149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:45]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Það hefur verið mikið góðæri á Íslandi á undanförnum árum, það er held ég öllum ljóst. Ég held að við séum að sigla inn í miklu rólegra umhverfi en ég tel líka að við eigum að geta lent þessu ágætlega til næstu ára. Eins og hv. þingmaður þekkir kannski af því að hann hefur starfað í fjárlaganefnd þá hef ég spurt flesta hagfræðinga sem hafa komið þar inn hvernig þeir meti ástandið varðandi þá breytingu sem hefur orðið á efnahagslífi þjóðarinnar með tilkomu ferðaþjónustunnar. Þjónustujöfnuðurinn er orðinn raunverulega stóra stærðin sem menn eru farnir að horfa til efnahagslega. Vöruskiptajöfnuðurinn hefur verið mjög óhagstæður í mörg ár. Í gamla daga var bara litið á vöruskiptajöfnuðinn og þjónustujöfnuðurinn var afgangsstærð. Vöruskiptajöfnuðurinn mótaði eiginlega viðskiptajöfnuðinn.

Ég held að fróðlegt sé að fylgjast með því sem er að gerast og hvað gengisveikingin þýðir sem hefur orðið síðustu misserin, þar sem veikingin hefur verið í 10–15% og raungengið farið svolítið niður. Þess vegna er ég farinn að spyrja: Af hverju förum við ekki að skoða miklu meira flugvélaeldsneyti og ákveðna þætti og olíuna sem er aftur að koma inn í? Þetta er orðnar miklu stærri og mikilvægari efnahagslegar stærðir til að mynda í hagspám og slíkum málum. Ég held t.d. að samkeppnishæfni útflutningsgreina hafi vaxið töluvert undanfarin misseri. Við vorum númer tvö í heiminum varðandi styrk á launum og slíku í alþjóðlegu samhengi.

Ég er ekki mjög neikvæður þegar kemur að því hvernig við sjáum þetta fyrir okkur. Það sem er einstakt í því líka, og ég kom inn á það áðan, er að Íslendingar eru enn þá að borga niður skuldir (Forseti hringir.) eftir átta ár í hagsveiflu, í töluverðum hagvexti. Það er eitthvað öðruvísi við það. Þess vegna er þetta svolítið (Forseti hringir.) spennandi umhverfi, hvernig þetta er að þróast hjá okkur, hvernig þessar miklu breytingar eru.