149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo sem ekki ástæða fyrir mig til að bæta miklu við mál mitt en ég vildi koma hér upp til að hleypa hv. formanni fjárlaganefndar aftur að. Það er kannski eitt, sem ég hef svo sem gagnrýnt áður. Mál er snúa að skattkerfinu virðast hjá þessari ríkisstjórn fyrst og fremst vera tæknilegs eðlis, útfærslur sem hvaða ókosinn embættismaður gæti allt eins farið með. Það er óskaplega lítil sýn. Í því eina máli og þeim eina hluta skattamálanna sem er einhver raunveruleg sýn að því er virðist, hinum svokölluðu grænu sköttum, keyra menn áfram þó að þeir viðurkenni að þeir hafi ekki hugmynd um hvaða áhrif nást fram með 50% skattahækkun og þaðan af meira.

Þannig að ég mun bara að standa við það sem ég sagði strax fyrir ári síðan, að ég greiddi atkvæði gegn 50% hækkun kolefnisgjalds þá og ég mun greiða atkvæði gegn 10% viðbótarhækkun núna.

Ég vil aftur gagnrýna hina mjög svo tæknilegu útfærslu á þeim málum þar sem pólitíkin og sýn stjórnarflokkanna virðist algerlega víkja. Það verður áhugavert að heyra svör hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, formanns fjárlaganefndar, varðandi samgöngumálin.