149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er aukning útgjalda til samgangna. Ég neitaði því ekki í ræðunni. En aukningin færir okkur bara nær meðaltali undanfarinna, og þó nokkuð margra, ára ef tekið er langt tímabil til að ná fyrir hruntímabilið, til að fá sambærilegan samanburð. Í þeirri mynd hljómar stórsóknin mjög eins og mús sem öskrar: Stórsókn!

Varðandi fjármögnun þessa gríðarstóra verkefnis er það rosalega stór og nauðsynleg spurning fyrir framhaldið. Við stöndum vissulega frammi fyrir því verkefni og við getum ekki hunsað það. Það er ekki hægt að bíða þar til við höfum efni á því, það er bara þannig, hvað skatttekjur varðar.

Hugmyndir Pírata eru, eins og alltaf, að vera með opinn huga gagnvart mögulegum lausnum.

Í morgun var kynning á annarri leið sem hefur verið farin hér og þar um landið. Það er ekki endilega svo galin hugmynd að grunni til til að auka framkvæmdaféð með svipuðum hætti og gert var í Hvalfjarðargöngunum. Það sem við sjáum helst er dreifingin á því. Ef það á að negla höfuðborgarsvæðið inn og setja gjaldahlið í kringum höfuðborgarsvæðið er það ekkert rosalega sanngjarnt upp á jafnræði. Á sama tíma er ekki hægt að setja veggjöld í framkvæmdir úti á landi því að umferð stendur einfaldlega ekki undir þeim afborgunum á (Forseti hringir.) veggjöldum sem væru. En þá væri kannski hægt að fjármagna hluta framkvæmda með veggjaldaláni. (Forseti hringir.) Þá væru veggjöld úti um allt land (Forseti hringir.) þau sömu þótt ekki væri sama umferð. (Forseti hringir.) Þá stæðu þau alla vega undir sjálfum sér alls staðar á landinu, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.

(Forseti (GBr): Forseti vill biðja hv. þingmann að virða tímamörk.)