149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér líkaði við orðin sem hv. þingmaður notaði, smátt og smátt, af því þetta er bara allt of smátt og lítið. Verðlag hækkar og launin hækka og því þarf að mæta. En það verður líka að mæta fjölda þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Þegar vöxtur verður ör eins og undanfarið á Suðurnesjum verður að bregðast við því. Þá er ekki hægt að setja einhvern veginn reglustikuna yfir og segja: Nú hækka allir um þetta og allir um svona. Það verður að taka tillit til aðstæðna. Þarna eru aðstæður þannig að bregðast verður við.

Við hv. þingmaður áttum spjall í dag um reynslu mína af þeirri þjónustu. Ég ætla ekki að fara yfir hana hér, en það er ekki hægt að bjóða Suðurnesjamönnum upp á þetta. Þarna eru næstum því 28.000 manns. Í fyrsta lagi er ekki hægt að bjóða íbúunum upp á þá þjónustu né starfsfólkinu, sem er sannarlega, eins og ég sagði áðan, af vilja gert og vill gera vel. Það er orðið svo þreytt. Húsnæðið þarf á lagfæringu að halda og tækin eru lúin. Ég bind vonir við hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég sé til hennar. Ég veit hvað hún getur gert. Ég vona að hún líti núna til Suðurnesja og til vaxtarsvæða eins og á Suðurlandi sem glíma líka við fjölgun ferðamanna. Ég vona að hún geri það núna og ég treysti á að það gerist á milli umræðna.