149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hætt við að einhverjir bændur, hafi þeir verið að horfa á þetta, hafi hrokkið við fyrst þegar þeir sáu hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur koma hér upp og taka undir með mér varðandi landbúnaðinn. Ég get upplýst hv. þingmann um það að ég sat með hópi bænda, ekki alls fyrir löngu, það var skömmu eftir að fjárlagafrumvarpið kom út, þar sem frumvarpið og ráðuneytið barst í tal og einn bændanna sagði: Ég er bara farinn að sakna Þorgerðar Katrínar. Það er kannski svolítið lýsandi fyrir ástandið sem menn horfa fram á núna.

Ég vil auðvitað taka undir megininntakið í því sem hv. þingmaður nefndi áðan, nýsköpun og þróun atvinnugreinarinnar er auðvitað gríðarlega mikilvæg og eðlilegt að setja fjármagn í það. Þessi grein, eins og allar aðrar, þarf að þróast til að vera samkeppnishæf og tryggja þeim sem hana stunda kjör sem eru sambærileg við það sem aðrar stéttir geta vænst.

Þó er alveg ljóst, þótt ekki væri nema vegna þess hvernig haldið er á þeim málum í öðrum löndum, að stjórnvöld þurfa með sérstökum hætti að standa vörð um landbúnaðinn. Það er ekki hægt að ætlast til þess að greinin keppi óhindrað við vörur sem eru framleiddar við allt aðrar og lakari aðstæður af fólki sem býr ekki við sömu kjör, oft og tíðum í verksmiðjubúum þar sem er aðflutt vinnuafl sem nýtur ekki kjara sem við teljum sæmileg hér.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að ætlast til þess að íslensk fjölskyldubú og sá landbúnaður sem við höfum haft hér um aldir og viljum verja keppi við slíkt. Þess vegna þurfum við slíkar varnir, svo að hér geti áfram þróast sá góði landbúnaður sem við njótum.