149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í dag, 20. nóvember, er alþjóðadagur barna. Því tel ég vel við hæfi að hefja þessa ræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019 á því að leggja áherslu á réttindi barna, á tjáningarfrelsi barna og rétt þeirra til þátttöku og það sem stjórnvöld geta og eiga að gera til að styrkja stöðu barna.

Ungmennaráð UNICEF dreifir í dag hagnýtum ráðum til ráðamanna. Þessi ráð voru búin til af ungmennaráðinu þar sem reynsla þeirra af samskiptum við ráðamenn er stundum neikvæð og þau vildu því gefa góð ráð um hvernig skuli eiga samráð við börn og ungmenni. Ég vil lesa þau hér upp vegna þess að ég held að við hefðum gott af því að hlusta á þessi ráð og vera í meira samtali við ungmenni um þeirra mál.

Fyrsta ráðið er: Boða fundi á hentugum tíma fyrir ungmenni, svo sem ekki á skólatíma. Ef fundur er á skólatíma þarf að senda staðfestingu á skóla viðkomandi ungmenna sem boðaðir eru á fundinn. Ráðamenn séu opnir fyrir hugmyndum og skoðunum ungmenna. Í fundadagskrá sé gert ráð fyrir umræðum um málefni fundarins. Ráðamenn skulu ávallt vera kurteisir og hlusta á ungmenni fundarins og forðast það að grípa fram í. Mikilvægt er að ráðamenn gefi ungmennum skýr svör og forðist endurtekningar, og að þeir nýti sér upplýsingar sem ungmenni gefa hverju sinni. Mikilvægt er að veita ungmennum upplýsingar um hvað er gert við niðurstöður fundarins, og ekki segjast ætla að bjóða tilteknum hópi aftur og standa svo ekki við það. Tala við ungmenni sem jafningja, ekki „við fullorðnu“ og „þið ungmennin“.

Takk fyrir þetta, ungmennamannaráð UNICEF.

Frú forseti. Við í Samfylkingunni höfum lagt fram þingsályktunartillögu, sem ég mælti fyrir á dögunum og er nú til vinnslu velferðarnefndar, um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórn að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til fjögurra ára fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Aðgerðirnar byggjast m.a. á rétti barna eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lagt er til að þriðja valfrjálsa bókun við barnasáttmálann verði lögfest hér á landi á árinu 2019 að undangengnu átaki þar sem stjórnvöld og úrskurðaraðilar fá fræðslu um kröfur barnasáttmálans er varðar þjónustu við börn. Viðeigandi ráðstafanir verði gerðar í kjölfarið, m.a. nauðsynlegar lagabreytingar og boðið verði barnvænt kynningarefni og kynning á framkvæmd bókunarinnar hér á landi gerð aðgengileg. Samræming og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna á vettvangi Stjórnarráðsins og sveitarfélaga er nauðsynleg og að allir séu samstiga um aðgerðir í þágu barna.

Það þarf að virða tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi og við tillögugerð okkar í Samfylkingunni voru þau tilmæli höfð til hliðsjónar, en einnig tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildarríkja um réttindi barna og barnvæna félagsþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, ásamt Evrópuráðssamningnum um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun.

Umboðsmaður barna gaf út skýrslu á árinu 2017 um helstu áhyggjuefni og fleiri skýrslur umboðsmanns barna voru einnig hafðar til hliðsjónar við samningu tillagnanna.

Við þurfum að bregðast við þessum alþjóðasamþykktum og áhyggjuefnum til að treysta stöðu barna og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Það kostar peninga sem gera þarf ráð fyrir í fjárlögum næstu fjögur árin ef áætlunin á að ganga upp. Sumt getur ríkisvaldið ekki eitt ráðið við. Þess vegna er mikilvægt að koma á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga til að móta tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum þarf að líta til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, t.d. vegna veikinda þeirra eða fötlunar.

Það er ekki nóg að tala um að börnin séu framtíð landsins og við viljum svo gjarnan að öll börn búi við öryggi og efnisleg gæði. Við verðum að sjá til þess með skipulagi og fjármagni, nægilegum mannafla og nauðsynlegum gögnum að markmiðum verði náð. Ein af tillögum okkar er að afkoma barnafjölskyldna verði bætt, m.a. með hækkun barnabóta og viðmiðum sem tryggja að fleiri fjölskyldur fái barnabætur.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd benti á þá þjóðarskömm hversu mörg börn búa við óviðunandi aðstæður á Íslandi, en talið er að allt að 6.000 börn líði efnislegan skort í okkar ríka samfélagi. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og auka húsnæðisstuðning. Þetta er viðurkennt í margvíslegum greiningum hérlendis sem erlendis og hefur verið beitt með góðum árangri í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þrátt fyrir það hefur barnabótakerfið grotnað niður undanfarin ár þótt augljóst sé að barnabætur eru mjög góð leið til að aðstoða ungar fjölskyldur.

Ríkisstjórnin stígur nú það jákvæða skref að hækka viðmið skerðinga upp að lágmarkslaunum. Hins vegar eru einungis nokkrir mánuðir síðan ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögu frá Samfylkingunni um akkúrat þessa breytingu, en á móti vill stjórnarmeirihlutinn að skerðingar aukist hjá millitekjuhópum. Kerfið í heild er fjársvelt, enda hafa þúsundir barnafjölskyldna dottið út úr því undanfarin fimm ár og bæturnar rýrnað að raunvirði. Eftir hækkunina nú eru útgjöld til barnabóta svipuð að raunvirði og á árinu 2013, fyrir fimm árum síðan.

Nýtt þrep skerðinga verður til þess að skerðingar aukast fari tekjur foreldris umfram 458.000 kr. á mánuði. Í því samhengi má nefna að neðri fjórðungsmörk heildarlauna voru 496.000 kr. á mánuði á árinu 2017 eins og ASÍ bendir á. Barnabætur hjóna verða að fullu skertar við mánaðartekjur sem nema um 625.000 kr. á hvort foreldri. Miðgildi heildarlauna nam á árinu 2017 um 618.000 kr., sem þýðir að hjón sem hafa tekjur í kringum miðgildi fá engar barnabætur.

Við í Samfylkingunni viljum breyta þessu og stefna að því að staða barnafólks verði jöfnuð á við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Til að taka skref í þá átt leggjum við fram breytingartillögu um að barnabætur verði auknar um 2 milljarða kr. á árinu 2019, þannig að fleiri barnafjölskyldur fái greiðslur með börnum sínum. Í tímasettri og fjármagnaðri aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára þarf að styrkja barnabótakerfið enn frekar, en einnig að mæta útgjöldum framhaldsskólanema vegna kaupa á námsgögnum og hollum hádegismat. Við gerum ekki breytingartillögur um það núna, en það er hins vegar markmið sem við eigum að stefna að.

Frumvarp um aukið hlutverk umboðsmanns barna er jákvætt skref sem ríkisstjórnin leggur til enda afar mikilvægt að stjórnvöld safni upplýsingum um hag barna og þjónustu við þau og noti þær til að tryggja réttindi og velferð allra barna. Upplýsingarnar verði greinanlegar eftir aldri, kyni, búsetu og félagslegum bakgrunni. Það skiptir miklu máli. Umboðsmaður barna fær þetta hlutverk ef frumvarpið verður samþykkt. Það þarf að meta nauðsynleg framlög til þess að gera umboðsmanni barna kleift að sinna þessu mikilvæga hlutverki með sóma. Ég efast um að það sé gert ráð fyrir nægilegum fjármunum og við þingmenn, sem eigum að sinna mikilvægu eftirlitshlutverki, þurfum að ganga eftir því að það verði í lagi svo að umboðsmaður barna geti sinnt þessu mikilvæga hlutverki.

Fleira þarf að gera til að styrkja stöðu barna og barnafjölskyldna frá því sem nú er, svo sem að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði, veita foreldrum uppeldisráðgjöf, fræða alla þá sem vinna með börnum um barnasáttmálann og réttindi barna og það þarf að koma á fót nýju Barnahúsi þar sem unnið er með börnum foreldra sem eiga í forsjárdeilum, búa við heimilisofbeldi eða leita eftir alþjóðlegri vernd, þar sem jafnframt er boðið upp á barnamiðaða fjölskylduráðgjöf. Ekkert af þessu verður gert nema stjórnvöld viðurkenni að það þarf að bæta hag barna og raða börnum framar við gerð fjárlagafrumvarpa.

Þörfin er á fleiri sviðum. Forvarnir og heilsuefling, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir, þroskafrávik og langveikra barna, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og vímuefnavanda, aðgerðir til að vernda börn og ungmenni gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum og í þágu barna innflytjenda. Gera þarf heildstæða áætlun, tímasetta og fjármagnaða. Það er ekki gert í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019. Það er reyndar ekki gert ráð fyrir slíkri áætlun í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar frá því í vor. Sú áætlun verður endurskoðuð á næsta ári og ég bind vonir við að þá verði gerð á þessu breyting og að hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ríkisstjórn hlusti á eftirlitsnefndina með barnasáttmálanum og þeim tilmælum og ábendingum sem gerðar hafa verið við framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi.

Forseti. Það er óumdeilt að á Íslandi er húsnæðisvandi og hann bitnar ekki síst á ungum barnafjölskyldum. Á ótryggum leigumarkaði hrekjast fjölskyldur á milli hverfa og jafnvel sveitarfélaga og börnin flakka á milli skóla með tilheyrandi erfiðleikum við að fóta sig á nýjum stað og í nýjum skóla. Þessu verður að linna. Til þess þarf átak ríkis og sveitarfélaga með samkomulagi við stéttarfélög. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd bendir á í nefndaráliti sínu að þrátt fyrir ummæli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins um að húsnæðismálin séu lykillinn að samkomulagi í komandi kjarasamningum, helst heildarfjárhæð vegna húsnæðisstuðnings nánast óbreytt milli ára. Þetta er alvarlegt mál, forseti.

Árið 2019 verða vaxtabætur einungis 3,4 milljarðar kr., sem er minna en til stóð að hafa þær árið 2018 þegar þær áttu að vera 4 milljarðar kr. Lækkunin nemur sem sagt 15% milli ára.

Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um ríflega 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkað um tæplega 19.000 milli áranna 2013 og 2017. Þá hafa bótafjárhæðir verið óbreyttar frá árinu 2010, en gert er ráð fyrir 5% hækkun þeirra samkvæmt frumvarpinu. Til samanburðar má nefna að verðlag hefur frá árinu 2010 hækkað um 25% og launavísitalan um ríflega 76%. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður við sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu fær nú lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið.

Á leigumarkaði búa um 50.000 manns og af þeim eru tekjulágir og ungt fólk í meiri hluta. Leigjendur eru flestir í verri aðstöðu til að kaupa fasteign og sitja fastir í fátæktargildru á óstöðugum leigumarkaði. Og ekki stendur til að hækka bótafjárhæðir til samræmis við hækkandi verðlag og leigu og þar með er dregið úr stuðningi við leigjendur sem er sá hópur sem stendur hvað verst að vígi á húsnæðismarkaði. BSRB leggur t.d. á það áherslu að húsnæðisstuðningur verður jafnaður óháð búsetuformi þannig að leigjendur fái sambærilegan stuðning í formi húsnæðisbóta og eigendur fá í formi vaxtabóta, en á það er ekki hlustað.

Samfylkingin hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir í húsnæðismálum þar sem tekið er á framboðsvanda, en einnig á vanda ungs fólks til þess að eignast húsnæði og hvernig má auka húsnæðisöryggi leigjenda. Tillagan er núna til umræðu í velferðarnefnd. Í ljósi alvarleika málsins og í ljósi krafna verkalýðsfélaga bind ég vonir við að þar fái þessi tillaga jákvæða umfjöllun og komi til afgreiðslu í þingsal. Ef ekki, og ef hv. stjórnarþingmenn treysta sér ekki til þess að taka upp góðar tillögur frá stjórnarandstöðunni, þá a.m.k. geri þeir þær tillögur að sínum sem þeir telja að virki vel.

Samfylkingin leggur einnig fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að vaxtabætur verði auknar um 2 milljarða kr. og að stofnframlög til almennra íbúða verði aukin um 2 milljarða kr. á árinu 2019. Það eru breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

Forseti. Það er mjög alvarleg staða á heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar. Við þeim vanda er ekki brugðist í fjárlagafrumvarpinu eða með breytingartillögum meiri hlutans. Sem dæmi má nefna að 130 millj. kr. vantaði til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Svipaða sögu má segja af Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Norðurlands og Austurlands. Og í sameiginlegri yfirlýsingu allra heilbrigðisstofnana segir að annað árið í röð fari aukningar til heilbrigðisþjónustu fram hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Skoðum stöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands aðeins betur. Ég nefni þessar stofnanir vegna þess að þær eru í mínu kjördæmi og ég þekki stöðu þeirra vel.

Miklar breytingar hafa orðið á fjölda íbúa á Suðurnesjum á undanförnum árum. Íbúar á svæðinu voru 26.680 1. júlí sl. Í lok árs 2018 er áætlað að fjöldi íbúa verði um 27.600 og hlutfall íbúa af erlendum uppruna milli 20 og 25%. Ekkert lát virðist vera á þessari þróun. Fjölgun íbúa sl. þrjú ár frá 1. janúar 2016 til loka árs 2018 verður um 22%, eða um 7% á hverju ári. Fjölgun íbúa frá 1. janúar 2013 til loka ársins 2018 er áætluð liðlega 30% á fimm árum. Þessi fjölgun íbúa er einstök fyrir heilbrigðisumdæmin á landinu og langt yfir öðrum svæðum. Við þessari sérstöku stöðu er ekki brugðist. Og þetta um 28.000 manna samfélag býr við heilbrigðisþjónustu þar sem starfsfólk, sem sannarlega er allt af vilja gert, er yfir sig þreytt vegna álags, húsnæðismálin í ólestri og fjármunir til tækjakaupa engan veginn nægilegir. Þetta er svo alvarlegt að þingmenn verða að taka málin í sínar hendur því að ríkisstjórnin virðist ekki fær um það eða beinir kröftum sínum annað.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja telur að fjárveitingar þurfi að aukast um 280 millj. kr. til að mæta þörf. Ef einungis á að tryggja óbreytta starfsemi er fjárþörfin 219 millj. kr. Auk þess megi gera ráð fyrir að stofnunin fari 58 millj. kr. fram úr fjárheimildum ársins 2018.

Lítum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Í umsögn Sambands sunnlenskra sveitarfélaga segir að skortur á fé til reksturs stofnunarinnar sé mikill og viðvarandi. Frá sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi hafi vöxtur í starfseminni verið fordæmalaus og vaxið um tugi prósenta á hverju ári. Skuldavandi fyrri stofnana hafi verið leystur en blikur séu á lofti í rekstrinum. Stjórnendur stofnunarinnar bentu á í árslok 2017 að ekki væri hægt að sinna lögbundnum verkefnum og árlegri raunaukningu án þess að til kæmu auknar fjárveitingar.

Heildarfjárhæð til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á árinu 2018 er að sögn Sambands sunnlenskra sveitarfélaga aðeins 1,1% hærri en endanlegar fjárveitingar árið 2017 sem er langt undir verðbótum og launahækkunum milli ára. Þannig ef við horfum bara á þessa stöðu er þetta niðurskurður. Ég veit að hv. stjórnarþingmenn hafa brugðist harkalega við þegar við höfum bent á niðurskurð á milli ára, en þarna er hann ískaldur og raunverulegur. Það þarf að bregðast við þessu og við höfum tækifæri til þess.

Áætlaður rekstrarhalli á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á árinu 2018 er um 200 millj. kr. Framkvæmdastjórn HSU telur sig ekki geta skilað rekstraráætlun ársins 2019 í jafnvægi nema til komi aukin framlög fyrir grunnþjónustu til að halda í horfinu við mönnun lögbundinna verkefna. Hjúkrunarrými eru undirfjármögnuð í heilbrigðiskerfinu í heild sinni. Hjá HSU er fjármögnun hjúkrunarrýma 20% undir því sem er raunþörf sem og annars staðar. Enn vantar að bæta inn í fjárveitingar á heilsugæslusviði HSU fyrir ófjármögnuð stöðugildi lækna og hjúkrunarfræðinga sem hefur þurft að bæta við vegna íbúafjölgunar og aukningar á þjónustu á svæðinu. Svo hafa sjúkraflutningar aukist mjög mikið líka og aukningin hefur ekki verið fjármögnuð að fullu.

Í úttekt embættis landlæknis frá 15. desember sl. á starfsemi heilsugæslusviðs HSU er þeim ábendingum beint til velferðarráðuneytisins að taka ákvörðun um að hafa bráðamóttöku á Selfossi og fjölga stöðugildum. Á 2018 má áætla að þangað sæki yfir 14.000 einstaklingar eftir slys eða vegna alvarlegra veikinda. Áætlað er í úttektinni að ráðuneytið taki tillit til þess í fjárveitingum. Fjárveitingar hafa ekki skilað sér til bráðamóttöku á Selfossi og er rekstur þeirrar einingar fjármagnaður frá öðrum rekstri. Ríflega 280 millj. kr. vantar á árinu 2019 vegna mönnunar lögbundinnar grunnþjónustu í heilsugæslu og sjúkrarýmum á Suðurlandi. Þessi staða er óásættanleg, forseti.

Forseti. Við í Samfylkingunni leggjum fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið til að mæta þessum vanda og leggjum til að 800 millj. kr. fari til viðbótar í rekstur heilbrigðisstofnana úti á landi til að reyna að bregðast við þessum mikla vanda.

Herra forseti. Samfylkingin leggur fram breytingartillögur í 17 liðum og leitast þar við að bæta helstu galla fjárlagafrumvarpsins. Þó má augljóst vera að ef við mættum semja fjárlagafrumvarp frá grunni liti það allt öðruvísi út en þetta frumvarp. Menn spyrja um fjármögnun. Allar breytingartillögur okkar eru fjármagnaðar. Við leggjum reyndar ríka áherslu á að ríkissjóður skili góðum afgangi þannig að ef og þegar það kreppir enn meira að þá göngum við á afganginn en látum ekki öryrkja taka skellinn eða þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Ríkisstjórnin vill fara með veiðigjöldin úr rúmum 11 milljörðum kr. í 7. Við í Samfylkingunni teljum enga þörf á þessari kjarabót til útgerðarinnar sem stendur vel, en nær einhverra hluta vegna eyrum ríkisstjórnarinnar betur en verkalýðsfélögin og heilbrigðisstofnanirnar úti á landi, svo dæmi séu tekin. Það er brugðist hratt og vel við kvörtunum þeirra undan veiðigjaldinu og það er lækkað um milljarða. Fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, hefur bent á að veiðigjaldið verði á næsta ári samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar svipað og ríkið innheimtir af reykingamönnum þessa lands í gegnum tóbaksgjaldið. Þetta er nú arðurinn af auðlindinni, af beinum tekjum af auðlindinni. Þannig er komið fyrir þessu og enn á að lækka.

Við viljum hækka fjármagnstekjuskattinn sem þeir allra ríkustu greiða og setja á tekjutengdan auðlegðarskatt. Þegar auðlegðarskatturinn var síðast innheimtur runnu 10 milljarðar í ríkissjóð vegna hans. Við í Samfylkingunni gerum ráð fyrir öðruvísi auðlegðarskatti og áætlum 3–4 milljarða með okkar útfærslu. Með því að afnema samnýtingu skattþrepa sem í raun vinnur gegn jafnrétti kynjanna og er að mestu nýtt af þeim tekjuhæstu fengi ríkissjóður um 3 milljarða. Á það hefur verið bent í mörgum verkefnum, m.a. verkefnum sem hafa verið unnin í fjármálaráðuneytinu í kynjaðri fjárlagagerð, að þetta er óæskileg staða og vinnur gegn, eins og ég sagði áðan, jafnrétti og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Það er um að gera að verða við þessari ábendingu og taka þetta af.

Við gerum ráð fyrir auknum tekjum af ferðamönnum en tækifærin til tekjuöflunar þar hafa gengið okkur úr greipum ár eftir ár vegna ákvörðunarfælni stjórnvalda, á meðan álag á innviðina er gríðarlegt af völdum ferðamanna. Og nú segir einhver, eins og t.d. hæstv. fjármálaráðherra hér í ræðustól um daginn sem spurði hneykslaður hvort Samfylkingin væri virkilega að leggja það til að leggja einhver gjöld á erlenda ferðamenn þegar fjölgun þeirra væri núna ekki eins mikil og undanfarið. Nokkrum dögum áður hafði hæstv. forsætisráðherra sagt hér í sama ræðustól að það ætti að taka gjöld af erlendum ferðamönnum og komugjöldin væru þar til umræðu hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú veit ég ekkert hvort það verður hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra sem mun hafa betur í þessu máli, en a.m.k. er ekki gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019 að það verði einhverjar sérstakar beinar tekjur af erlendum ferðamönnum.

Við viljum leggja sérstakan sykurskatt á aftur og að sá milljarður sem fengist við það myndi renna til forvarna og meðferðarúrræða fyrir ungmenni í vanda. Sykurskattur hefur víða verið lagður á og oftar en ekki beintengdur einhverjum verkefnum. Í Bretlandi t.d. er sykurskattur innheimtur og upphæðin rennur til grunnskólanna þannig að það megi gefa börnum hollari mat. Það er ágætishugmynd, en við horfum fram á mikinn vanda og úrræðaleysi þegar ungmenni sem glíma við vímuefnavanda þurfa á hjálp að halda. Þess vegna teljum við upplagt að þetta renni beint í slík úrræði.

Við leggjum ríka áherslu á skatteftirlit, ekki síst vegna skattaskjóla og félagslegra undirboða á vinnumarkaði. Það er áætlað að um 100 milljörðum sé skotið undan skatti árlega. Þá er ekki meðtalið það sem gert er ráð fyrir að sé falið í skattaskjólum. Við gerum ráð fyrir að með markvissara eftirliti hækki tekjur ríkissjóðs um 7 milljarða á næsta ári og það er varlega áætlað.

Til að bregðast við loftslagsvanda verðum við að draga úr losun koltvísýrings enn frekar til að eiga einhverja möguleika á því að Ísland nái markmiðum sínum og því þurfum við að hækka kolefnisgjaldið meira en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir. Þessar tillögur sem ég hef talið upp hérna duga fyrir öllum okkar breytingartillögum, en auk þess gætum við afturkallað þá hugmynd að bankaskatturinn verði afnuminn. Ríkisstjórnin vill lækka skatta á banka um 7 milljarða og ekki er óvarlegt miðað við arðgreiðslur úr bönkum síðastliðin ár að þær verði 5 milljörðum kr. hærri en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. En þetta eru tekjur sem má þá bara nota til að hafa afganginn meiri og þarf ekki að eyða strax.

Herra forseti. Þorkell Sigurlaugsson skrifaði grein í Kjarnann á dögunum um niðurstöður starfshóps sem hann stýrði sem greindi umfang og áhrif skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap og hvernig minnka megi svarta hagkerfið. Niðurstöðunum var skilað um mitt ár 2017. Þar kemur fram að undanfarna áratugi hafi umfang skattsvika verið metið á bilinu 3–7% af vergri landsframleiðslu og heildartap hins opinbera verið í námunda við 10% allt tímabilið. Miðað við nýlegri kannanir gæti þessi tala verið liðlega 4% af landsframleiðslu, eða rúmlega 100 milljarðar kr. eins og ég sagði áðan miðað við árið 2016. Við þá upphæð bætist tjón samfélagsins vegna undanskotinna tekna í tengslum við aflandsfélög sem metin eru á 16 milljarða kr. vegna fjármagnstekjuskatts fyrir árin 2006–2009 og 42 milljarða vegna vanhalda á auðlegðarskatti á sex ára tímabili frá 2009–2014. Samtals gera þetta 58 milljarða kr. yfir níu ára tímabil vegna aflandseigna. Þetta eru háar upphæðir, forseti, og við þurfum að herða eftirlitið og styrkja okkar eftirlitsstofnanir til þess að sinna sínu hlutverki.

Þorkell skiptir í grein sinni skattsvikum gróflega upp í eftirfarandi flokka: Undanskot frá greiðslu virðisaukaskatts með því að vantelja skattskylda veltu eða oftelja innskatt, þar á meðal með því að færa sér í nyt tilhæfulausa reikninga eða með vanhöldum á greiðslu framtalins skatts. Niðurstaða starfshóps ríkisskattstjóra er að umfang undanskota í virðisaukaskatti hafi numið um 12,9% á árinu 2010–2013. Síðan eru það undanskot frá greiðslu tekjuskatts á launum starfsmanna og launatengdum gjöldum. Svo er það vantalinn tekjuskattur af atvinnurekstri vegna oftalins kostnaðar vegna vantalinna tekna og vantalin eða vangoldin önnur opinber gjöld, svo sem skattur af fjármagnstekjum eða skattundanskot í tengslum við tekjur frá aflandssvæðum.

Skattsvik af þessum toga eru talin umfangsmest innan byggingar- og verktakaiðnaðar, ferðaþjónustu, sem og innan annarrar persónulegrar þjónustu. Aukin umsvif ferðaþjónustunnar hafa leitt til vaxandi skattundanskota, m.a. vegna umfangs heimagistingar, þátttöku erlendra starfsmanna og einyrkjastarfsemi í greininni. Farsælast er, segir Þorkell, að auka upplýsingamiðlun, eftirlit og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn skattsvikum og koma þannig í veg fyrir skattundanskot, nýta m.a. upplýsingatækni, minnkandi notkun reiðufjár og hertari löggjöf og refsiramma til að takast á við vandann.

Það er afar mikilvægt, herra forseti, að við styrkjum eftirlitsstofnanir okkar. Nú er til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp um peningaþvætti og aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi. Þar er aukið hlutverk ríkisskattstjóra með alls konar gagnavinnslu. Mér er minnisstæð málsgrein í skýrslunni um eignir Íslendinga á aflandssvæðum þar sem sérstaklega er tekið fram að við höfum verið gagnrýnd harkalega fyrir aðgerðir okkar gegn peningaþvætti. Þar segja skýrsluhöfundar að stjórnvöld virðist ekki gera sér grein fyrir því að þegar unnið er úr flóknum gögnum þurfi að gera ráð fyrir mannafla, þetta séu mannaflsfrek verkefni, en þau muni skila vel í aðra hönd ef þau eru vel unnin.

Herra forseti. Nú líður tíminn hratt og mig langar í lokin að líta til baka og skoða síðustu fimm ár.

Frá árinu 2013 þegar við náðum að loka fjárlagagatinu var tækifæri til að byggja upp innviðina sem við höfðum þurft að vanrækja á okkar erfiðustu tímum á kjörtímabilinu 2009–2013, en við sáum með áætlun sem við gerðum þá að við gátum veitt fjármunum til landshlutanna, í uppbyggingu á vegakerfinu, á heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu o.s.frv. Ríkisstjórnin sem tók við var ekki sömu skoðunar. Hún lækkaði skatta sem varð til þess að innviðirnir voru áfram sveltir. Þetta eru svo sannarlega ár hinna glötuðu tækifæra þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru hér við völd, lækkuðu skatta og þá mest til þeirra sem höfðu mest, skutluðu út um 80 milljörðum í svokallaða leiðréttingu sem að langmestu leyti féll til þeirra sem höfðu nóg fyrir, enda sögðu þeir: Við þurfum ekki að hjálpa þeim sem hafa minnst milli handa, það gerði vinstri stjórnin. Nú er komið að hinum.

Þetta voru mjög háar upphæðir sem við hefðum sannarlega getað nýtt í annað, en þetta eru glötuð tækifæri og það þýðir ekki að gráta það. Fyrir vikið stöndum við frammi fyrir öllum þessum vandamálum sem við gerum núna. Það er eðlileg krafa frá öllum að styrkja innviðina og við vildum það öll, allir stjórnmálamenn sem tóku þátt í kosningabaráttu töluðu um að byggja upp innviðina. En í þeirri stöðu sem við erum núna er ekki hægt að gera það með myndarlegum hætti nema afla tekna. Þannig er það. Og það er fullt af krónum hérna úti. Við þurfum bara að skipta þeim með öðrum hætti. Það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum að skipta þeim með öðrum hætti. Á meðan upplýsingar streyma hér inn í þingsal sem sýna að þeir ríkustu eiga langmesta hlutann, ríkasta 5% á jafn mikið og hin 95%, þekkjandi allar þær greiningar sem segja okkur að þegar ójöfnuður vex þá vex ósætti í samfélaginu, vantraustið eykst og hagsæld minnkar, af hverju látum við þetta ekki okkur að kenningu verða? Þetta er bara ekki hægt. Það hefur margsýnt sig. Það er ekki hægt að ætla sér að vera með velferð eins og Vinstri grænir og Samfylkingin hefur nú einróma verið sammála um að þurfi að auka hér á landi, og vera svo með hægri efnahagsstjórn. Það gengur ekki saman, vegna þess að velferðin kostar peninga.

Í upphafi ræðu minnar talaði ég um að við þyrftum að raða börnum framar. Það kostar peninga. Við grípum þá ekki upp úr grjótinu, en við getum gert það með réttlátara skattkerfi.