eða ný gjöld eða hækkunum á þeim gjöldum sem fyrir eru. Aftur og aftur kemur þetta upp sem lausnin, gjöld og bönn, bönn og gjöld. Þetta tekur á sig ýmsar myndir og á ýmsum sviðum. Ég ætla ekki að rekja það allt saman hér en lýsandi eru auðvitað hækkanirnar sem snúa að umferð, bifreiðaeigendum. Þar er nú gert ráð fyrir hækkun á almennu og sérstöku bensíngjaldi. Dálítið kostulegt að bæði er lagt á almennt og sérstakt bensíngjald. En það er líka lagt á olíugjald og það á að hækka. Það er lagt á almennt og sérstakt kílómetragjald og bifreiðagjald. Og svo eru öll vörugjöldin sem hækkuðu 1. september. Þessu til viðbótar finna menn upp ný gjöld eins og kolefnisgjald og hækka svo að sjálfsögðu kolefnisgjaldið.

En í hvað fer þetta fjármagn? Fer það í að byggja upp samgöngukerfi landsins? Nei, ekki nema að tiltölulega litlu leyti. Þetta fer í annan rekstur. Þetta fer í það sem má segja að sé gegnumgangandi meginstef þessara fjárlaga og þeirra síðustu, að stækka báknið. Hæstv. fjármálaráðherra kann ekki að meta það þegar á þetta er bent, að Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn sé líklega að slá fyrri met í að stækka báknið. Ég held að engin ríkisstjórn frá því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2008 hafi aukið útgjöldin eins mikið og þessi. Og þessi útgjaldaaukning fer fyrst og fremst, a.m.k. að mjög verulegu leyti, í báknið. Þá segir hæstv. fjármálaráðherra að það sé nú ekki sanngjarnt vegna þess að báknið sé ekki að stækka eins hratt og nemur hagvexti, hagvöxtur hafi verið svo mikill og þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að báknið sé að stækka. Það sé ekki að stækka alveg eins mikið og hagvextinum nemur. En þá hlýtur maður að velta því fyrir sér, ef það verður samdráttur hér, t.d. á næsta ári, hvort það eigi þá að túlka það þannig að með því sé ríkisstjórnin að stækka báknið til mikilla muna.

Það er ljóst að það er verið að bæta verulega í stjórnkerfið, yfirbyggingu samfélagsins, ef svo má segja, og birtist nú kannski ekki hvað síst í auknum framlögum til ráðuneytanna sjálfra. Framlög til forsætisráðuneytisins, svo ég nefni dæmi, jukust um 50% á einu ári í fyrra. Eitthvað hefði nú verið sagt ef það hefði gerst einhvern tímann áður. Á sama tíma hafa ráðherrar nýtt alla möguleika sína á að ráða til sín aðstoðarmenn og fyllt alla kvóta hvað það varðar. Kostnaður við aðstoðarmenn ráðherra slagar nú hátt upp í að vera sá sami og við þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Allt er þetta á sömu bókina lært, aukin útgjöld, aftur og aftur og á ýmsum málasviðum, án þess að það tækifæri sem í því felst sé nýtt til að bæta kerfið.

Mér láðist að nefna það þegar ég ræddi landbúnaðinn hérna áðan og sagðist vonast til að tekið yrði á þessu máli milli umræðna að svar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn um þetta mál hér áðan var nú ekki til þess að auka manni bjartsýnina. Ég vil láta þess getið að þingmenn geta ekki treyst á að ráðherra málaflokksins muni beita sér fyrir þessum úrbótum hér fyrir 3. umr. Það fellur í hlut þingmanna, eins og kannski eðlilegt er, þótt menn hafi stundum vænst þess að ráðuneytin myndu passa upp á svona hluti, að gæta þess að brugðist verði við þeirri stöðu sem uppi er í íslenskum landbúnaði. Það var kostulegt að heyra hér áðan skýringar ráðherrans sem virðist orðin einhvers konar staðalskýring Sjálfstæðismanna hér í þinginu. Það hafi verið gerðir búvörusamningur þegar ég var í ríkisstjórn og þá gætu þeir ekkert brugðist við ástandinu eins og það er núna. Sjálfstæðisflokkurinn virðist algjörlega hafa gleymt því að hann hefur verið í ríkisstjórn undanfarin ár og er farin að lifa í núinu, eins og hann hefur stundum sakað aðra flokka um að gera. En mér finnst þó rétt að benda hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á að það er ekki hægt að tala sig frá þessum vanda með slíkum hætti. Menn verða að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi. Jú, þeir geta tekið ábyrgð á því að hafa tekið þátt í ríkisstjórn og ég skal alveg fallast á þá gagnrýni hæstv. ráðherra að maður hefði hugsanlega átt að hafa meira eftirlit með forvera hans í embætti. En sú staða sem við erum að fást við núna er mjög krítísk og kallar á róttækar aðgerðir. Þess vegna dreg ég sérstaklega fram í ræðunni mikilvægi þess að við þingmenn vinnum milli umræðna að því að komið verði til móts við þessa mikilvægu undirstöðuatvinnugrein.

Virðulegur forseti. Almennt er ástæða til að hafa áhyggjur af hvert stefnt er og þeirri meginmynd sem birtist í þessu fjárlagafrumvarpi. Útgjaldafrumvarp en um leið kerfisfrumvarp. Ég geri ráð fyrir að í seinni ræðum um þetta frumvarp muni ég víkja sérstaklega að ákveðnum liðum, þó að það hafi verið gert ágætlega af þeim þingmönnum sem fjallað hafa um þessi mál fyrr í umræðunni. Við vonumst auðvitað eftir því að ríkisstjórnin og ráðherrar hennar muni láta sér segjast og gera einhverjar úrbætur. En stjórnarandstöðuflokkarnir leggja þó fram, hver í sínu lagi, sínar breytingartillögur með það að markmiði að fá þær samþykktar — auðvitað viljum við það helst en ef ríkisstjórninni liði betur með að gera tillögurnar að sínum er það velkomið líka.

Í öllu falli er ljóst að það væri gríðarleg synd ef það einstaka tækifæri sem gefst núna með sérstaklega góðri stöðu ríkissjóðs yrði ekki nýtt til að ráðast í kerfisbreytingar og bæta samfélagið til framtíðar.

Og fyrst ég nefni ítrekað þessa góðu fjárhagsstöðu eru auðvitað blikur á lofti með hana líka, eins og búast mátti við, enda hefur ekkert eða a.m.k. sáralítið verið gert af hálfu stjórnvalda til að fylgja eftir þeirri aðgerðaáætlun sem skapaði þessa einstöku efnahagsstöðu, hvað þá að huga að því að hún viðhaldist eða að það fjármagn sem losnaði um nýtist til áframhaldandi verðmætasköpunar og uppbyggingar í samfélaginu til næstu ára. Menn einfaldlega útdeila þessum peningum í fyrirliggjandi kerfi en hugsa hvorki um að laga kerfið né að búa í haginn fyrir framtíðina varðandi tekjuöflun ríkisins og verðmætasköpun í samfélaginu. Og það er ekki gott að menn ráðist í slíka fjárlagagerð við þessar aðstæður því aðstæður hafa oftar en ekki, reyndar eiginlega alltaf, verið erfiðari við fjárlagagerð en nú er.