149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég lít þannig á að býsna mikilvægt sé fyrir þingmenn að fara eftir þeim staðreyndum sem fyrir þeim liggja á hverjum tíma. Þótt ég sé þingmanninum algerlega sammála um að afar mikilvægt sé fyrir þingið að fá upplýsingar og skilaboð utan úr samfélaginu held ég að það sé samt sem áður skylda þingsins og þingmanna að fara rétt með. Það er alvarlegt að segja það úr ræðustól Alþingis að verið sé að lækka framlög til hjúkrunarheimila á milli ára þegar reyndin er einmitt önnur. Það eru mjög alvarleg skilaboð út í samfélagið og við eigum ekki að temja okkur slíkt, það er mín skoðun.

Það liggur fyrir, og ég hef sagt það áður í ræðustól undir þessari umræðu, að þegar er hafin endurskoðun á rekstrargrunni hjúkrunarheimilanna. Um það erum við þingmaðurinn sammála, það þarf að gera. Ríkið þarf að standa vel að samningum um þá heilbrigðisþjónustu sem það kaupir, við þau fyrirtæki sem það semur við, þar með talin þau fyrirtæki sem eru í þeim samtökum sem hv. þingmaður nefndi. Það leysir okkur hv. þingmenn ekki undan þeirri skyldu að gleypa ekki hráar einhverjar upplýsingar eða væntingar um að hægt sé að fella keilur í fjárlagaumræðunni á forsendum sem eru klárlega ekki til, ef menn miða við þær breytingartillögur og það frumvarp sem liggur fyrir.