149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við horfum upp á tvöfalt heilbrigðiskerfi verða til sem afleiðingu af þeirri stefnu sem nú er rekin. Með lengingu biðlista og nýjum biðlistum eftir því að komast á biðlista eru fleiri og fleiri sem gefast upp á biðinni, þeir sem hafa efni á því leita sér lækninga annars staðar og borga þá meira fyrir sjálfir.

Með öðrum orðum er tvöfalt heilbrigðiskerfi þegar að verða til og það er afleiðing af þeirri stefnu.

Þetta er líka mjög skýrt dæmi, með tilliti til þess að við erum að ræða aukin útgjöld án markmiðs, um að stjórnvöld þurfa stöðugt að huga að því hvað almenningur fær fyrir peninginn, ekki bara að upphæðunum heldur líka hvað fæst fyrir upphæðirnar. Það er augljóslega eitthvað að þegar við erum með heilbrigðisráðherra sem er ekki reiðubúinn til að setja pening í að borga fyrir aðgerðir á Íslandi sem kosta kannski 1 milljón, stytta biðina og eru miklu þægilegri og einfaldari fyrir fólk en þær aðgerðir sem ráðherrann virðist vera tilbúinn að borga fyrir kannski 3 milljónir í útlöndum hjá sams konar stofnun, hafa miklu meiri óþægindi í för með sér fyrir sjúklingana. Þá fær ríkið ekki eins mikið og það gæti fyrir peninginn. Á hverjum bitnar það? Það bitnar auðvitað á skattgreiðendum en fyrst og fremst á sjúklingunum.

Ég held að við séum flestir þingmenn sammála um að það eigi að vera almenn heilbrigðisþjónusta á Íslandi í þeim skilningi að ríkið eigi að standa straum af kostnaði við nauðsynlega heilbrigðisþjónustu að mestu eða jafnvel öllu leyti. En ríkið verður þá að fá að kaupa þá þjónustu þar sem hún er best og á sem hagkvæmustu verði. Öðruvísi er það ekki hægt og verður sífellt erfiðara eftir því sem árin og áratugirnir líða, þjóðin eldist og þjónustan verður jafnvel flóknari og dýrari með nýrri tækni og nýjum lyfjum.

Á því sviði þarf ekki hvað síst að fara vel með fjármagnið, bæði fyrir skattgreiðendur og þá sem verið er að hjálpa.