149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil eindregið taka undir hvert orð sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði varðandi heilbrigðiskerfið. Við eigum að vera með öflugt opinbert kerfi. Hið opinbera verður að geta leitað og haft svigrúm til að leita bestu leiða, annars vegar fyrir skattborgarana og hins vegar fyrir sjúklingana og almenning í landinu. Ég held að við deilum þeirri sýn.

Það er annað sem ég vil líka þakka hæstv. — ég meina hv., þótt hann verði eflaust innan tíðar hæstv. aftur — hv. þingmanni fyrir að hafa beint sjónum að landbúnaðinum. Ég tek eindregið undir það að þrátt fyrir að mjög umdeildur samningur hafi verið gerður, sem ég var ekki endilega mjög sátt við, var hann engu að síður gerður og það er hægt að vinna með hann. Það er ekki þar með sagt að hann sé óumbreytanlegur, það þarf bara pólitískan vilja til þess að gera það.

Ég tel gríðarlega mikilvægt að við undirstrikum að halda þarf áfram að styrkja landbúnaðinn, en það er eitt af þeim kerfum sem ég tel að þurfi að breyta. Okkur kann að greina á um þær breytingar en ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér ekki sammála í því að við þurfum sérstaklega að ýta undir nýsköpun í landbúnaði, efla þá þætti, auka hvata, auka frelsi bænda til að reyna að framleiða hina ýmsu vöru sem þeir hafa ekki nægilega mikið svigrúm til í dag. Hvernig getum við stutt sérstaklega við unga bændur, reynt að ýta undir nýliðun og vera með hvata í kerfinu sem halda betur utan um þá tvo þætti, þ.e. unga bændur og nýsköpun í landbúnaði?

Ég er sannfærð um að landbúnaður á næstu árum og áratugum getur farið í stórsókn en það þarf pólitískan vilja til þess og ramma sem ýtir undir nákvæmlega það sem við viljum sjá, þ.e. nýsköpun í landbúnaði, af því að við erum einfaldlega með þannig vöru. Ég er óhrædd við samkeppni. Við Íslendingar munum sigra þá samkeppni með okkar vöru. En þá verða bændur líka að hafa þetta svigrúm.

Við sjáum að vissu leyti svigrúm meðal grænmetisbænda sem hafa þróað, ekki bara frábærar afurðir heldur líka afleiddar afurðir, (Forseti hringir.) hvort sem það er tómatapestó eða hvað það er. Við eigum að geta séð þetta líka á öðrum sviðum í landbúnaði, hvort sem það er í sauðfjárræktinni eða annars staðar.

Ég spyr hv. þingmann um þetta, nýsköpun og unga bændur.