149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að útskýra þetta betur. Ég er sammála því að ég held að það hafi verið mjög skynsamleg ríkisfjármálastjórnun að leggja áherslu á að greiða niður skuldir, nýta stöðugleikaframlög í það og lækka vaxtabyrðina, en fara jafnframt í endurfjármögnun eins og við höfum verið í færum til. Við erum í betri færum til þess núna, höfum fengið betra lánshæfismat og fleira því um líkt þannig að við höfum getað endurfjármagnað það líka. Við erum með hagstæðari lán. Ég er sammála hv. þingmanni um að nú getum við farið að skoða hvort við getum hægt á þessu.

Það er ekki endilega æskilegt að ríkissjóður skuldi ekki neitt. Það er þessi jafnvægispunktur núna, við þurfum að fara að vinda okkur í að vinna á þessari uppsöfnuðu viðhaldsþörf. Um það erum við hv. þingmaður sammála. Mér fannst hv. þingmaður draga það mjög skýrt fram hér og kann ég honum þakkir fyrir það.

Hv. þingmaður ræddi hugtakið sátt, tengdi stöðugleika á vinnumarkaði því að öryrkjar væru til að mynda ósáttir með að það hefði tafist að koma út 4 milljörðum. Ég þreytist reyndar ekki á að segja að þeir eru algerlega eyrnamerktir í það verkefni að vinda ofan af vondu kerfi og munu fara í það. Var það ekki einmitt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að ekki var alveg fullkomin sátt um þetta samspil kerfa? Starfsgetumat er það kallað og það er mikilvægt að ná sátt um þær leiðir og tillögur sem ráðherra og starfshópur hans koma með inn í þingið, tillögur sem við getum síðan rætt og útfært.