149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Hér ræðum við fjárlög fyrir árið 2019. Í framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 er gert ráð fyrir að útgjaldavöxturinn verði 4,8% á milli ára. Því er langt í frá hægt að tala um að hér séu lögð fram fjárlög sem leggja til niðurskurð. Gert er ráð fyrir að útgjaldavöxturinn verði tæp 5% í rekstri ríkisins á komandi ári. Viðbótin fer að mestu til velferðarmála eins og á undanförnum árum. Á síðustu tveimur, þremur árum hafa útgjöld ríkisins vaxið um 7–8% á milli ára, vöxturinn hefur verið gríðarlega mikill, og í öllu sögulegu samhengi eftirtektarverð ár ef litið er til þess hversu mikið útgjöld ríkisins hafa vaxið á undanförnum árum og hefur fjármagnið sem lagt hefur verið í útgjaldavöxtinn fyrst og fremst farið í velferðarmál.

Í efnahagslegum áherslum fjárlagafrumvarpsins er bent á að staða ríkissjóðs er traustari en hún hefur verið um árabil, landsframleiðsla aldrei meiri. Mikil áhersla hefur verið lögð á lækkun skulda undanfarin ár og markmiðin nást mun hraðar og fyrr en menn reiknuðu með. Menn fóru í þá vegferð að lækka skuldir ríkisins. Þessi bætta staða gerir okkur nú kleift að ráðast í átak í uppbyggingu innviða og auka framlög til ýmissa mikilvægra málaflokka. Varðandi efnahagslega þætti er lögð sérstök áhersla á að viðhalda þeim mikla efnahagslega ávinningi sem náðst hefur og að varðveita óvenjumikla kaupmáttaraukningu landsmanna sem, eins og við þekkjum, hefur verið umtalsverð á síðastliðnum árum og án allra fordæma.

Það sem er einna eftirtektarverðast í rekstri ríkissjóðs á síðustu árum eru niðurgreiðslur á skuldum ríkisins og hversu vel hefur gengið. Þar hefur verið unnið einstaklega gott starf. Vaxtakostnaður hefur lækkað mikið og hratt á undanförnum árum og sú stefna að greiða niður skuldir hefur styrkt hið efnahagslega umhverfi mikið hér á landi. Það sem er einstakt í því samhengi er að sparnaður heimila hefur aukist á sama tíma og þjóðhagslegur sparnaður er hár. Þetta er algjörlega nýtt í hinu sögulega samhengi þar sem hagvaxtarsveifla hefur yfirleitt endað á mikilli skuldsetningu heimilanna sem hefur drifið hagvöxtinn áfram í hagsveiflunum. Þessu er öðruvísi farið nú. Við erum að klára áttunda árið með umtalsverðum hagvexti, sérstaklega árið 2016 þar sem við vorum með yfir 7% hagvöxt, næsthæst í heiminum, held ég, á eftir Indlandi það ár, fyrir ofan Kína. Á sama tíma hefur alltaf tekist að halda vel um fjármuni ríkisins og ríkið hefur haldið áfram að greiða niður skuldir. Í þessu samhengi er íslenska hagkerfið því betur undir það búið að takast á við niðursveiflu eða efnahagsleg áföll, held ég. Við höfum raunar aldrei verið í jafn góðri stöðu til að takast á við slíkar niðursveiflur og núna.

Mjög skiptar skoðanir hafa verið um lög um opinber fjármál og hvernig hefur tekist til með þau og sjálfsagt höldum við áfram að hafa skoðanir á því. Við höfum kannski í tvö, þrjú ár verið að vinna raunverulega eftir lögum um opinber fjármál. Ýmislegt er eftir að læra og nú gerist það í fyrsta skipti að afkomureglan hefur sitt að segja, að ríkissjóður eigi að skila 1% afgangi af landsframleiðslu. Á það reynir þessa dagana og vikurnar eftir að ný endurmetin þjóðhagsspá Hagstofunnar kom fram, þ.e. að ná þessari afkomureglu. Hún er mikið aðhald frá því sem áður var varðandi rekstur ríkissjóðs og framlagt fjárlagafrumvarp. Síðan verðum við að sjá næstu árin hvernig okkur tekst að takast á við það. Afkomureglan leikur raunverulega helsta agahlutverkið í lögum um opinber fjármál. Við erum með hana stillta 1% núna í fjármálaáætluninni og svo á næstu árum 0,8% eða 0,9% til ársins 2023.

Við ræðum almennt ekki mikið um hvernig tekjustofnar ríkisins eru uppbyggðir. Sú samsetning hefur breyst töluvert á undanförnum árum. Virðisaukaskattur hefur orðið stærri og stærri hluti af tekjum ríkisins. Í dag er áætlað að um 1/3 af tekjum ríkisins komi í gegnum virðisaukaskattinn. Sjálfsagt hefur sprenging í komu ferðamanna til landsins haft töluvert mikil áhrif, einmitt í gegnum þennan lið, virðisaukaskattinn, og mætti klárlega rannsaka betur hvernig þau nákvæmlega koma fram. Samtök ferðaþjónustunnar reikna með að það gætu verið um 20 milljarðar í dag sem koma í gegnum virðisaukaskattinn af erlendum ferðamönnum. Það eru 255 milljarðar sem koma í gegnum virðisaukann og af tekjuskatti einstaklinga 195 milljarðar, eða 24% af tekjum ríkisins. Þessir tveir liðir eru áætlaðir 56% af öllum tekjum ríkissjóðs. Tryggingagjaldið er 101 milljarður og tekjuskattur lögaðila 79 milljarðar. Þetta þýðir að þessir fjórir helstu tekjustofnar ríkisins telja um 79% af tekjuöflun ríkissjóðs. Þetta er tiltölulega einfalt, þ.e. við erum ekki með marga skattstofna á bak við hryggjarstykkið í tekjuöflun ríkissjóðs.

Ég ætla aðeins að ræða um skuldastöðuna og hvernig hún hefur breyst á undanförnum árum, eins og ég kom rétt inn á áðan. Skuldir hafa lækkað frá árinu 2012 um 670 milljarða. Uppsafnaður vaxtasparnaður ríkissjóðs frá 2012 er 138 milljarðar miðað við að vaxta- og annar fjármagnskostnaður hafi verið óbreyttur öll árin, þ.e. miðað við 2012. Þetta eru ótrúlegar tölur, sýna ótrúlegar breytingar í rekstri ríkissjóðs og hversu vel hefur gengið að greiða niður skuldir.

Núna er áætlað að skatttekjur verði 290 milljörðum kr. hærri á næsta ári en 2012 að raunvirði. Það er 50% hækkun á ekki lengri tíma. Tekjuskattur einstaklinga er áætlaður að verði 57% meiri á næsta ári en hann var 2012 og að virðisaukaskatturinn skili ríkissjóði 88 milljörðum meira á næsta ári en árið 2012. Þarna kemur góðærið fram í tölfræðinni.

Nú um áramót eða í byrjun næsta árs nást markmið um að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, fari undir 30% skuldaviðmið sem stefnt hefur verið að í lögum um opinber fjármál og eru að gerast kannski hraðar en menn reiknuðu með, eins og ég kom inn á áðan. Það verður söguleg stund þegar það næst og þetta er ótrúleg breyting á skömmum tíma.

Ég ætla rétt að fara í gegnum velferðarmálin og nokkrar tölur. Framlög til heilbrigðismála verða 21 milljarði hærri á næsta ári en samkvæmt fjárlögum þessa árs, 31 milljarði hærri en á síðasta ári. Alls verjum við 230 milljörðum til heilbrigðismála á komandi ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga. Þannig hafa framlög ríkissjóðs til heilbrigðismála hækkað frá árinu 2013 um rúmlega 77 milljarða kr. eða yfir 50%. 8 milljarða aukning verður til öryrkja á næsta ári, sem þýðir að raunaukning frá árinu 2013 er 26 milljarðar. Til eldri borgara er tæplega 5 milljarða aukning á milli 2018 og 2019 og 40 milljarða raunaukning frá 2013, hefur tvöfaldast á þeim tíma. Í heild verða framlög til málefna öryrkja og eldri borgara um 150 milljarðar á komandi ári. Þetta þýðir að um 381 milljarður fer til velferðarmála árið 2019 eða um 49% af skatttekjum komandi árs, bara til að setja í samhengi við það sem ég minntist á áðan varðandi skattstofna ríkisins. Það er ágætt að fá svona sviðsmynd af þessu, hvernig þetta fellur til.

Ég vil fagna því, svo ég komi inn á það, að nú er gert ráð fyrir kaupum á nýjum þyrlum 2019 og fyrstu 1.900 milljónirnar koma inn í þann pakka á komandi ári. Alls verður varið um 14 milljörðum á næsta ári til þyrlukaupa og reiknað með að þær komi til landsins 2022. Það er löngu tímabært enda er þyrlufloti Gæslunnar farin að eldast töluvert, elsta þyrlan orðin rúmlega 30 ára gömul.

Það er líka rétt að minnast á það að það hefur verið frumjöfnuður í rekstri ríkisins allt frá 2012. Ég efast um að mörg samfélög í Evrópu hafi búið við slíkt á síðastliðnum árum og það er mjög ánægjulegt að þetta sé að nást fram.

Félagar mínir í meiri hluta fjárlaganefndar eru búnir að fara nokkuð vel yfir álit meiri hlutans við 2. umr., þannig að ég ætla rétt að drepa á það sem tengist málefnasviði 14, sem er ferðaþjónustan. Það er einhvern veginn skilið eftir handa mér til að ræða, eins furðulegt og það nú er. Á undanförnum árum hefur vægi ferðaþjónustu í útflutningstekjum þjóðarinnar vaxið umtalsvert. Á síðasta ári var ferðaþjónustan og flugið um 42% af útflutningstekjum þjóðarinnar, sjávarútvegurinn 18%, stóriðjan 14%. Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar ræðum við þetta og þar ítrekum við álit okkar sem kom fram vegna fjármálaáætlunar 2019–2023 í vor um mikilvægi þess að hagskýrslugerð sem varðar ferðaþjónustuna á Íslandi verði bætt, eins og stefnt er miðað við nýjustu fréttir. Það hefur verið áherslupunktur hjá fjárlaganefnd undanfarin misseri, að þessi skýrslugerð verði bætt. Það er mjög góð gagnasöfnun á Íslandi í því sem tengist ferðaþjónustu en skýrslugerðin, hagskýrslurnar og vinna og rannsóknir á þeim tölfræðigögnum sem eru til hefur ekki verið nægilega mikil miðað við efnahagslegt vægi og mikilvægi greinarinnar fyrir íslenskt efnahagslíf eins og staðan er orðin í dag. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að enn frekari vinna verði lögð í það að greina þennan þátt í efnahagslífinu betur. Nú þegar ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsatvinnugrein landsins er mjög mikilvægt að þekking á efnahagslegu mikilvægi greinarinnar sé til staðar. Þá er ekki síður mikilvægt að áhrif greinarinnar á afkomu ríkisins séu greind með sem bestum hætti, eins og ég kom að. Það sem vantar kannski mest upp á eru rannsóknir á hagrænum þáttum í tengslum við ferðaþjónustuna. Þetta ætti að vera áhersluatriði og að styrkja og styðja við þær rannsóknastofnanir sem koma að þessu og einnig að Hagstofan sinni þessu betur. Þá er ég líka að horfa mjög til svokallaðra ferðaþjónustuútreikninga, á ensku heitir þetta, með leyfi forseta, Tourism Satellite Accounts, TSA-útreikningar eða ferðaþjónustuútreikningar. Það er gríðarlega mikilvægt að bæta þetta og gera sviðsmyndagreiningar sem snúa að efnahagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar á íslenskt efnahagslíf og rekstur ríkisins.

Í þessu samhengi er einnig rétt að hafa í huga áherslur meiri hlutans frá því í fyrra vegna fjárlaga og ég vil bara ítreka það sem kom fram þar, með leyfi forseta:

„Öflugur vöxtur hefur verið í komum erlendra ferðamanna á undanförnum árum til Íslands og hann hefur haft mikil áhrif á efnahagslífið. Meiri hlutinn leggur áherslu á að rannsóknir og sviðsmyndagreiningar sem snúa að efnahagslegum áhrifum atvinnugreinarinnar verði efldar. Hér er rétt að ítreka mikilvægi þess að hinn öflugi flugrekstur sem stundaður er af íslenskum flugrekstraraðilum sé einnig skoðaður í þessu samhengi. Sá rekstur skapar umtalsverðan hluta gjaldeyristekna ferðaþjónustunnar.“

Þetta er áherslupunktur sem ég hef persónulega mikinn áhuga á, að það verði tekist á við að rannsaka flugið sérstaklega, ekki að það falli bara undir ferðaþjónustuna eins og er í dag. Þannig er því háttað í dag. Það kemur fram í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um fjárlagafrumvarpið fyrir 2019 að gjaldeyristekjurnar séu um 377 milljarðar. Þar af eru 65 milljarðar tekjur af farmiðakaupum erlendra ferðamanna til landsins. Þar fyrir utan eru miðakaup tengifarþega yfir hafið, vegna tengiflugsins. Það er umtalsvert fjármagn. Í heildina skila flugfélögin í þjóðarbúið í heildargjaldeyristekjum af flugrekstri upp á um 180 milljarða. Það hefur verið þetta hlutfall, 35–40%, af útreikningum í ferðaþjónustunni. Það eru sem sagt 126 milljarðar vegna tengifarþega yfir hafið og íslensks flugrekstrar erlendis. Það er ágætt að vekja athygli á þessu þannig að hv. þingmenn átti sig á hversu gríðarlega háar þessar upphæðir eru sem nú þegar eru farnar að koma í gegnum tengiflugið um Keflavík. Ég vil því leggja áherslu á að það séu gerðar betri rannsóknir á þessu. Það hefur í sjálfu sér ekki verið tekist á við það með neinum hætti að rannsaka þennan þátt, þessi gríðarlegu umsvif í flugi yfir hafið og tengifluginu yfir Atlantshafið. Það væri mjög gott ef það kæmu fram frekari rannsóknir á því sviði.

Ég vil líka benda á mikilvægi olíuverðs í þessari umræðu, þar verður til ákveðin breyta sem kemur eiginlega meira við íslenskt efnahagslíf en hefur verið á undanförnum árum, olían kemur sterkar inn í gegnum flugvélaeldsneytið. Það er nánast fullkominni fylgni á milli verðs á flugvélaeldsneyti og olíuverðs í heiminum á mörkuðum. Við höfum séð sveiflur á olíuverði í byrjun árs og fram í fyrri hluta október, verð á flugvélaeldsneyti hækkaði um 30%, það hefur síðan lækkað aftur á síðustu fimm, sex vikum um 15%. Það væri áhugavert að sjá hvernig það skilar sér inn í þjóðarbúið og hvaða áhrif það hefur. Sviðsmyndagreining sem snýr að þessum þætti hefur ekki verið til en hlutur flugvélaeldsneytis í rekstri flugfélaganna nemur kannski 25–35%. Þarna verður til hagstærð sem er mjög mikilvægt að fylgjast með í samhengi hlutanna, bæði þegar við erum að hugsa um gengisþróun og verð á hvern farþega og annað. Þá verður til breyta þarna sem er stór hluti í þessum rekstri, þ.e. eldsneyti á vélarnar. Ég vildi minnast á þetta. Ég var að velta þessu aðeins fyrir mér í dag þegar ég undirbjó þessa ræðu, ég hef hugsað um það undanfarið að það væri mjög áhugavert að reyna að fara svolítið dýpra í þetta.

Ég vil enn á ný, og hef gert það margoft hér í púlti Alþingis, ýta við því að Oxford Economics skýrslan um flugrekstur á Íslandi sem unnin var 2011 verði endurtekin. Í henni sagði að 6,6% af landsframleiðslu Íslendinga kæmu úr flugrekstri. Þessi rekstur hefur vaxið gríðarlega síðan þá, en þá flugu 16 vélar til og frá landinu; fjórar vélar frá Iceland Express og 12 frá Icelandair. Nú eru Wow og Icelandair með 55 vélar á þessu ári, fjöldinn hefur rúmlega þrefaldast og mikil aukning í pípunum. Þegar rætt er við stjórnendur þessara félaga þá eru menn enn þá bjartsýnir á framhaldið og horfa fram á aukinn vöxt í flugi um Ísland og um Keflavíkurflugvöll, bæði í erlendum ferðamönnum til Íslands og ekki síður á markaðnum í tengifluginu yfir Norður-Atlantshafið, að tengja Ameríku og Evrópu saman. Þessi landfræðilega staðsetning Íslands virðist vera ótrúlega sterkur samkeppnispunktur fyrir þennan rekstur, að vera með þessa staðsetningu og flug um stórbauginn yfir Atlantshafið. Fyrir mjög stóran hluta Evrópu og Ameríku erum við á besta stað til að vinna þetta módel sem menn vinna með í dag.

Nú hefur dregið úr vexti í ferðaþjónustunni. Við erum kannski nær því að sjá núna, í staðinn fyrir þennan ofurvöxt sem hefur verið hér frá 2010 og 2011, að þetta er að komast nær þeim tölum sem voru meðalvöxtur frá 1950–2010. Við erum miklu nær meðalvexti frá 1950 núna en þessum ofurvexti síðustu ára, allt önnur mynd. Hins vegar sjáum við það líka í rekstri flugfélaga að markaður með tengiflugið fer mjög vaxandi sem hlutdeild í rekstri flugfélaganna og ætli það sé ekki núna á þessu ári öðrum hvorum megin við 60%, þ.e. hlutdeild farþega sem eru fyrst og fremst að fljúga yfir hafið. Síðan eru hlutfallslega færri sem koma til Íslands sem erlendir ferðamenn og hlutfall Íslendinga í rekstri félaganna fer stöðugt minnkandi í þessu ferli.

Mig langar rétt að hlaupa hérna á nokkrum atriðum. Almennt tala menn mikið um að eyða peningum í rekstri ríkissjóðs þegar við ræðum fjárlög. Ég vil hins vegar aðeins taka fyrir hvað þarf að gerast í umhverfinu, eins og ég hef kannski rætt um í sambandi við ferðaþjónustuna, og hvað ríkið getur gert til að ýta undir frekari tekjuöflun og að menn standist útgjöld framtíðarinnar, sem fara mjög vaxandi. Við erum með málaflokka þar sem við sinnum okkar fólki og það verður mikil útgjaldaaukning í þeim. Ég ætla rétt að koma inn á samkeppnishæfni útflutningsgreinanna og ég byrja kannski þar sem frá var horfið varðandi ferðaþjónustuna. Í sambandi við tekjur þá lítum við á þessa punkta í dag sem ég minntist á áðan. Þetta er fyrst og fremst ferðaþjónustan og flugreksturinn. Þetta er sjávarútvegurinn og stóriðjan, raforkuframleiðslan, að selja raforku til stóriðju, sem eru stærstu þættirnir enn sem komið er og vonandi náum við að breyta því og fáum fleiri greinar inn. Okkur veitir ekkert af því. Þetta er ótrúleg breyting frá því sem var þegar maður var að alast upp fyrir um 30–35 árum. Þá var sjávarútvegurinn kannski með 75–80% af öllum útflutningstekjum. Hann er kominn í 18%, stóriðjan 14. Þetta er ótrúleg breyting á skömmum tíma. Við erum með allt annað efnahagslíf og allt annað umhverfi en áður. Þess vegna er það svolítið spennandi að sjá hvernig við náum að vinna úr þessu og nýta okkur þær breytingar sem eru að verða.

Varðandi ferðaþjónustuna og flugið er ánægjulegt að sjá að nú er verið að vinna flugstefnu. Samgönguráðherra hefur farið með þá vinnu af stað, það er verkefnahópur og þrír undirhópar sem eru að skilgreina og móta flugstefnu fyrir Ísland á öllum sviðum því að það þarf að efla þessa mikilvægu grein sem flugið er. Það gleymist kannski oft í umræðunni hversu mikil áhrif flugið hefur haft hér á landi á undanförnum árum í öllum þessum gríðarlegu efnahagslegu breytingum sem hafa orðið og uppgangi. Ég hef kannski minnst á það áður að t.d. á Íslandi eru sexfalt fleiri flugmenn hlutfallslega en í Bandaríkjunum sem er mesta flugland í heimi. Því er bara þannig háttað að hér er sirka einn af hverjum 200–250 starfandi atvinnuflugmaður. Það er algjörlega án allra fordæma á heimsvísu, bara til að setja það í eitthvert samhengi hlutanna.

Þetta plagg sem mun koma úr þeirri vinnu sem hafin er við að móta flugstefnu er gríðarlega mikilvægt. Við þurfum að móta þá stefnu hvernig við ætlum að vera samkeppnishæf á þessu sviði til lengri framtíðar og nýta þá samkeppnishæfni sem við höfum með staðsetningu landsins gagnvart umferð sem hefur hingað til fyrst og fremst verið milli Bandaríkjanna og Kanada og Evrópu, en menn eru líka farnir að horfa í dag til Asíu. Ef ég man rétt, til að setja Asíu í eitthvert samhengi, þá tekur það einni klukkustund lengur að fljúga frá Peking til Íslands en að fljúga frá Peking til Kaupmannahafnar. Við erum þrjá tíma að fljúga frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Við erum því ágætlega staðsett líka varðandi ákveðnar stórbaugspælingar og tengingar. Við skulum sjá hvernig þetta vinnst allt og ég held að slíkir þættir ættu einmitt að vinnast inn í þessa hugmyndafræði, inn í flugstefnuna.

Ég verð þá hins vegar að koma að mikilvægi þess að varaflugvellir og uppbygging innviðanna á bak við Keflavíkurflugvöll séu tryggðir. Það verður sjálfsagt hluti af þessari stefnu að tryggja þá og með öðrum hætti líka í annarri vinnu þar sem ég sjálfur er nú í forsæti, ég fer með formennsku í nefnd sem ætlar sér að kynna fyrir mánaðamót hugmyndir sem snúa að þeirri uppbyggingu, að tryggja þá hagsmuni. Eins og ég kom að áðan hefur fjöldinn farið úr 16 vélum í 55 vélar sem er staðsettar í Keflavík, fyrir utan erlendu flugfélögin sem fljúga til og frá Keflavík. Á sama tíma hefur í rauninni ekki verið nein innviðauppbygging þrátt fyrir þreföldun á fjölda véla til og frá landinu.

Nóg um flugstefnuna, en það verður mjög spennandi að fylgjast með á fyrri hluta næsta árs þegar hún kemur fram, hvað kemur fram í vinnu þeirra hópa sem hafa verið að starfa að þessu. En þetta hefur líka verið drifkrafturinn þegar við skoðum bara samkeppnishæfni landsins í gegnum vöru- og þjónustujöfnuð sem er oftast talað um sem viðskiptajöfnuð, samtals vöru- og þjónustujöfnuðurinn. Hann var í fyrra enn þá jákvæður um 4,1% sem er gríðarlega mikið í sögulegu samhengi. Ég hugsa að fá samfélög í Evrópu búi við slíkan munað. Það ýtir náttúrlega töluvert undir efnahagslega sjálfbærni þjóðarinnar að skila þessum mikla jöfnuði enn þá og hann var enn þá meiri fyrir nokkrum árum. Við þurfum að gæta vel að þessu.

Síðan er það samkeppnishæfnin. Nú er verið að móta stefnu í raforkumálum, sem snýr náttúrlega að samkeppnishæfni okkar, og um flutningskerfi raforku, sem er mikilvægur punktur. Iðnaðarráðherra hefur komið af stað hópi um þau mál sem við nokkur hérna, hv. þingmenn, sitjum í ásamt sérfræðingum víða að. Þetta er nákvæmlega eins og með flugstefnuna, það er mjög mikilvægt að móta þessa stefnu og sjá hvernig menn vilja vinna þessi mál, sérstaklega fyrir okkur sem erum með mestu raforkuframleiðslu á hvert mannsbarn hérna á Íslandi. Það er gríðarlega mikilvægt að við mótum góða sýn í þessum málum og það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu í framhaldinu.

Það er líka spennandi að fylgjast með uppbyggingu gagnavera og því sem er að gerast á Blönduósi, þessari hröðu uppbyggingu þar. Það er mjög áhugavert að fylgjast með þeirri þróun. Það sem ég hefði persónulega áhuga á að vita er hvað skapar tekjur fyrir samfélagið, skilar sér í efnislegum gæðum. Ég miða oft við það. Þetta snýst ekki bara um að búa til gjaldeyristekjur heldur líka hvað þetta skilur eftir í landinu. Það eru tekjur á móti gjöldum og allt það. Það er sjálfsagt búið að gera margar skýrslur en ekki hefur verið mikil umræða um það almennt hverju gagnaver skila til samfélagsins. Við erum greinilega að fara í gegnum mjög hraða þróun þessi misserin og eins og við sjáum á Blönduósi þá eru menn komnir í miklu hraðari uppbyggingu þar en var reiknað með bara fyrir einhverjum mánuðum síðan. Erlendir aðilar koma inn í þær fjárfestingar og sjá mikil tækifæri í þessu. Ekki síður hef ég mikinn áhuga á því að þetta verði gagnaver sem byggjast á reiknigetu, sem ég held að skili miklu meira til samfélagsins ef horft er á stóru myndina.

Þriðja helsta útflutningsgreinin okkar er sjávarútvegurinn og þar höfum við náttúrlega verið í ótrúlegum málum. Ég hef bent á það, sem þeir vita sem hafa fylgst með þessum málum, að árið 1990, fyrir 28 árum, voru það 10 kíló sem fór í gegnum hvern starfsmann í vinnslunni. Nú í okkar bestu húsum og tæknivæddustu eru það 180 kíló. Magnið sem fer í gegnum húsin hefur átjánfaldast á 28 árum. Það eru færri og færri sem vinna í þessu og meira fer í markaðsstörf og tæknistörf. Þetta er ótrúlega öflug þróun.

Þetta eru okkar þrjár stærstu gjaldeyrisskapandi greinar. Oft finnst mér vanta meiri umræðu hér í þingsal um þessa hluti, hvað skapar verðmæti og getur gefið okkur forskot inn í framtíðina að byggja á.

Síðan er það náttúrlega nýsköpun almennt. Ég fór í ferð með vísinda- og tækninefnd NATO-þingsins í haust til Kaliforníu og heimsótti San Diego og Kísildalinn. Við heimsóttum mörg helstu hátæknifyrirtæki heims og maður sá ótrúlega möguleika fyrir Ísland til að tengjast þessum aðilum með ýmis verkefni. Það skemmtilega var að allt þetta fólk meira og minna þekkti Ísland. Mjög margir hafa komið hingað sem ferðamenn á undanförnum tveimur, þremur árum og það hjálpar líka til og allt þetta flug, það eru mjög beinar tengingar. Í dag er það í Kísildalnum, í Boston og síðan Austin í Texas þar sem helstu frumkvöðla- og hátæknifyrirtækin í Bandaríkjunum verða til. Maður sér mikla möguleika á að tengjast ýmsu þar. Ég nefni ómannaðar flugvélar, við heimsóttum fyrirtæki með slíkt, þær hafa almennt verið þekktar í hernaði en geta nýst mjög vel á tækni- og rannsóknasviðum, loftslagsmálum og í leit og björgun t.d.

Það fer að styttast í tímanum þannig að ég ætla að geta nokkurra verkefna sem meiri hlutinn í fjárlaganefnd kom beint að varðandi að bæta við útgjöldin. Helsta verkefnið var myndgreiningarbúnaður fyrir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, 200 milljónir til að efla þá starfsemi. Við gátum ekki komið til móts við óskir um aukið rekstrarframlag með sama hætti og í fyrra, beint inn í reksturinn. Það er mikill vandi þar. Að mörgu leyti hefur mér persónulega þótt áherslan vera undanfarin ár alltaf fyrst og fremst á Landspítalann og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa margar hverjar orðið svolítið út undan. Þetta voru 200 milljónir þar. Til SÁÁ voru settar 150 milljónir með því fororði frá meiri hluta fjárlaganefndar að þær ættu að ganga til göngudeildarþjónustu í Reykjavík og á Akureyri og skilgreina það. Ég kom inn á það í byrjun árs í janúar við hæstv. heilbrigðisráðherra, skilgreiningar á þjónustusamningum, samanber SÁÁ-samninginn. Það þarf að skilgreina betur hvað ríkið ætlar sér að fá fyrir það fjármagn sem kemur inn í þjónustusamninga. Þetta er ekkert eina dæmið, við sjáum þetta vítt og breitt í rekstri ríkisins og er sérstakt verkefni að skilgreina betur hvað ríkið vill fá og ætlar sér með því að styrkja viðkomandi þjónustu. Síðan er mjög ánægjulegt líka að við settum 18 milljónir í Aflið á Akureyri. Ég vona satt að segja að það verði í síðasta skiptið, ég trúi ekki öðru en að þetta fari nú að fara inn í grunninn hjá í velferðarráðuneytinu enda mjög gott og mikilvægt verkefni. Ég hef fulla trú á að það hljóti að fara að takast.

Rétt að koma að uppbyggingu innviða til að skapa framtíðartekjur, ég er kannski búinn að fara aðeins inn á það að einhverju leyti, en auðvitað myndi maður vilja sjá miklu meira fara til samgöngumála, í vegagerð og hafnir og hvað þá flugvelli. Vonandi koma nýjar lausnir í þeirri vinnu sem ég er að vinna í samgönguráðuneytinu varðandi slíka hluti. Raforkukerfið okkar er síðan eitt risaverkefni og þar eru menn að hefjast handa við byggðalínuhringinn, Landsnet er þar komið af stað. Byggðalínuhringurinn er um 40 ára gamall, ætli það hafi ekki verið 1972–1980 sem hann var lagður. Nú er elsti hluti hlutinn orðinn gamall og lúinn og Landsnet er að hefja undirbúning framkvæmda sem snúa að þessu og ætlar að byrja fyrir norðan frá Rangárvöllum að Kröflu, Hólasandslínu 3. Byrjar reyndar á Kröflu í Fljótsdalsstöð, Kröflulínu 3, síðan verður farið í Hólasandslínu 3, frá Kröflu að Rangárvöllum, og vonandi sem fyrst í Blöndulínu þrjú og tengja þar með Rangárvelli að Blöndu. Ef við ætlum að nýta raforku í þessu landi með sem bestum og skynsamlegustum hætti og minnka orkutap þá verður að klára þetta sem fyrst og klára þessar tengingar á milli svæða. Það er líka mikið öryggisatriði að tengja norður- og suðursvæðin saman og það snýr ekki síður að náttúruvá á suðvesturhorninu og Þjórsársvæðinu þar sem stór hluti allrar raforku í landinu verður til. Þess má geta að frá Blöndu að Fljótsdalsstöð er mjög svipað raforkumagn framleitt eins og nánast á öllu Þjórsársvæðinu. Þetta snýr að heildarnýtingu orku og að tryggja öryggi í landinu sem best. Þar horfa menn til mjög margra þátta eins og við samþykktum í júní varðandi flutningskerfið, um fimmtán punktar sem sneru að því. Uppbygging þess er feikilega mikið verkefni og tengist náttúrlega langtímaorkustefnunni sem ég kom aðeins inn á rétt áðan.

Ég vil rétt koma inn á verkefni sem er gríðarlega stórt og mikið og ég hef oft tekið upp í fjárlaganefnd. Við höfum fyrst og fremst í heilbrigðismálum horft til öldrunar þjóðarinnar. Það er að koma yfir okkur á næstu árum. Sú þróun gerist tiltölulega hratt. Við verðum komin í þá stöðu innan ekki svo langs tíma að í staðinn fyrir að hér séu fimm, sex vinnandi manns á móti hverjum öldruðum, verður hlutfallið þrír starfandi fyrir einn aldraðan. Það styttist í þetta.

Við þurfum í styttri tímalínu að skoða mjög örorkumálin, örorkuþega og þá sprengingu í fjölda sem er þar. Við verðum að finna út hvað er í gangi þegar við skoðum gögn sem snúa að ungu fólki, örorku og geðheilbrigðismálum. Það er eitthvað að. Þetta er ekki bara á Íslandi. Þetta ræðir maður við þingmenn úti um alla Evrópu. Þetta virðist vera að ganga um alla Evrópu. Ég hef minna rætt þetta í Bandaríkjunum þar sem maður hefur verið á fundum með þingmönnum en í allri Evrópu virðist þetta vera risamál. Við í hinum vestræna heimi þurfum að takast á við þetta, þetta hefur eitthvað að gera með lífsháttabreytingar og annað. Þetta er eitt af allra stærstu málunum, nýgengi örorku, sú tölfræði sem við höfum verið að sjá þar og í öllu kerfinu. Ég hef bara engan tíma í þessari ræðu til að klára þá umræðu hér.

Bara rétt í lokin, það eru fáar sekúndur eftir. Það er eftirtektarverð staða á Íslandi í efnahagsmálum. Við erum með fjöregg í höndunum og það er stórt og mikið verkefni að fara vel með fjöreggið. Við eigum að nýta þessa eftirtektarverðu stöðu sem hefur myndast hér á Íslandi á síðustu árum og spila vel úr henni. Nú er tímanum alveg að ljúka og væri náttúrlega skemmtilegt að komast í aðra ræðu um ákveðna þætti. Ég er nú ekki að boða það að lengja mikið þetta kvöld hjá okkur, en það er margt mjög spennandi sem við erum að fást við í fjárlaganefnd og í þessari umræðu sem tengist fjárlögunum.