149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:41]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir andsvarið. Ég tel að það séu ekki efnahagslega hagrænir möguleikar í dag að reka einn stakan flugvöll á Íslandi sem rekinn væri á þessum nótum, flug til og frá landinu eða taka við erlendu farþegum. Það getur vel verið að það taki einhverja áratugi, þetta gæti verið í sviðsmyndum framtíðarinnar eftir einhver ár. En eins og ég var kannski að reyna að koma inn á í umræðum um daginn um mögulegan Alexandersflugvöll, það hafa líka verið hugmyndir um Árborg, Höfn í Hornafirði, þá tók ég sérstaklega fyrir hvernig maður getur séð aðra hluti tengjast, en ég tel forsendurnar á þessum tímapunkti bara ekki vera til staðar, að hver og einn flugvöllur á eigin forsendum geti verið akkúrat í þessu sem hv. þingmaður kemur inn á. Ég tel að með nákvæmlega sama hætti og menn eru að skoða þessi mál í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og víðar þá eigi menn að líta til heildarinnar og heildarflugvallarkerfa til að tryggja öryggi flugsins.