149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ágæta ræðu og yfirgripsmikla. Hún talaði mikið um velferðarmál og mál er snúa að heilbrigðisþjónustu og málefnum barna. Það er vel. Þetta eru mál sem við ættum að gera meira af því að ræða í þingsal. Ég held að við hv. þingmaður séum í grundvallaratriðum sammála um að þetta eru þau málasvið sem skiptir gríðarlega miklu máli að samfélag tali um og komi sér saman um með hvaða hætti eru skoðuð.

Þingmaðurinn ræddi sérstaklega um framlög til heilbrigðisstofnana, m.a. á Suðurlandi og Suðurnesjum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á þeim svæðum hefur orðið umtalsverð íbúafjölgun, en það er líka þannig að þrátt fyrir allt þá hafa framlög til þessara heilbrigðisstofnana hækkað, þótt þau hafi hækkað mismikið, til Suðurnesja um 14% á tveimur árum og til Suðurlands um 7–8% á tveimur árum.

Það má endalaust segja sem svo að þetta hefði átt að gerast hraðar og hækka hraðar og meira o.s.frv., en engu að síður erum við byrjuð á þeirri vegferð að styrkja grunn heilbrigðisstofnananna, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Það er gríðarlega mikil aukning til heilsugæslunnar á landsvísu í fjárlögum og það skiptir mjög miklu máli fyrir til að mynda heilbrigðisstofnanir í kjördæmi þingmannsins. Ég tel að við séum (Forseti hringir.) að fikra okkur smátt og smátt í þá átt að styrkja rekstrargrundvöll þessara stofnana (Forseti hringir.) og held að þar getum við þingmaðurinn (Forseti hringir.) verið sammála um að verkefnið heldur áfram. En það er samt verið að bæta í.