149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir að koma í ræðu. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart hvernig hann talar, hann kemur gjarnan úr annarri átt og með vinkil sem ekki er annars í umræðunni. Fyrir það vil ég þakka og það er það sem gerir þessa umræðu jafn gagnlega og hún raunverulega er búin að vera, að það koma virkilega gagnlegar ræður og ábendingar.

Ég kem ekki alveg í staðinn fyrir hæstv. menntamálaráðherra í þessum efnum, en ég held að þetta sé hlutur sem við þurfum að huga betur að og hv. þingmaður sem starfar á sveitarstjórnarstiginu áttar sig á, og fór reyndar yfir hér, að það er skörun á milli stiga. Það er ekki tilviljun að þetta er undir þeim lið í fjárlagafrumvarpinu vegna þess að þarna erum við nær börnunum í grunnskólunum að þessu leytinu. Hv. þingmaður kom vissulega inn á þörfina sem er í framhaldsskólum og á háskólastigi.

Mér finnst ábending varðandi þróunarsjóð námsgagna þörf og mun alveg örugglega koma þeirri pælingu til skila til hæstv. ráðherra. Ég vil jafnframt draga fram að þetta á við um fleiri svið, eins og íþróttir og æskulýðs- og tómstundastarf. Það kemur fram í áliti meiri hlutans að íþróttastarf fari að stærstum hluta fram á vettvangi sveitarfélaga, hjá frjálsum félögum og félagasamtökum og sé drifið áfram að miklu leyti af sjálfboðaliðastarfi. En það er lögð áhersla á að greiða fyrir þátttöku barna af erlendum (Forseti hringir.) uppruna. Ég þekki ágætlega í gegnum íþróttastarfið hversu mikilvægt það er, ekkert síður en í skólastarfi.