149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í fyrri ræðu fór ég yfir könnun sem þingflokkur Pírata bað Gallup að gera fyrir sig um það hvernig landsmenn vilja forgangsraða í ríkisfjármálum. Vilja þeir setja í forgang að lækka einhverja skatta? Vilja þeir setja í forgang að hækka útgjöld til heilbrigðiskerfisins sem klárlega er efst hjá öllum flokkum, sama hvar fólk býr á landinu? Það á við um fólk sama hvað það hefur í tekjur, hvaða menntun það hefur og af hvaða kyni það er. Ég vísa í þá ræðu um þær upplýsingar fyrir þá sem hafa áhuga á að fara nánar yfir allar stóru og áhugaverðu tölurnar hvað það varðar.

Núna langar mig að fara beint í stjórnarsáttmálann sjálfan sem er það sem forysta þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, fór með inn í sína þingflokka, sínar miðstjórnir og sitt bakland. Það var grundvöllurinn fyrir því að samþykkja stjórnarsáttmála. Það var grundvöllurinn fyrir því að þingmennirnir sem að honum stóðu myndu samþykkja að styðja ríkisstjórnina og samþykkja að styðja þau fjárlög sem forystan í flokkunum, ríkisstjórnin, legði inn í þingið. Hvað segir þessi sáttmáli og hve vel er hann uppfylltur? Við verðum að horfa á það þannig að það sé réttmæt krafa hjá baklandi flokkanna að fólkið sem það kaus á þing sem síðan kom saman og samþykkti þennan stjórnarsáttmála uppfylli sáttmálann. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna hafa þá réttmætu kröfu.

Förum yfir það. Sumt kom til framkvæmda strax en margt hefur ekki komist til framkvæmda og ýmislegt virðist hafa verið svikið, a.m.k. enn sem komið er. Menn geta náttúrlega gert betur síðar á kjörtímabilinu en tíminn tikkar. Þetta er trúlega þriðja síðasta þingið af því að menn munu líklega boða til kosninga vorið 2021 og tíminn er mjög fljótur að líða.

Byrjum á innganginum.

„Í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.“

Þetta hljómar vel.

„Á Íslandi er staðan í þjóðfélagsmálum um margt óvenjuleg. Tekist hefur að ná jafnvægi í ríkisfjármálum en þegar horft er til innviða samfélagsins og nýrra viðfangsefna blasa við brýn og umfangsmikil verkefni.“

Þarna segir að það eigi að koma Íslandi í fremstu röð. Það á að setja fókus á lykilverkefni og það er nokkuð ljóst, að ríkisfjármálin séu hallalaus. Það hefur tekist. Það sem ekki hefur tekist eru innviðirnir. Ef við horfum á könnunina sem Gallup gerði fyrir þingflokk Pírata vill fólk frekar setja heilbrigðiskerfið í forgang, svo samgöngumálin og menntamálin en ekki skattalækkanir. Fólk leggur ekki áherslu á að greiða upp ríkisskuldir og jafnvel þegar allar skattalækkanirnar eru teknar saman, allur forgangur fólks varðandi skattalækkanir og uppgreiðslu ríkisskulda, nær hann ekki heilbrigðiskerfinu og nær upp í rétt rúmlega helming af þeim forgangi sem fólk setur heilbrigðiskerfið í.

Samt vantar í heilbrigðiskerfið samkvæmt Landspítalanum á þessum fjárlögum 1.600 millj. kr. í rekstur. Það vantar upp á, segir Landspítalinn. Aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu vantar samtals 800 millj. kr. Þetta vantar upp á í rekstri. Landsmenn eru alveg skýrir með sína forgangsröðun. Kjósendur allra flokka setja heilbrigðiskerfið í forgang. Samt eru t.d. veiðigjöld frekar lækkuð um 3 milljarða. Það er mál sem var þvingað með handafli út úr nefnd í ósætti í morgun til að geta komið því hingað í 2. umr. til að reyna að klára það.

Höldum áfram, með leyfi forseta:

„Efnahagur á landsvísu hefur vænkast hratt undanfarin ár en gæta þarf að jafnvægi með þjóðinni og tækifærum allra sem landið byggja.“

Þar finnst öryrkjum þeir skiljanlega vera út undan. Ef við horfum yfir árin frá hruni, síðustu tíu ár, hafa þeir verið sviknir mjög oft á erfiðum tímum um sínar hækkanir. Það er í lögum að þeir áttu að fá hækkanir, það hefur verið sagt í fjárlagafrumvarpi ár eftir ár — en ekki núna. Þeir hafa setið eftir og finnst þeir sviknir af því að allir stjórnmálaflokkar sögðu fyrir kosningar að þeir myndu vilja afnema krónu á móti krónu skerðingu.

Núna eru þeir í þeirri stöðu að það á að eyrnamerkja, ekki 4 milljarða eins og kom í fjárlögum frá ríkisstjórninni, heldur var sú upphæð lækkuð niður í 2,9 milljarða og það á að festa þessa 2,9 milljarða í lok endurskoðunarferlis. Öryrkjar munu þurfa að sætta sig við þá endurskoðun ef þeir ætla að fá það fjármagn til þess m.a. að uppfylla kosningaloforð sem þessi ríkisstjórn gaf. Það er ekki fallegur díll. Það er ekki fallegt að stilla því þannig upp. Það er ekki það sem var sagt fyrir kosningar og öryrkjar hafa réttmætar væntingar um að fá þessa upphæð án þess að þeim sé stillt þannig upp við vegg að þeir verði að fara í gegnum starfsgetumat sem margir eru gagnrýnir á — og hvað? Þurfa þeir þá fyrst að taka slaginn um það hvort það verður starfsgetumat, hvernig það lítur út og fresta og fresta því að öryrkjar fái sínar kjarabætur? Það er ekki það sem var sagt, það er ekki það sem var lofað. Það er eftir á og það er skiljanlegt að öryrkjum finnist það sárt og að þeim finnist þeir sviknir.

Höldum áfram, með leyfi forseta:

„Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings …“

Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma. Það er alveg ljóst að bæði hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson hafa — ég kynnti mér þetta mjög vel þegar ég var að undirbúa kæru og var í kæruferlinu gegn kjararáði — eru alveg skýr með það að stöðugleiki á vinnumarkaði er grundvöllur fyrir stöðugleika í efnahagslífinu. Það er enginn ósammála þessu og þetta hafa menn vitað og þess vegna voru sett lögin um kjararáð, að ekki mætti hækka laun þeirra sem undir það falla, ráðamanna og yfirmanna í ríkisstofnunum og slíku, að ekki mætti hækka laun þeirra umfram almenna launaþróun. Það var gert og hefur forsætisráðherra að sjálfsögðu viðurkennt það og sagt að við verðum komin á sama stað í launaþróun á næsta ári.

Þetta er allt viðurkennt. Það mátti hækka ráðamenn og það mátti hækka þá afturvirkt en öryrkjar þurfa að bíða og með því að brjóta lög mátti hækka ráðamenn. Píratar hafa ítrekað lagt fram lagafrumvörp og breytingar við frumvörp ríkisstjórnarinnar sem hafa verið felld eða söltuð í nefnd um að lækka laun ráðamanna, alþingismanna, ráðherra og annarra sem heyrðu undir kjararáð áður en það var fellt niður, niður að því marki að þau fylgdu almennri launaþróun eins og lög kveða á um. Því hefur ítrekað verið hafnað.

Menn segja að stefna þurfi að stöðugleika til lengri tíma. Já, að sjálfsögðu þarf það en það er ekki gott þegar stjórnarflokkarnir sjálfir, eða ríkisstjórnin, hafna því að grundvalla stöðugleikann á því að ekki séu eins konar tvær þjóðir í þessu landi, önnur sem fær hækkanir umfram almenna launaþróun í trássi við lög og afturvirkt og síðan hin sem þarf að sætta sig við tíu sinnum minni hækkanir á sínum launum.

Að sjálfsögðu skapar það ekki stöðugleika, það skapar óstöðugleika. Hér segir líka, með leyfi forseta, að stefna þurfi að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins.

Það er talað um gagnsæi í allri stjórnsýslu. Það er eitt gott þarna, hæstv. forsætisráðherra er með á sinni þingmálaskrá frumvarp um að kasta upplýsingalögum yfir bæði skrifstofu Alþingis og skrifstofur stjórnsýsludómstólanna. Það er gott og við skulum nefna það og hrósa því sem vel er gert. Það er mjög vel gert.

Það er talað um að efla traust almennings á m.a. stjórnmálum og það er nokkuð sem Katrín Jakobsdóttir setti strax af stað. Út úr því kom ágætt skjal. Það gengur alls ekki eins langt og væri nauðsynlegt, en svo langt sem það nær er það gott og því á að fylgja eftirfylgni að því leytinu til að við munum sjá hvernig verkefnið þróast áfram. Það verður viðmið sem hægt er að fylgjast með inn í framtíðina. Það er líka gott og faglegt.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir.“

Hér er talað um félagslega sátt. Með því að stilla þessu upp, eins og ég nefndi áðan, á þann hátt sem öryrkjum finnst svik við sig og að ná ekki sáttum við þá við vinnslu þessa fjárlagafrumvarps, hvorki ráðherrann né Alþingi, er ekki sköpuð félagsleg sátt við þann hóp. Það eru 20.000 manns í þessu samfélagi. Það er ekki fámennur hópur, það eru 7–8% kjósenda. Það er ekki verið að gera það sem hér stendur, að skapa félagslega sátt við þann hóp.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Að [þessari félagslegu sátt] þarf að vinna. Um leið þarf að bregðast við örum þjóðfélagsbreytingum og breyttri sýn á samfélagið á ótal sviðum en líka ójöfnuði og umróti á heimsvísu.

Ísland getur verið sterk rödd á alþjóðavettvangi með því að vera fyrirmynd um jafnréttismál þar sem hægt er að gera enn betur, setja sér metnaðarfull loftslagsmarkmið, vernda ósnortin víðerni og hlúa að náttúru og lífinu í landinu. Sjálfbær þróun verður í fyrirrúmi við ákvarðanir í samræmi við alþjóðaskuldbindingar og -markmið.“

Ég veit ekki með fyrirrúmið. Hv. þm. Pírata, Smári McCarthy, hefur farið yfir það að þau markmið sem sett eru séu svo langt frá því að bjarga því sem verður að bjarga. Fólk getur kynnt sér það betur.

Áfram, með leyfi forseta:

„Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum.“

Horfið á orðið samráð. Samráð þýðir oft að þegar maður stendur frammi fyrir samráði við stjórnvöld mæti maður og sé upplýstur um það hvaða ákvarðanir stjórnvöld hafa tekið og getur komið með einhverjar athugasemdir. Þær breyta yfirleitt engu, nánast aldrei neinu, en þetta er kallað samráð. Þegar þið heyrið orðið samráð í stjórnarsáttmálanum skuluð þið ekki vera hissa á að það sé ekki það sem venjulegt fólk kallar samráð. Þegar venjulegt fólk talar um samráð á það við að menn tali sig saman og reyni raunverulega að miðla málum og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hlutina. Það er ekki vanalegur skilningur þegar talað er um samráð í stjórnarsáttmála.

„Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.“

Það er allt saman mjög gott.

„Þá verður að auka samráð við vinnumarkaðinn um sterkara samfélag á sem flestum sviðum.“

Aftur er talað um samráð, þarna við vinnumarkaðinn. Já, það er rétt og það er gott að ríkisstjórnin og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafa verið að tala við forsvarsmenn aðila á vinnumarkaði, bæði atvinnurekenda og launafólks, en orðið samráð er lykilorð hérna. Það er alveg ljóst að forsvarsmenn launafólks í þessu landi eru ofboðslega óánægðir með þetta fjárlagafrumvarp. Það samtal skilar sér ekki inn í þessi fjárlög og nú stöndum við frammi fyrir því að kjarasamningar 70% launafólks á almennum vinnumarkaði eru lausir í lok þessa árs. Við erum að sigla inn í kjaravetur.

Það er ekki verið að endurspegla það í þessu fjárlagafrumvarpi, langt því frá. Ég get bara vitnað í frétt á Vísi þar sem formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, segir að það stefni í hörð átök ef þessi fjárlög verða niðurstaðan. Þetta ætti öllum að vera ljóst.

Áfram, með leyfi forseta:

„Loks þarf að treysta enn samráð og stuðning við sveitarfélög að því er varðar uppbyggingu innviða, byggðaþróun og fjármálaleg samskipti.

Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi“ — að einhverju leyti gagnsæi, eins og ég nefndi áðan, með auknum upplýsingalögum. Það er gott — „og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“

Þegar kemur að Alþingi sem er mikið talað um og við stöndum frammi fyrir því að það að styrkja Alþingi og hugsa um áhrif þess o.s.frv. — nú er mál á grundvelli kvörtunar vegna mögulegra brota á siðareglum Alþingis í forsætisnefnd og þar stöndum við mögulega frammi fyrir því að ekki verði farið eftir óhlutdrægni og meginreglum um réttláta málsmeðferð. Þessar siðareglur voru settar að frumkvæði GRECO sem eru samtök ríkja gegn spillingu o.s.frv. en ef menn ætla að fara þá leið verður það ekki, Píratar munu ekki leyfa því að fara þá leiðina. Þetta verður að gera faglega. Annars erum við búin að rústa grundvelli siðareglnanna sem við höfum sett okkur og þá er hægt að nota siðareglurnar til að hvítþvo stjórnarliða en nota þær sem svipu gegn minni hlutanum. Þegar ég var í þessari vinnu, áður en ég hætti á þingi síðast, í forsætisnefnd er það einmitt það sem ég benti á, að ef reglurnar yrðu gerðar eins og þær voru gerðar og ef ekki væri sleginn sá varnagli að það væri óháð fagnefnd, siðareglunefnd, sem væri hægt að vísa málum til sem myndi rannsaka það, værum við komin með þessa stöðu sem núna virðist mögulega vera að koma upp í forsætisnefnd. Ég mun upplýsa landsmenn betur um þessa stöðu. Þetta er grafalvarlegt.

Svo fer maður inn í stjórnarsáttmálann og þar kemur efling Alþingis fyrst. Við skulum sjá til hvernig það mun líta út. Þegar maður les í gegnum hann fer maður að skilja betur forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Öryrkjar ættu ekkert að vera hissa á því að þeirra mál séu ekkert endilega í forgangi og búið að sauma erfið skilyrði og langt ferli framan við að þeir fái sínar kjarabætur. Heilbrigðismálin eru fyrst í kafla tvö um sterkt samfélag. Það er ekkert skrýtið því að efsta forgangseinkunn meðal kjósenda Vinstri grænna snúi að heilbrigðismálum. Menntamálin eru rétt á eftir samgöngumálum í dag en voru nr. 2. Húsnæðismál eru mál sem brenna á mönnum. Svo höldum við áfram: Byggðamál, samgöngur og fjarskipti, löggæsla, menning, skapandi greinar og íþróttir og við erum búin með kafla tvö um sterkt samfélag.

Þá kemur kafli þrjú: Þróttmikið efnahagslíf. Þarna kemur vinnumarkaðurinn, texti um samstillt átak með aðilum vinnumarkaðarins, með leyfi forseta, „til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi. Sátt á vinnumarkaði er nauðsynleg forsenda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og jafnvægi og skapa þannig efnahagsleg skilyrði til lægra vaxtastigs og bættra lífskjara.“

Þetta er í stjórnarsáttmálanum sjálfum. Að sjálfsögðu er þetta allt rétt en það er ekki verið að endurspegla það í þessum fjárlögum. Forsvarsmenn launafólks hafa sagt það og sagt það skýrt.

Svo kemur kafli um skatta, landbúnað, sjávarútveg, ferðaþjónustu, fjármálakerfið og við erum búin með kaflann um efnahagsmál. Þá kemur 4. kafli um umhverfi og loftslag. Þar eru nokkrir undirkaflar.

Svo kemur 5. kafli, Nýsköpun og rannsóknir, og viti menn, ekki fyrr en í 6. kafla sem heitir Jöfn tækifæri er undirkafli um jafnréttismál og loks er kafli um velferðarmál þar sem talað er um að ríkisstjórnin muni, með leyfi forseta, „efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku“.

Þarna kemur þetta og þetta virðist vera það sem stjórnarflokkarnir eru að gera en þetta er ekki það sem þeir sögðu fyrir kosningar. Þarna má lesa út úr þessu að þeir ætli að gera þetta en aftur á móti láta kerfisbreytinguna koma fyrst. Þið þurfið að bíða og þið þurfið að sætta ykkur við kerfisbreytinguna. Ykkar forsvarsfólk mun þurfa að sætta sig við þessa kerfisbreytingu ef þið ætlið að fá það fjármagn sem við lofuðum ykkur í rauninni fyrir kosningar.

Þetta er ekki skrýtið þegar maður skoðar hvernig kjósendur þessara flokka eru. (Forseti hringir.) Þeir eru ekkert sérstaklega mikið fólk með undir 250.000 kr. laun. Ég get komið að því í andsvari rétt á eftir.