149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni ræðuna. Við áttum spjall eftir ræðu hv. þingmanns í gær, ef mér er ekki farið að förlast undir þessum umræðum, og sú ræða var mjög upplýsandi en þessi var öllu beittari. Hv. þingmaður setti saman forgangsröðun í ríkisrekstri, tók framhald af ræðunni frá í gær, um þá könnun sem Píratar hafa gert sem er mjög upplýsandi og fróðleg. Við ræddum það aðeins í gær og svo skynsemi í ríkisfjármálum. Í könnuninni kemur fram sú forgangsröðun að landsmenn vilja öflugra heilbrigðiskerfi umfram til að mynda það að greiða niður skuldir og lækka skatta. Á orðum hv. þingmanns mátti skilja út frá þessum upplýsingum að það hefðu ekki verið skynsamleg ríkisfjármál að greiða skuldir jafn hratt niður og við höfum gert. Ég held að það hafi verið afar skynsamleg stefna. Látum vera að við hefðum 30% skuldaskilyrði laga um opinber fjármál en minni vaxtabyrði hefur aukið svigrúmið til að fara í innviðauppbygginguna sem birtist í þeim fjárlögum sem við ræðum hér.

Ég bið hv. þingmann að útskýra mál sitt aðeins betur varðandi þetta.