149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla að gerast svo kræfur að spyrja opinnar spurningar varðandi samgöngurnar: Hvaða fjármögnunarleiðir er hægt að fara við að byggja samgöngukerfið hraðar upp? Vegtollar, veggjöld eða hvernig sem við sjáum það fyrir okkur. Síðan erum við að fara í orkuskipti í samgöngum og þetta er allt að breytast. Olíugjöldin til ríkissjóðs munu minnka þannig að tekjuforsendurnar munu breytast þar. Við þurfum einhvern veginn að sjá þetta heildrænt. Ég veit að hv. þingmaður er býsna glöggur þegar kemur að því og ætla því að biðja hann um að vera aðeins nákvæmari í seinna andsvari um hvernig við fjármögnum þetta.

Svo vil ég draga fram að það kemur fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar að það eru óverulegar breytingar á fjárveitingum til landbúnaðarins. Stærstur hluti þar er bundinn í samningum eins og hv. þingmaður gjörþekkir, en meiri hlutinn leggur til að við undirbúning fjármálaáætlunar og næstu fjárlagagerð verði hugað að sókn til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu. Þar er auðvitað landbúnaðurinn gríðarlega mikilvægur. Við erum alveg sammála þarna. En ég vil þó árétta að í síðustu fjárlögum þá komum við með sérstakar ráðstafanir til handa sauðfjárbændum, svo því sé haldið til haga.

Ég læt þessa spurningu liggja. En ég á tíma eftir og ætla nú að segja hæstv. heilbrigðisráðherra það til varnar að mér finnst hann akkúrat vera að taka á þessu kerfi. Það hefur komið skýrt fram að við viljum félagslegt heilbrigðiskerfi og hæstv. ráðherra er að reyna að ná utan um það.