149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi að samgönguáætlun og niðurskurður um 500 milljónir héldi ekki vatni. (Gripið fram í.) Hann nefndi að ég hefði sagt í ræðu að það yrði unnið í samráði við Vegagerðina þegar liði á árið, þau verkefni sem sæi ekki fyrir endann á að klára, sem við getum ekki fullyrt um núna. Við höfum kallað eftir svörum um það og fengið þessi svör.

Ég nefndi sem dæmi mannskap, tæki og hv. þingmaður nefndi að við ættum fullt af öflugum verktökum sem væru alveg tilbúnir með vélarnar og mannskapinn. Það má vel vera. Það geta líka verið aðrar ástæður. Ég get nefnt önnur dæmi, ég get nefnt veðrið. Það er ekki útséð með það hvaða verkefni klárist. En heildarmyndin er sú sama. Við aukum verulega útgjöld til samgöngumála og það veit hv. þingmaður sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Hv. þingmaður nefndi að samgönguáætlun væri þar af leiðandi vanfjármögnuð. Hún er að fullu fjármögnuð, það liggur alveg ljóst fyrir.

Varðandi grænu skattana er markmiðið alveg ljóst með þeim. Þeir eru hluti af því átaki sem við erum í í loftslagsmálum, því samkomulagi sem við höfum kvittað undir, þannig að markmiðið með sköttunum er alveg skýrt.