149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur afar góða ræðu. Hv. þingmaður fór mjög skipulega yfir málefni Samfylkingar og það sem lýtur að fjárlagafrumvarpinu, enda hv. þingmaður með mikla reynslu í bæði fjárlaganefnd og sem fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra. Hún byrjaði á mjög viðeigandi hátt í tilefni af alþjóðlegum degi barna. Mér fannst það vel við hæfi. Við erum öll með skilaboð á borðunum okkar, sem eru ansi skemmtileg, frá börnum í Flataskóla. Skilaboðin mín eru að öll börn eigi rétt á því að ganga í skóla og börn eigi rétt á nafni og ríkisfangi. Mér finnst afar skemmtilegt að koma í vinnuna og fá þetta á borðið og í tilefni af því hvernig hv. þingmaður hóf ræðuna ákvað ég að taka það með mér.

Ég get tekið undir allt það sem hv. þingmaður sagði varðandi börnin þó að ég kannski kvitti ekki endilega undir þær útgjaldatillögur sem hv. þingmaður fór yfir og Samfylkingin hefur sannarlega sett fram með skipulögðum hætti. Ég tek undir að við eigum alltaf að hyggja að stuðningi við börn og barnafjölskyldur. Ég vil þó árétta að í því frumvarpi sem við ræðum er verið að hækka barnabætur. Það er sannarlega verið að reyna koma barnabótum til þeirra fjölskyldna sem mest þurfa á að halda, tekjulægri fjölskyldum, og það er verið að hækka fæðingarorlofið upp í 600.000 kr. á mánuði.

Ég er (Forseti hringir.) í sjálfu sér ekki með spurningu til hv. þingmanns í fyrra andsvari.