149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vil koma aðeins inn á nú þegar líður að lokum umræðunnar. Annað varðar tekjuhlið frumvarpsins og þá sérstaklega framkvæmd skattaálagningar og innheimtu skatta og gjalda og mikilvægi hennar þegar kemur að tekjugrunni ríkissjóðs. Síðan vil ég koma inn á framsetningu gagna frumvarpsins og fylgirit þess, en á það er aðeins minnst í nefndaráliti meiri hlutans.

Það skiptir miklu máli að álagning og innheimta skatta sé skilvirk og áreiðanleg. Álagning skatta byggist að stærstum hluta á framtalsskilum einstaklinga og lögaðila og skilum atvinnurekstraraðila á vörslu- og innheimtusköttum. Eins og við þekkjum er það staðreynd að hjá of mörgum er tilhneiging til þess að losna undan skattgreiðslum og skilum á vörslufé. Rannsóknir sem hafa verið gerðar á undanförnum áratugum benda til að undanskot frá skatti geti verið 4–6% af vergri landsframleiðslu og skattyfirvöld hafa einnig gert athuganir á undanskotum sem styðja þá niðurstöðu.

Undanskot frá skatti eru talin skerða tekjur ríkisins og sveitarfélaganna samanlagt um allt að 80 milljarða kr. Það er ljóst að slík undanskot og tekjutap opinberra aðila sem af því leiðir er umtalsvert. Það er mjög mikilvægt að leitað sé leiða til að draga úr undanskotum frá skatti með öllum tiltækum ráðum

Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að stutt verði við baráttu gegn kennitöluflakki. Það er meinsemd í íslensku samfélagi sem kostar þjóðfélagið verulegar fjárhæðir árlega.

Helsta verkfæri til að tryggja betri innheimtu skatta og gjalda er skilvirk, fljótvirk og áreiðanleg löggjöf sem tryggir að skilvirkni skattgreiðenda sé sem mest í samræmi við nútímaaðstæður í fjármálakerfinu. Þetta kemur m.a. fram í umsögn Ríkisendurskoðunar við fjárlagafrumvarpið. Það er full ástæða til að löggjafinn skoði hvort móta þurfi nýjar reglur sem gætu stemmt stigu við undanskoti frá skatti.

Það er einnig athyglisvert sem kemur fram í umsögn Ríkisendurskoðunar við frumvarpið, að rúmlega 25% lögaðila skili ekki skattframtali á réttum tíma og sæta því áætlun skattstofna. Áætlanir skattstofna þegar svo margir eiga í hlut skekkir og hlýtur að skekkja töluvert hagstjórn ríkisins með því að skatttekjur geta verið reiknaðar of háar. Þess vegna er mjög mikilvægt og full ástæða til að leita allra leiða til þess að tekjugrunnur ríkisins sé sem réttastur.

Ríkisendurskoðun vinnur nú skýrslu fyrir Alþingi um það hvaða leiðir eru færar til að gera lagaákvæði um skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti skilvirkari. Það verður áhugavert, herra forseti, að sjá niðurstöðu skýrslunnar og væntanlega tillögur í þeim efnum.

Ég vil þá næst víkja aðeins að því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans undir kaflanum Töluleg framsetning gagna frumvarpsins og fylgirits. Þetta er mjög góður og þarfur kafli sem meiri hlutinn hefur sett inn í nefndarálitið og ég fagna því. Ég er alveg sammála því sem þar kemur fram, en m.a. segir að meiri hlutinn telji að töluleg framsetning gagna í frumvarpinu sé um margt ruglingsleg og að nauðsynlegt sé að bæta úr framsetningu talnagrunns, textaumfjöllunar um einstök málefnasvið og sundurliðunar í fylgiriti með frumvarpinu. Þetta tek ég, eins og ég sagði áðan, heils hugar undir. Það er ákaflega mikilvægt fyrir þingmenn og nefndarmenn í fjárlaganefnd að þeir hlutir séu í lagi. Það ætti ekki að vera flókið mál að mínu viti að bæta hér um betur.

Nokkrir aðilar hafa nefnt það í umsögn sinni við fjárlagafrumvarpið að þetta verði að bæta. Ég vil vitna aðeins í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um þetta tiltekna atriði, en þar segir að frumvarpið sé afar ógagnsætt, og þá er verið að tala um hina tölulegu framsetningu. Þannig sé ógerningur að rekja framlög til málaflokksins niður á einstakar stofnanir. Það er að sjálfsögðu bagalegt.

Síðan segir í því sambandi varðandi hjúkrunar- og dvalarheimili:

„Þá er ógerlegt að átta sig á því hvaða rýmafjöldi eða legudagafjöldi liggur að baki framlaga til öldrunarstofnana og daggjalda.“ — Þetta er að sjálfsögðu bagalegt fyrir þessa aðila. — „Af þeim sökum er erfitt að henda reiður á hvort um fullnægjandi hækkun sé að ræða með tilliti til aukinnar hjúkrunarþyngdar eða hvernig framlögin skila sér til einstakra stofnana.“

Að lokum segir í umsögninni:

„Hér væri mjög til bóta að í fyigiskjali með fjárlagafrumvarpi kæmi fram listi yfir stofnanir á hverju málefnasviði og hvernig framlög skiptast niður á þær.“

Ég tek heils hugar undir það.

Í nefndaráliti meiri hlutans stendur nefndin í heild sinni saman að nokkrum atriðum hvað þetta varðar. Má þar nefna að framsetning talnagrunns verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að skýra og einfalda framsetninguna. Hugsanlega þurfi lagabreytingar til að ná því fram. Fylgirit með frumvarpi verði mun ítarlegra en nú er og þannig verði auðveldara að rekja fjárveitingar einstakra ríkisaðila, félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.

Hér er svo fylgiritið sem ég nefndi og rætt er um. Þegar maður flettir því sér maður að það væri mjög til bóta að gera einfalda breytingu, að hafa t.d. sérstaka kafla, yfirskrift, um stofnanir ríkisins. Þetta er allt í hálfgerðum belg og biðu og mætti laga töluvert.

Einnig er í því sameiginlega áliti fjallað um að verulega verði dregið úr endurtekningum og nauðsyn þess í skýringartexta einstakra málefnasviða og flokka. Horft verði til þess að skýra fyrst og fremst breytingar á heildargjöldum og sleppa eins og hægt er skýringum samkvæmt hagrænni skiptingu. Megináhersla í texta frumvarpsins ætti að felast í ítarlegri skýringum á svokallaðri útgjaldabrú sem birt er fyrir hvert málefnasvið fyrir sig. Fram til þessa að hafa skýringar verið of knappar og oftar en ekki bæta þær engu við stöplaritið sem sýnir breytingar á ramma á milli ára.

Ég fagna því að nefndin standi heils hugar á bak við þær athugasemdir. Ég treysti því að formaður nefndarinnar komi þeim á framfæri þannig að næst þegar við fjöllum um frumvarp til fjárlaga, væntanlega fyrir árið 2020, verði búið að gera bragarbót á svo að það verði skilvirkara og gegnsærra.