149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er erfitt og þungbært að þurfa að bíða eftir plássi í hjúkrunarrými. Það er hræðilegt þegar þarf hreinlega að færa fólk á milli landshluta. Í kosningabaráttunni hitti ég konu sem býr í Mosfellsbæ og var stödd á Vík í Mýrdal. Ég vona að hún sé komin heim núna. Hún sagði: Ég er víst ekki nógu veik til að fá flutning. Ég fann til með henni. En auðvitað þarf einhvern veginn að leysa vanda. Hv. þingmaður nefnir að verið sé að byggja hjúkrunarrými og guð minn góður, ef við værum ekki að gera nokkurn skapaðan hlut væri vandinn náttúrlega enn þá stærri.

Ég bið hv. þingmann að hugsa með mér þegar stóru árgangarnir komast inn á elliárin, það er ekki langt í það. Hvernig ætlum við þá að bregðast við? Þegar við horfum núna fram á þann vanda þarf heldur betur að gefa í og það er kannski betra að hafa þetta jafnara heldur en að þurfa að setja allt á annan endann þegar stóru árgangarnir koma inn í kerfið.

Það breytir því þó ekki að mörg hjúkrunarheimili eiga í umtalsverðum rekstrarvanda, það hefur margkomið fram. Einhvern veginn þarf að bregðast við því og það er ekki gert, þannig er nú það.