149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:38]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa bitið á öngulinn. Við búum við það hér á Íslandi varðandi alþjóðaflugvellina og flugið að við erum eyja mjög langt frá Evrópu og Bandaríkjunum og öðrum alþjóðaflugvöllum. Þess vegna er svo nauðsynlegt fyrir okkur að við byggjum okkar kerfi sem heild. Keflavíkurflugvöllur getur ekki staðið bara einn með fínar brautir og annað, hann verður að hafa eitthvert hryggjarstykki á bak við sig til að tryggja flugöryggi. Það er kannski það sem gerir þetta svolítið óvenjulegt hjá okkur miðað við flug í Evrópu t.d. eða Bandaríkjunum þar sem eru eiginlega flugvellir úti um allar trissur. Þessi meginlönd eru þakin flugvöllum.

Það sem menn hafa hins vegar gert t.d. á Norðurlöndunum og við erum að tala um að skoða kannski hér á Íslandi, er að vera með heildarsýn í flugvallarkerfum til að tryggja öryggishagsmuni. Avinor í Noregi, Swedavia í Svíþjóð og Finavia í Finnlandi reka svona heildarkerfi alþjóðaflugvalla til að tryggja heildarkerfið. Mér finnst mjög ólíklegt að í okkar umhverfi, þessi fámenna þjóð með þessa staðsetningu á hnettinum, verði bara til fullt af alþjóðaflugvöllum og hér verði allt á fullu. Ég kom í umræðu hérna ekki fyrir svo löngu þegar við vorum að ræða um Alexandersflugvöll, mögulegan alþjóðaflugvöll í Skagafirði. Ég fór einmitt í gegnum þessa flugtæknilegu hluti sem snúa að því hvað alþjóðaflugvöllur þarf að hafa til brunns að bera til þess að geta starfað sem slíkur. Þetta er umtalsverð starfsemi og mikill rekstrarkostnaður bara við að halda þessu gangandi frá degi til dags, allar fjárfestingar og slíka þætti. Ég sé ekki fyrir mér staka flugvelli vítt og breitt um Ísland sem ekki eru hugsaðir til að gæta heildarhagsmuna í flugöryggi. Flugöryggi er alltaf fyrsta vers í öllu flugi. Síðan getum við farið að tala um excel-skjalið og reksturinn.

Við Íslendingar þurfum að gæta þess að nýta heildarmyndina og þá (Forseti hringir.) kannski bendi ég á umræðuna sem við tókum um daginn um Alexandersflugvöll þar sem ég fór í nokkuð löngu (Forseti hringir.) máli í þessa flugtæknilegu hluti og það sem þarf að vera til staðar.