149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta samtal. Ég ætlaði einmitt í seinna andsvari að koma inn á það sem hv. þingmaður fór yfir í ræðunni, þ.e. húsnæðismálin og hvernig við getum beitt okkur í húsnæðisstuðningi og svo þann ójöfnuð sem er alþjóðlegt vandamál og birtist okkur fyrst og fremst í eignaójöfnuði. Það er hárrétt sem þingmaður nefndi að hann er snúnari viðureignar. Ég skil því álit sérfræðinganna, að við eigum að einbeita okkur að tekjunum í þessu, vegna þess að það er snúið að takast á við eignaójöfnuðinn, Þeir einstaklingar sem eru orðnir það efnaðir að falla undir þetta 1% eru ekki endilega með launþegatekjur eins og við flest.

Við vitum að þetta er ógn, alheimsógn við hagsæld og við þurfum að takast á við hana. Ég hef ekki einföldu svörin. Ég held að þegar við tölum um bætur eigum við að skoða þær út frá á tekjunum. En t.d. þegar við höfum verið með húsnæðisstuðninginn höfum við skoðað nettóeign, við erum að miða við vaxtabætur o.s.frv. Ég held reyndar að vaxtabætur séu ekki endilega heppilegasta stuðningskerfið. Ég held að við eigum að einblína á önnur stuðningskerfi.

En ég ætlaði að skilja eftir spurningar fyrir hv. þingmann. Fyrri spurningin snýr að því hvernig við tökumst á við þennan eignaójöfnuð og sú seinni er um það af hverju sykurskatturinn, sem hv. þingmaður kom inn á, brást alveg hrapallega síðast þegar við reyndum.