149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:36]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður líta svo vinalega til mín þegar hann ræddi flugmál að ég stóðst ekki mátið að líta svo á að við myndum ræða þetta sameiginlega áhugamál okkar. Þannig að ég bít á þann öngul og er hingað kominn.

Mig langar að velta einu fyrir mér og það er uppbygging flugvalla um allt land og ákveðna sýn sem ég hef á það. Ég held nefnilega að miðað við reynslu annars staðar frá sé ákveðin forsenda fyrir því að hægt sé að byggja upp öfluga flugvelli um allt land, en við séum ekki með einn einokunaraðila á því sviði. Það var t.d. reynslan í mínu gamla heimalandi, Póllandi. Á meðan það var einn aðili sem rak alla flugvelli, þá vildi hann hafa stóra aðalflugvöllinn flottan og aðrir flugvellir gegndu bara einhverju jaðarhlutverki. En um leið og þessu félagi var splittað upp í mörg sjálfstæð félög var metnaður á hverjum stað fyrir því að byggja miklu dreifðara net flugsamgangna.

Ég er að leita eftir sjónarmiðum hv. þingmanns hvað þetta varðar, hvort hann telji að það yrði ekki farsælla fyrir þróun flugs í landinu að kannski eitt félag myndi halda um malarflugvellina og kannski þá flugvelli sem alltaf munu fyrst og fremst gegna ákveðnu öryggishlutverki, en þeir flugvellir sem hafa færi á því að þróast sem öflugir alþjóðaflugvellir, ég nefni þá t.d. flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum, fengju að starfa sjálfstætt og væru jafnvel í samkeppni við aðra flugvelli.