149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Nú þegar við ræðum um fjárlög fyrir árið 2019 eru blikur á lofti í efnahagsmálum. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að verðbólga aukist samfara gengisveikingu sem þegar er hafin og hækkun á verði á olíu. Nýleg stýrivaxtahækkun Seðlabankans undirstrikar áhyggjur af vaxandi verðbólgu. Kjarasamningar mikils meiri hluta vinnumarkaðarins renna út í lok ársins og í byrjun þess næsta. Því ríkir mikil óvissa um launaþróun ársins 2019 og síðar. Launaforsendur umfram forsendur fjárlaga vega þungt í lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs. Búist er við að atvinnuleysi aukist jafnt og þétt út spátímann samfara minni spennu í þjóðarbúskapnum.

Í fjárlagafrumvarpinu er of mikill útgjaldavöxtur. Ekki er búið nægilega vel í haginn fyrir það sem fram undan er. Ef forsendur bresta er augljóst til hvaða úrræða stjórnvöld ætla að grípa. Óraunhæft er af stjórnvöldum að treysta áfram á mikinn hagvöxt. Ekkert bendir til að lækkun á gengi krónunnar undanfarið, um 10–15%, komi til með að ganga til baka. Lækkunin kemur til með að hafa áhrif á gengistryggð lán ríkissjóðs.

Þeir þættir sem hér hafa verið nefndir benda eindregið til þess að afgangur í ríkisfjármálum upp á 1% af landsframleiðslu, eða 29,7 milljarða kr., sé ekki nægjanlegur. Afgangurinn er lítill miðað við þanda tekjustofna og afgang af síðasta hagvaxtarskeiði. Uppsveiflur taka enda og svo virðist sem ríkisstjórnin sé ekki nægilega meðvituð um það. Greinilegt er að það hægir á vexti hagkerfisins. Minni hagvöxtur dregur úr tekjum ríkissjóðs. Verði hagvöxtur minni en spár gera ráð fyrir gæti afkoma ríkissjóðs hæglega breyst í halla. Lítið má út af bregða.

Mikilvægt er að hafa í huga í þessu sambandi að útgjaldaaukning frá frumvarpi til fjárlaga og umframkeyrsla frá fjárlögum til ríkisreiknings er regla fremur en undantekning. Í 22 ár samfellt hafa útgjöld aukist frá frumvarpi til ríkisreiknings. Líklegt er því að útgjöld verði töluvert meiri en lagt er upp með í frumvarpinu. Boginn er spenntur hátt í útgjöldum hins opinbera og svigrúmið því lítið til að breyta tekjuöflun og skerpa á tekjujöfnunarhlutverki beinna skatta. Ríkisútgjöld munu aukast um 57 milljarða kr. á árinu 2019 eða um rúmlega 1 milljarð kr. á viku. Samkvæmt frumvarpinu hafa ríkisútgjöld á hvern Íslending aldrei verið meiri, mæld á föstu verðlagi. Eru opinber umsvif ein þau mestu meðal þróaðra ríkja.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skuldir og vaxtagreiðslur ríkisins muni halda áfram að lækka. Ánægjulegt er að sjá þann árangur sem náðst hefur í þeim málum og hafa margir utanaðkomandi þættir skipt þar verulegu máli. Gert er ráð fyrir að hlutfall brúttóskulda af vergri landsframleiðslu verði 31% í lok næsta árs, en skuldahlutfallið var hæst 86% af vergri landsframleiðslu árið 2011. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru hins vegar enn mjög miklar þó að þær hafi lækkað með lægri skuldum ríkissjóðs. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er reiknað með því að þær verði um 40 milljarðar kr. á næsta ári, sem er lækkun um 26 milljarða kr. frá árinu 2011.

Ísland er háskattaríki, talandi um skattamál, í alþjóðlegum samanburði. Skattahækkanir fyrri ára standa að mestu óhreyfðar. Það ætti að vera forgangsmál að draga til baka þær skattahækkanir sem gripið var til í kjölfar bankahrunsins. Á síðasta ári var fjármagnstekjuskattur hækkaður en um leið lofað að endurskoða skattstofninn. Hvergi er minnst á slíka endurskoðun í fjárlagafrumvarpinu. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var lágt skatthlutfall rökstutt með breiðum skattstofni. Nú er skattstofninn enn breiður en skatthlutfallið hefur tvöfaldast.

Mikilvægt er þegar skuldir ríkisins lækka hratt að ráðrúm sé til að huga að lækkun skatta á fólk og fyrirtæki í landinu en ekki að stækka ríkisbáknið eins og ríkisstjórnin er sérstaklega áhugasöm um, að því er virðist.

Ef við vindum okkur yfir í tryggingagjald, sem reyndar hefur fengið töluverða umfjöllun, er mikilvægt að lækka tryggingagjaldið enn meira en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. 3. minni hluti, þ.e. okkar maður í fjárlaganefnd, hefur lagt til þá breytingartillögu að lækka tryggingagjald um 0,5%. Við breytingartillöguna mun gjaldið lækka úr 6,85% í 6,35%. Lækkunin á að þjóna þeim tilgangi að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu. Lækkunin þyrfti að vera mun meiri en 0,25% eins og lagt er til í frumvarpinu. Það eru vonbrigði að ekki skuli vera gert ráð fyrir meiri lækkun tryggingagjalds. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar.

Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og sú næsthæsta á Norðurlöndunum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagshrunið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu á þeim tíma. Skattbreytingar þessar hafa hins vegar verið að festast í sessi síðan. Mikil tregða hefur verið hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið, en það er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs. Samkvæmt frumvarpinu mun það skila um 14,4% af skatttekjum ríkissjóðs á næsta ári. Hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni fyrirtækja mest. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað á undanförnum árum vegna innlendra kostnaðarhækkana mældra í erlendri mynt. Sú þróun er nú sýnileg í minni verðmætasköpun útflutningsgreina og þeirra fyrirtækja á innlendum markaði sem keppa við erlend fyrirtæki.

Þrátt fyrir boðaða lækkun tryggingagjalds um 0,25% er reiknað með því að tryggingagjaldið skili rúmlega 100,8 milljörðum kr. í ríkissjóð á næsta ári sem er meira en á þessu ári. Skýringin felst í því að laun hafa hækkað. Ríkið fær því meira í kassann þrátt fyrir lækkun tryggingagjalds. Fyrir efnahagshrunið árið 2008 var tryggingagjaldið 5,34% en var hækkað í 8,65% í kjölfar þess. Hækkunin var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum af stórauknum útgjöldum vegna skyndilegs atvinnuleysis. Forsendurnar fyrir hækkuninni og þau rök sem þá voru notuð til að hækka gjaldið eiga ekki lengur við þar sem atvinnuleysi hefur verið mjög lítið í langan tíma. Þann 1. september síðastliðinn var atvinnuleysi einungis 2,3%. ASÍ hefur stutt það að mikilvægt sé að skila hækkun tryggingagjaldsins til baka.

Í frumvarpinu segir að hækkun tryggingagjalds um 0,25% á næsta ári sé neikvæð fyrir ríkissjóð um 4 milljarða kr. Í þinginu álykta einhverjir sem svo að lækkun um 0,5% myndi þýða tekjuhækkun fyrir ríkissjóð upp á 8 milljarða kr. Svo er ekki þar sem lækkunin gerir fyrirtækjum auðveldara með að ráða til sín starfsfólk og gera betur við það sem fyrir er, sem eykur síðan skatttekjur til ríkissjóðs. Ávinningurinn af góðri lækkun gjaldsins er því mikill og ekki síst nú þegar erfiðar kjaraviðræður eru fram undan.

Hæstv. forseti. Um kolefnisgjaldið. Mikilvægt er að hækka ekki kolefnisgjald og fella skal stórfellda hækkun síðustu fjárlaga úr gildi. Skattinum er ekki jafnað niður á landsbyggðina á sanngjarnan hátt. Farið hefur verið of geyst í hækkanir á kolefnisgjaldinu. Lækkun á því mun draga úr verðbólguþrýstingi með lækkun á verði eldsneytis.

Kolefnisgjald er nýr skattur á Íslandi. Tekjur af því eru áætlaðar um 5,9 milljarðar kr. á árinu 2019 og gjaldið hefur nú verið hækkað um 50% á mjög skömmum tíma, eða frá árinu 2017. Skatttekjurnar eru ekki eyrnamerktar aðgerðum í loftslagsmálum og aðeins hluti þeirra rennur þangað. Kolefnisgjaldið nemur nú um 11 kr. á hvern lítra af bensíni og um 12,6 kr. á dísilolíu. Þessar auknu álögur á eldsneyti bitna sérstaklega á landsbyggðinni. Með kolefnisgjaldi er verið að skattleggja landsbyggðarfólk umfram aðra enda er rafbílavæðingin mun auðveldari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni þar sem hleðslustöðvar eru þar mun fleiri. Engu að síður hafa rafbílaeigendur kvartað yfir því að innviðir fyrir rafbíla séu engan veginn fullnægjandi í höfuðborginni, hvað þá á landsbyggðinni. Auk þess nota íbúar á landsbyggðinni í mun ríkari mæli bifreiðar knúnar með jarðefnaeldsneyti, aka meira vegna fjarlægða og kaupa því meira eldsneyti.

Meginmarkmið kolefnisgjaldsins er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til að draga úr losun með því að skipta yfir í hreina orku. Í fyrsta lagi er það alls ekki á færi allra að skipta yfir í rafmagnsbifreiðar og í öðru lagi henta rafmagnsbifreiðar síður á landsbyggðinni enn sem komið er. Ástæðan er fyrst og fremst sú að drægni rafmagnsbifreiða er takmörkuð og fjöldi hleðslustöðva engan veginn nægur. Kolefnisgjaldið leggst með öðrum hætti á íbúa höfuðborgarsvæðisins annars vegar og á íbúa landsbyggðarinnar hins vegar. Það er því í raun og veru munur á gjaldheimtu milli þessara hópa. Þannig bitnar skatturinn hlutfallslega verst á þeim tekjulægri og á íbúum landsbyggðarinnar. Hvatning til orkuskipta er góðra gjalda verð en hún verður að vera í takt við raunveruleikann. Orkuskipti fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, ýmsan iðnað og atvinnutæki eru ekki raunhæfur kostur sem stendur.

Kolefnisskatturinn hefur bein efnahagsleg áhrif á hagkerfið. Án nokkurra mótvægisaðgerða dregur skatturinn þrótt úr hagkerfinu og minnkar samkeppnishæfni fyrirtækja. Hugmyndafræðin er göfug en stjórnvöld verða að ígrunda vel tilgang, forsendur og markmið með skattheimtunni, sérstaklega hverja sé verið að skattleggja og hverja ekki. Markmiðið með gjaldinu er að draga úr losun án þess að grafa undan samkeppnishæfni atvinnulífsins og ætti það sama að gilda hér á landi. Í öðrum löndum hafa því aðrir skattar verið lækkaðir á móti gjaldinu en undanþágur gefnar frá öðrum sköttum. Ísland er t.d. eina ríkið í Evrópu þar sem fiskiskipaflotinn nýtur engra undanþágna eða styrkja hvað varðar eldsneytisskatta. Það minnkar samkeppnishæfni enn frekar.

Engar aðgerðir eru boðaðar í frumvörpum tengdum fjárlagafrumvarpinu sem koma til móts við landsbyggðina vegna gjaldsins. Auk þess er ekki að sjá að ívilna eigi umhverfisvænni starfsemi eða að aðrir skattar verði lækkaðir til mótvægis.

Breytingar á kolefnisgjaldi er skattahækkun klædd í búning græns skatts. Eðlilegt væri að lækka gjöld á aðra umhverfisvæna þætti á móti. Það sem minnkar samkeppnishæfnina enn frekar er að aðilar sem ekki eru virðisaukaskattsskyldir hér á landi eru undanþegnir kolefnisgjaldinu. Þannig þurfa erlend skip sem taka olíu hér á landi ekki að greiða gjaldið en í sumum tilfellum eru þau við veiðar á sömu veiðislóð og þau íslensku. Hvorki erlend skip, fiskiskip, skemmtiferðaskip né flutningaskip greiða kolefnisgjald til eldsneytistöku hér á landi og ekkert kolefnisgjald er greitt af flugeldsneyti hérlendis í ríkissjóð. Kolefnisgjaldið er skattur sem leggst með mismunandi hætti á atvinnugreinar og eðlilegt að gerð sé krafa um að til sé heildstæð stefna í málaflokknum áður en lengra er haldið.

Hæstv. forseti. Þá vík ég að landbúnaðinum. Ríkisstjórnin hefur verið sérstaklega áhugalaus um íslenskan landbúnað, svo eftir er tekið. Hún hefur ekki veitt landbúnaðinum þann stuðning sem honum er nauðsynlegur og hann á skilið. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hver í sínu horni samþykkt ályktanir um mikilvægi landbúnaðarins. Tollasamningurinn við Evrópusambandið er íslenskum landbúnaði mjög óhagstæður. Tollasamningurinn á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og ESB fær hér á landi. Það gerir samningurinn ekki. Nauðsynlegt er að segja samningnum upp vegna brostinna forsendna en úrsögn Bretlands úr ESB gerir að verkum að okkar stærsta og besta markaðssvæði hverfur úr samningnum á næsta ári. Semja verður upp á nýtt við ESB um tollkvóta á landbúnaðarafurðum.

Nauðsynlegt er að ráðast í mótvægisaðgerðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum samningsins á íslenska landbúnaðarframleiðslu. Í fjárlagafrumvarpinu er ekki að finna neinar fjárheimildir til mótvægisaðgerða, engan stuðning til handa bændum til að mæta verulega aukinni samkeppni frá Evrópusambandinu og því ójafnvægi sem ríkir á milli samningsaðila, Íslandi í óhag.

Staða sauðfjárbænda og loðdýrabænda er erfið og brýnt að ríkisvaldið mæti þeim vanda. Því miður hefur ríkisstjórnin enga framtíðarsýn fyrir þær greinar og endurspeglast það í fjárlagafrumvarpinu en engar fjárheimildir eru ætlaðar til að mæta vandanum.

Yfir í heilbrigðismál. Miðflokkurinn hefur margsinnis bent á að bygging nýja þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut sé óskynsamleg framkvæmd af mörgum ástæðum. Flokkurinn hefur lagt áherslu á að byggt verði nýtt og glæsilegt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað, gerð verði fagleg og óháð staðarvalsgreining fyrir nýtt sjúkrahús og hefur flokkurinn flutt þingsályktunartillögu þess efnis. Aukin framlög til ríkisins til heilbrigðiskerfisins virðast helst renna til Landspítalans sem hefur fengið viðbótarfjármagn á hverju ári frá árinu 2013. Þrátt fyrir það er hallinn á rekstri Landspítalans á þessu ári um 1,6 milljarðar kr. og stefnir í svipaðan halla á næsta ári. Uppsafnaður halli verður því rúmlega 3 milljarðar kr. Landspítalinn glímir við viðvarandi mönnunarvanda og þá sérstaklega hvað hjúkrunarfræðinga varðar. Þetta hefur í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka vegna aukavinnu. Mönnunarvandinn í heilbrigðiskerfinu er einn stærsti bráðavandinn sem heilbrigðisþjónustan stendur frammi fyrir og er brýnt að leitað verði allra leiða til að fjölga hjúkrunarfræðingum. Leggja verður aukið fjármagn til þess mikilvæga verkefnis.

Fjölgað hefur á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og hefur embætti landlæknis lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Miðflokkurinn leggur fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstaka fjárveitingu í þennan málaflokk upp á 270 milljónir til að leysa bráðavandann. Hjúkrunarheimilin gegna mikilvægu og vaxandi hlutverki í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Skortur á hjúkrunarheimilum hefur í för með sér að aldraðir einstaklingar ílengjast á sjúkrastofnunum. Forsenda lausnar á þeim vanda er að hjúkrunarheimilum verði sköpuð raunhæf skilyrði. Stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila sem ríkisstjórnin boðar í stjórnarsáttmálanum eru hrein öfugmæli þegar horft er á rekstrargrunn hjúkrunarheimila í landinu sem stjórnvöld bera ábyrgð á. Rekstur margra hjúkrunarheimila er afar erfiður og hafa þau verið rekin með halla um langt skeið. Hallareksturinn má rekja til þess að kröfulýsing sem hjúkrunarheimilunum er ætlað að starfa eftir er í litlu samræmi við þann tekjuramma sem þeim er markaður með daggjöldum.

Frumvarpið felur í sér niðurskurð á núverandi rekstri nánast allra hjúkrunarheimila landsins. Það felur einnig í sér niðurskurð á rekstraraðilum dagdvalarþjónustu í landinu. Rammasamningur um hjúkrunar- og dvalarrými rennur út um áramótin og ganga viðræður um framlengingu samningsins afar hægt, mjög rólega. Það er áhyggjuefni hvernig stjórnvöld nálgast þennan mikilvæga málaflokk. Tryggja þarf meira fjármagn til þjónustunnar og hækka daggjöld þannig að þau standi undir þeirri þjónustu sem veita á.

Veiðigjaldafrumvarp sem sjávarútvegsráðherra mælti fyrir fyrr í haust var tekið úr atvinnuveganefnd til 2. umr. í dag. Segja má að það sé aðeins skárra en það frumvarp sem varð að lögum árið 2012 en rann út í vor. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að frumvarpið er gallað. Það er rétt að minna þingheim á að eftir mikið fjaðrafok hér á Alþingi í vor var það frumvarp framlengt til næstu áramóta vegna þess að það rann út í vor. Þó skal tekið fram að í þessu frumvarpi er sumt til bóta, t.d. það að útreikningurinn er færður nær í tíma og fiskvinnslan er tekin út fyrir sviga. Það er líka til bóta að þessi vinna er komin inn á borð ríkisskattstjóra.

Það sem ekki hefur breyst er að þegar búið er að reikna út hvern útgerðarflokk fyrir sig, eins ólíkir og þeir eru, er öllu saman sópað í eina tölu fyrir hverja fisktegund. Verðmiðinn er þar af leiðandi hinn sami í öllum útgerðarflokkum. Ef við ætlum ekki að sjá útgerðina hér á landi færast á enn færri hendur verður að breyta þessum útreikningum á þann veg að allir útgerðarflokkar geti við unað.

Þegar lögin sem nú eru að renna sitt skeið voru sett árið 2012 var strax ljóst að litlar og meðalstórar útgerðir ættu í stórum vanda. Þá var brugðið á það ráð að gefa afslátt, svokallað frítekjumark. Einnig var komið á afslætti vegna skulda sem stofnað hafði verið til vegna kaupa á aflahlutdeildum.

Þetta var plástur á sárið sem dugði til þess að mörgum litlum og meðalstórum útgerðum blæddi ekki út að sinni. 31. ágúst 2017 rann þessi skuldaafsláttur út og 1. september sama ár hækkuðu veiðigjöldin yfir 100%, á t.d. þorski um 106% og á ýsu um 127%, svo tekin séu dæmi. Þetta var vegna góðrar afkomu greinarinnar á árinu 2015. Þetta er kannski lýsandi dæmi um hvernig þetta hefur verið.

Allir í útgerð sem ég þekki, og þekki ég nokkuð marga, vilja borga veiðigjöld og þeir hinir sömu vilja og hafa kallað eftir að hluti gjaldsins renni til sinna heimabyggða til uppbyggingar innviða. Samdráttur í fjölda útgerða er mikill. Árið 2014 voru 520 útgerðir með aflahlutdeild í aflamarki og krókaaflamarki, saman. Á þessu ári eru 390 útgerðir með hlutdeild. Þetta er fækkun upp á 130 útgerðir á fimm árum. Þess má geta að árið 2005 voru útgerðir með aflamark 975 talsins.

Á næstu árum má búast við enn meiri fækkun útgerða verði þetta frumvarp að lögum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um veiðigjaldafrumvarpið að sinni. Það er komið til 2. umr., eins og ég sagði áðan, og vonandi er hægt að vinna eitthvað í því þannig að komið verði til móts við litlar og meðalstórar útgerðir, hið minnsta.

Það er kannski rétt að fram komi að í breytingartillögu meiri hlutans í atvinnuveganefnd er ein breyting sem í mínum huga var svolítið fyrirséð. Hún er um það að svokallað frítekjumark verður hækkað. Verður 40% afsláttur af fyrstu 6 milljónunum. Það verður sem sagt gefinn afsláttur. En hann getur aldrei orðið hærri en 2,5 milljónir. Hækkunin miðað við frumvarpið eins og það var lagt fram fyrst er um 900.000 kr. Það er ekki gríðarleg breyting. Þetta kemur til móts við minnstu útgerðirnar en þær útgerðir sem eru þar fyrir ofan, sem við köllum meðalstórar — ég veit ekki alveg hvar mörkin liggja, við getum kannski talað um að útgerðir sem eru með 3.000–5.000 tonna kvóta sitji enn þá í súpunni, ef við getum sagt sem svo. Ég og margir fleiri hafa miklar áhyggjur af því hver framtíð þess flokks útgerða verður. Mikill samdráttur hefur orðið í þeim útgerðum. Þetta eru yfirleitt mjög rótgróin fjölskyldufyrirtæki og hafa verið byggðafesta byggðarlaga sinna, ásamt mörgu öðru. Menn sjá í raun og veru ekki mikla framtíð fyrir sér miðað við það að veiðigjaldafrumvarpið er í raun og veru ekki mikil breyting í grunninn heldur bara svona smá fixering. Það engin grundvallarbreyting frá fyrra frumvarpi.

Ég ætla að láta þetta gott heita að sinni.