149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg jafn sammála hv. þingmanni og hann vill lesa úr orðum mínum. Nei, innviðauppbyggingin er of lítil í því sem hér er lagt til. Sátt á vinnumarkaði er ekki grundvölluð í þessu fjárlagafrumvarpi. Varðandi forgangsröðunina í umræddri skoðanakönnun fær lækkun veiðigjalda forgangsröðunina 1,4 en það að auka í almannatryggingar og velferðarmál fær 28,5. Það er nokkuð ljóst að forgangsröðunin er ekki eins og landsmenn vilja sjá hana. Forgangsröðunin er kannski eins og flokksforystan vill sjá hana með sína bakhjarla. Ég held að það sé nokkuð ljóst að hún er ekki eins og landsmenn vilja sjá hana. Það er ekki verið að forgangsraða eins og landsmenn vilja og ekki verið að forgangsraða nógu miklu í innviðauppbyggingu.

Ég er ekkert hissa þegar kemur að öryrkjum eins og ég fór yfir í gær. Ég er með fleiri tölur hér. Þegar kemur að almannatryggingum og velferðarmálum er Framsóknarflokkurinn með 17 í forgangseinkunn, Sjálfstæðisflokkurinn 21 og Vinstri grænir 27 en Samfylkingin er með 45 í forgangseinkunn og Píratar 34.

Staðreyndin er sú að kjósendur ríkisstjórnarflokkanna eru ekki með almannatryggingar og velferðarmál í sama forgangi og kjósendur annarra flokka. Þessi ríkisstjórn er ekki ríkisstjórn öryrkja og svo horfum við á fólk í könnun frá Gallup frá þriðja ársfjórðungi þessa árs sem er með lægri tekjur en 250.000. Hæsti tekjuflokkurinn hjá Vinstri grænum er með meira en það. Um 11% fólks (Forseti hringir.) eru með meira en 1,5 milljónir. Svo stækkar alltaf kjósendahópur Vinstri grænna og er kominn upp í 16% með þeim sem eru með 250.000 og meira, en undir 250.000 dettur niður í 9%. (Forseti hringir.) Staðreyndirnar tala sínu máli, þetta eru ekki flokkar sem setja öryrkja í forgang eða eru með kjósendur sem eru öryrkjar.