149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:03]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir andsvarið þó að ég hafi kannski ekki lesið neina skýra spurningu úr því. Það er engu að síður ánægjulegt að eiga í þessum orðaskiptum.

Ég vil nefna tvennt í þessu samhengi, í fyrsta lagi varðandi æskulýðs- og íþróttastarf — og áfram beini ég því inn í umræðuna fyrir forgangsröðun á verkefnum þegar að því kemur — að ég held að of mikill fókus í umræðu um þátttöku barna með annað móðurmál en íslensku í íþróttastarfi hafi verið á upplýsingagjöf, þ.e. þá ímynd okkar að ástæðan fyrir því að börn af erlendum uppruna taki ekki þátt í íþróttastarfi sé að þau viti ekki af tilvist þess með einhverjum hætti. Það er ekki alveg mín reynsla. Það grátlega í mörgum tilfellum þegar ég hef talað við foreldra eða börn sem hafa flosnað upp úr íþróttastarfi er að þau hafa hafið íþróttaiðkun og síðan hætt því. Oft eru þetta börn sem æfðu viðkomandi íþrótt heima fyrir en eitthvað í umhverfinu hefur gert það að verkum að þau hafa ekki haldist í starfinu hér.

Ég beini því aðeins inn í umræðuna að ef við legðum áherslu á þennan málaflokk og settum í hann fé hugsuðum við líka um það hvað félögin og við sjálf gætum gert hjá okkur frekar en einungis að reyna að hvetja til þess að ná í fólk af því að það er til lítils ef það heldur sig síðan ekki þar inni.

Hitt sem ég myndi vilja grípa aðeins varðar þá hugmynd sem ég var með um að ráðuneytið myndi hagræða hjá sjálfu sér og auka þróunarsjóðinn. Ég held að slíkur þankagangur væri góður, að menn myndu stundum aðeins minnka einhvers staðar og setja aðeins meira út í samfélagið, líka vegna þess að aðhaldið eykst meira með þessum hætti en þegar menn þenja alltaf út. Þá er lítill hvati til að (Forseti hringir.) hugsa hlutina upp á nýtt.